Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Helgin mín - Valdimar Guðmundsson tónlistarmaður
Föstudagur 11. febrúar 2011 kl. 11:31

Helgin mín - Valdimar Guðmundsson tónlistarmaður

Valdimar Guðmundson er söngvari Keflvísku hljómsveitarinnar Valdimar sem hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarið og hefur hvert lagið af fætur öðru ratað inn á vinældarlista Rásar 2. „Tilfinningin er bara ágæt. Óvænt og skemmtilegt. Fólk hefur aðeins meiri áhuga á að spjalla við mann niðrí bæ og svona,“ segir Valdimar þegar hann er spurður að því hvernig það sé að eiga vinsælasta lag landsins, en lag þeirra Valdimarsmanna, Undraland hefur verið á toppi vinsældarlista Rásar 2 undanfarið. Í gær kom það svo í ljós að sveitin er tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokknum besti nýliði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hljómsveitin gaf út sinn fyrsta disk fyrir jólin sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Þessa dagana er Valdmar atvinnulaus en er þó ekki alveg eirðarlaus þar sem hann er að læra í tónlistarskóla FÍH. Hann segir nánastu framtíð Valdimars vera tónleikar hér og þar á Þorrablótum og árshátíðum og við ýmis önnur tilefni og að þeir fari líklega að vinna í nýju efni í vor eða sumar. „Við erum allir í okkar eigin horni að vinna í nýjum lagahugmyndum og núna eru það ekki bara ég og Ásgeir sem erum að semja, þannig að samkeppnin um að ná lögum inn á plötu er orðin meiri.“
Hans aðal áhugamál er auðvitað tónlistin. Einnig er Valdimar líka mikið fyrir það að horfa á uppistand og væri sjálfur alveg ofboðslega mikið til í það að geta verið svona fyndinn eins og Billy Connolly og Louis CK og fleiri. „Svo er það bara þetta týpíska karlaáhugamál, enski boltinn,“ bætir hann við er Valdimar deildi með okkur hvað væri á dagskrá hjá honum um helgina.

Spila í Reykjavík

„Helgin verður þannig hjá mér að á föstudagskvöldið munum við í Valdimar spila í veislu í Reykjavík hjá Atafl sem er að fagna því að hafa lokið við að byggja nýtt hús.“

Enski boltinn og Þorrablót hjá körfunni

„Í hádeginu á laugardeginum mun ég svo kíkja á leik minna manna í Manchester United gegn grönnum sínum í City. Þar verður eflaust eitthvað neikvætt látið flakka um Carlos Tevez. Við erum svo að spila órafmagnað á þorrablóti hjá körfuknattleiksdeild Keflavíkur á laugardagskvöldið.“ Einnig koma þar fram Einar Mikael töframaður sem og Róbert Marshall sem verður ræðumaður kvöldsins.

Læri með fjölskyldunni á sunnudeginum

„Sunnudagurinn mun væntanlega annað hvort einkennast af þynnku eða gleði yfir því að vera þynnkulaus. Á sunnudagskvöldið fer ég svo í mat til pabba og ég og systir mín og dóttir hennar fáum læri frá matreiðslumeistaranum Mumma Hermanns. Svo er líklega eitthvað vinahangs þarna í millitíðinni líka, þar sem Fifa og kvikmyndir verða á boðstólnum.“