Helgin mín - „Útskrifast úr ferðamálafræði“
Sunneva Guðjónsdóttir útskrifast úr ferðamálafræði nú á laugardaginn frá Háskóla Íslands eftir þriggja ára nám. Sunneva er Njarðvíkingur að upplagi en hún hefur verið á flakki undanfarin ár og er hvergi nærri hætt.
Sunneva byrjaði í náminu þegar hún bjó í Berlín í fjarnámi frá Háskóla Íslands. Hún segir það ekki hafa verið sérlega erfitt að byrja nám þegar hún bjó erlendis því hún var það áhugasöm um námið og ákveðin í því að læra ferðamálafræði. Ferðamálafræði er tiltölulega ný grein hérlendis og því er ætlast til að nemendur taki hluta af náminu erlendis. Annað árið sitt dvaldi Sunneva því á Spáni í Barcelona og líkaði vel. Sunneva segir tímann í Barcelona hafa verið frábæran og segist vera orðin þónokkuð sleip í spænskunni og mjög gaman hafi verið að prufa eitthvað nýtt. Hún segir að dvölin á Spáni hafi í raun stytt námið töluvert, það hafi verið einhvern veginn fljótara að líða.
Áður var Sunneva á ferðamálabraut í menntaskólanum í Kópavogi og útskrifaðist sem stúdent þaðan. Fljótlega eftir það flutti hún til Berlínar í rúm fjögur ár og lærði þýsku og var að vinna þar áður en hún byrjaði í Ferðamálafræðinni. Hún segir Berlín vera æðislega borg sem hafi uppá mikið að bjóða og ódýrari en gengur og gerist í Evrópu.
„Ég er á þvílíkum tímamótum í lífi mínu um þessar mundir og veit í raun ekkert hvað tekur við hjá mér. Ég er að velta svona fimm mismunandi hlutum fyrir mér.“ Sunneva er búin að sækja um í mastersnámi í Háskóla Íslands í þróunarfræði. „Hluti af því námi er dvöl í Afríku í skiptinámi og ég veit ekki alveg hvort ég sé tilbúin að fara til Afríku.
Er óákveðin með framhaldið
„Svo hef ég líka verið að skoða mastersnám víða erlendis og líst mér vel á að fara til Stokkhólms í eitthvert nám. Svo hef ég verið að hugsa um að vera bara að vinna,“ en Sunneva starfar hjá Ferðaþjónustu bænda og hefur gert alla sína háskólagöngu þar sem hún er ferðaskipuleggjandi og hún segir starfið vera afar skemmtilegt.
„Svo var ég líka jafnvel að pæla að fara bara í bakpokaferð um Asíu, þannig að ég er alveg á krossgötum,“ segir Sunneva. Hún segist þó vera nokkuð viss um að hún muni ekki vera áfram á Íslandi, hana langi til að búa erlendis aftur.
„Í sumar ætla ég að vera mikið að vinna. Mér finnst ótrúlega gaman í vinnunni minni á sumrin. Þá er mikið að gera og mikið að ferðamönnum að koma til Íslands. Ég ætla að reyna að komast í utanlandsferð í svona viku og reyna jafnvel að fara til Stokkhólms Þar ætla ég að heimsækja vinkonu mína og skoða borgina og skólana. Ég verð að komast í eitthvað sumar þar sem það virðist ekkert á leið til Íslands.
Um helgina verður eins og fyrr segir útskrift hjá Sunnevu og því nóg um að vera.
Veisla á Sólon á laugardeginum
„Á föstudeginum verð ég í rólegheitunum heima hjá mömmu og pabba og skelli mér í klippingu um daginn. Ég er í fríi í vinnunni og ætla bara að dunda mér að búa til lagalista fyrir veisluna. Svo á ég Skype-stefnumót með vinkonu minni um kvöldið,“ segir Sunneva en hún ætlar sér að taka það rólega á föstudeginum og undirbúa stóra daginn.
„Á útskriftardaginn er athöfnin þar sem fjölskyldan verður viðstödd og svo munum við senniilega fara að skála einhverstaðar eða fá okkur eitthvað að borða saman.“ Svo verður heljarinnar veisla um kvöldið en Sunneva hefur leigt sal í Reykjavík og býst við fjölmenni í veisluna.
„Ætli ég fari ekki bara í brunch og sund og hafi það bara náðugt á sunnudeginum enda verður dansað mikið á laugardeginum,“segir Sunneva að lokum.
[email protected]