Helgin mín - Málar herbergið og borðar páskaegg
Aníta Ósk Georgsdóttir stundar nám í hárgreiðslu við Iðnskólann í Hafnarfirði og er að klára fjórðu önnina þessa stundina. Auk þess vinnur hún hjá hárgreiðslustofunni Hár & Rósir í Innri-Njarðvík. Sjálf er hún búsett í Keflavík og er í sambandi með Þorsteini Pálssyni sem starfar hjá öryggissveit NATO í Afganistan. Hennar helstu áhugamál eru allt sem viðkemur hári, ferðalög, körfubolti og líkamsrækt. Auk þess nýtur hún þess að skemmta sér og fyrst og fremst að njóta þess að vera til.
„Í sumar ætla ég að vinna á hárgreiðslustofunni með yndislegu stelpunum mínum, njóta þess að vera með frábæra kærstanum mínum þegar hann kemur í fríin sín í sumar. Fara til London. Ég get ekki beðið eftir því, hef aldrei farið en ferðina fékk ég í afmælisgjöf frá Þorsteini. Svo ætla ég að njóta þess að vera með vinum og fara á Þjóðhátíð með æðislegu fólki,“ segir Aníta um áform sín í sumar.
Um helgina ætlar Aníta að vinna í því að mála og skipuleggja herbergið sitt. Svo ætlar hún að skella sér í afmæli til litlu sætu frænku sinnar, borða páskaeggið sitt inná milli þess sem hún ætlar að Skype-ast við kærastann.
Mynd: Úr einkasafni Anítu