Helgin mín - „Kaupi blóm handa mömmu á laugardögum“
Magnús Þórir Mattíasson er 21 árs strákur úr Garðinum. Hann er leikmaður Keflavíkur í knattspyrnu og er þessa dagana í óða önn að undirbúa sig fyrir komandi tímabil í boltanum en Magnús var valinn efnilegastur hjá Keflavík síðastliðin tvö tímabil. Hann stundar nám við Menntaskólann í Kópavogi og stefnir á að klára námið næstu jól. Þessi helgi hjá Magnúsi snýst mikið um íþróttir hvers konar en einnig ætlar hann að gefa sér tíma til að slaka á með fjölskyldunni og jafnvel kíkja á franska kvikmyndahátíð.
Lyftingar með Elítunni og fimleikaæfing
„Á föstudaginn þarf ég að vakna snemma og fara í skólann. Þar sem ég er í Menntaskólanum í Kópavogi gengur það ekki lengur að leggja af stað 10 min fyrir fyrsta tíma. Eftir skóla bruna ég í Keflavík þar sem við taka lyftingar. Við í lyftingahópnum Elítunni hittumst alltaf niður í lífsstíl á föstudögum og saman stendur þessi hópur af mér, Magnúsi Þorsteinssyni, Ásdísi Þorgilsdóttur, Garðari Vilhjálmssyni og Sævari Borgarsyni. Eftir góða æfingu með Elítunni er fótboltaæfing í Reykjaneshöllinni með Keflavík kl. 17:30. Beint eftir æfingu fer ég svo í Toyota-höllina og kíki á Keflavík-Hamar í körfunni því ég er búin að gefast upp á „strákunum okkar.“ Ég enda þennan langa dag í aðstöðu fimleikadeildar Keflavíkur á fimleikaæfingu undir leiðsögn fimleikaþjálfarans Olgu Ýr Georgsdóttur sem er minn einkaþjálfari í fimleikum. Þar er ég aðallega að vinna í samhæfingunni hjá mér og þetta hjálpar til.“
Leikur og bústaðurinn
„Laugardagsmorguninn hefst svo snemma hjá mér en það er leikur á móti HK í Reykjaneshöllinni í fótbolta.net mótinu. Eftir leiki er vaninn að kíkja á Vocal í Flughótelinu í brunch. Eftir brunch-ið fæ ég að slaka á í smá tíma en svo seinnipart dags ætla ég að rúlla upp í bústað við Meðalfellsvatn til foreldra minna. Áður en ég legg í hann kaupi ég blómvönd í Cabo handa mömmu en það reyni ég að gera alla laugardaga til að þakka henni fyrir vel unnin störf í vikunni sem er að líða. Það er fátt betra en að taka því rólega og slappa af við Meðalfellsvatn, kyrrðin við vatnið er hreint ómótstæðileg.“
Sunnudagurinn í rólegheitum
„Sunnudagurinn er heilagur, algjör hvíldardagur. Ég horfi líklegast á Úrslitaleikinn á HM í handbolta uppí bústað en rúlla heim eftir hann. Við í Koníaksklúbbnum ætlum til Reykjavíkur um kvöldið en planið er að sjá mynd á frönsku kvikmyndahátíðinni, hvaða mynd það verður er samt ekki enn vitað enda úrvalið svakalegt. “
Myndir: Efst má sjá Magnús í leik með Keflavík síðasta sumar - Miðju: Magnús á 21. árs afmælisdaginn - Neðst: Magnús annar til vinstri með Koníaksklúbbnum.