Helgarvinna að taka niður jólahús barnanna
„Það hafa aldrei verið jafn margar heimsóknir hingað og nú í desember,“ sagði Hallbjörn Sæmundsson, eigandi jólahúss barnanna við Túngötu 14 í Keflavík en hann notaði síðustu helgi til að taka niður jólaskreytingar á húsi sínu.
Túngata 14 hefur undanfarin ár fengið þessa útnefningu hjá Jólanefnd Reykjaensbæjar.
Hallbjörn segist hafa afar gaman af þessu en hús hans stendur svo sannarlega undir nafni í jólamánuðinum. Hallbjörn segist vera mun lengur að setja skrautið allt upp en að taka það niður. Hann segir að það hafi verið stöðug traffík og mikið af börnum hafi komið og kíkt á jólahúsið.
„Það má segja að þetta sé hálfgert áhugamál hjá manni en þetta er þó í fyrsta skipti sem ég bætti ekki neinu við frá árinu á undan. Ég er ekki viss um að ég komi meiru fyrir,“ sagði jólakallinn við Túngötuna.