Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Helgarspjallið - „Er ekki mikill sjónvarpsglápari“
Laugardagur 29. janúar 2011 kl. 10:27

Helgarspjallið - „Er ekki mikill sjónvarpsglápari“

Fríða Dís Guðmundsdóttir er söngkona hljómsveitarinnar Klassart sem undanfarið hefur verið að auka hróður tónlistarlífsins á Suðurnesjunum. Hún er 23 ára gömul og er í sambúð með Þorsteini Árnasyni, en parið festi nýlega kaup á íbúð í vesturbæ Reykjavíkur. Þessa dagana starfar hún á Suðurnesjanýlendunni Faktorý bar í miðbæ Reykjavíkur en þó er hún að vinna að nokkrum hliðarverkefnum ásamt því að spila með Klassart. Hún segir Klassart vera að vinna að nýju efni í rólegheitunum og eru a.m.k tvennir tónleikar fyrirhugaðir á næstunni. Í sumar hyggst Fríða minnka við sig í barþjónastarfinu og einbeita sér að tónlistinni, útilegum, hliðarverkefnum og ferðalögum. Við ákváðum að forvitnast aðeins um smekk Fríðu á hinum ýmsu hlutum sem tengjast afþreyingu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bitinn í bænum
Það jafnast fátt á við góðan Olsen.

Bókin
LoveStar eftir Andra Snæ Magnason stækkaði víddirnar í hausnum á mér um helming, annars er ég að lesa Chords for keyboard & guitar sem ég gaf sjálfri mér í jólagjöf, söguþráðurinn er mjög einfaldur.

Tónlistin
Ég hef verið mjög „old school“ í gegnum tíðina en er í dag farin að hlusta mikið á dans og raftónlist, Janelle Monáe er uppáhalds söngkonan mín um þessar mundir. Ég fylgist einnig mjög vel með því sem er að gerast í íslenskri tónlist og Retro Stefsson er að tröllríða markaðnum. En svo þegar ég hef fengið nóg af vestrænni menningu er fátt betra en svalur Eþíópíudjass að hætti Mulatu Astakte og Buena Vista Social Club koma mér líka alltaf í gott skap.


Sjónvarpsþátturinn
Ef ég horfi á þætti eru það helst safaríkir sakamálaþættir eða heimildaþættir sem halda mér við skjáinn. Ég er ekki mikill sjónvarpsglápari. Einu seríurnar sem ég kann fram og aftur eru Sex and the City, ég veit ekki hvað það segir um mig sem manneskju.

Kvikmyndin
Sá Inception um daginn og hún hrærði algerlega í hausnum á manni. Amelie og Spirited Away skora mjög hátt hjá mér.

Vefsíðan
Ég er á facebook eins og flestir en held mig þó í hæfilegri fjarlægð, youtube hefur oftast vinninginn þegar ég hef smá tíma til dundurs í tölvunni.

Efri mynd: Fríða Dís á góðri stundu. Neðri mynd: Fríða ásamt bræðrum sínum Pálmari og Smára sem eru liðsfélagar hennar í Klassart.