Héldu fjölskyldudag fyrir flóttafólk
„Við erum stolt og ánægð að vera partur af mikilvægu verkefni eins og þessu. Við fyllumst af stolti af þessum mögnuðu sjálfboðaliðum sem standa upp fyrir Úkraínu og eru tilbúnir að hjálpa fólki á flótta. Þeir eru með hjarta úr gulli,“ segir Olena Jadallah en hún kom til Íslands í febrúar eftir að hafa flúið stríðið í Úkraínu. Hún ásamt fleirum stóð fyrir fjölskyldudegi fyrir flóttafólk á Ásbrú.
Á vinnustaðnum Lagardére Travel Retail sköpuðust umræður um ástandið í Úkraínu og stöðu flóttafólks á Íslandi og kom upp sú hugmynd að halda skemmtilegan fjölskyldudag fyrir fólkið sem býr á svæðinu. Fjölskyldudagurinn var haldinn í húsnæði Hjálpræðishersins á Ásbrú og mættu um 80 manns, flestir frá Úkraínu en einnig frá Sýrlandi og Írak.
Jóna María Þorgeirsdóttir, starfsmaður Lagardére Travel Retail, segir að allir hafi lagt sitt af mörkum í að gera daginn eftirminnilegan og það hafi tekist vel til. „Hjálpræðisherinn lánaði okkur húsnæðið sitt fyrir daginn, Brikk gaf okkur kanilsnúða. Love eldaði og gaf allan matinn, drykki og nammipoka fyrir börnin. Partynetic sló til með okkur og lánaði candyfloss- og poppvél, sápukúludót og útileikföng ásamt æðislegum búning, sem sló alveg í gegn hjá krökkunum,“ segir hún.
Jóna segir hópinn vilja skipuleggja fleiri viðburði fyrir flóttafólk. „Okkur langar að skipuleggja skoðunarferð um svæðið, sýna fólkinu Reykjanesbæ, ásamt því að keyra í gegnum Garð og Sandgerði. Til þess að það verði að veruleika þyrftum við eitthvað flott fyrirtæki í samstarf með okkur þar og óskum við hér með eftir því,“ segir Jóna.
Sjálfboðaliðar á Suðurnesjum í samstarfi við ADRA á Íslandi hafa opnað miðstöð á Blikabraut 2 þar sem flóttafólk getur sótt nauðsynjar sér að kostnaðarlausu. Miðstöðin er opin tvo daga vikunnar og er hún hugsuð sem griðastaður þar sem fólk getur komið saman, fengið stuðning og borðað heitan mat. Einnig er boðið upp á ýmis skemmtileg námskeið, þar á meðal íslenskunámskeið. Miðstöðin er sem áður segir á Blikabraut 2 en nú leitar hópurinn að nýju húsnæði til afnota fyrir miðstöðina.