Mannlíf

Heldri borgarar í Grindavík í sögustund
Sunnudagur 15. október 2023 kl. 06:03

Heldri borgarar í Grindavík í sögustund

Eldri borgarar í Grindavík gerðu sér glaðan dag á dögunum en þá skipulagði Ólafur Ragnar Sigurðsson ferð þar sem farið var að merkum stöðum í sögu Grindavíkur og saga staðarins sögð. Ólafur fékk Aðalgeir Jóhannsson með sér en Alli á Eyri, eins og hann er oft kallaður, er einkar söguglaður maður og segir skemmtilega frá.

Ólafur, sem oft er kallaður Óli bóndi, var ánægður með hvernig til tókst. „Ég fór í Sjómanna- og  vélstjórafélag Grindavíkur og fékk styrk en það þurfti að leigja rútu undir fólkið og svo var boðið upp á kaffiveitingar í golfskálanum okkar að Húsatóftum. Fólkið var sótt eftir hádegismat, allt í allt vorum við 35 og byrjuðum á að keyra austur í hverfi. Alli sá mest um að segja frá stöðunum en ég greip inn í þegar mér fannst það við hæfi, sagði t.d. frá Kútter Fríðu en skipverjar á þeim báti björguðu 58 grindvískum sjómönnum í marsmánuði árið 1911. Svo var Hópsneshringurinn farinn en þar er heldur betur hægt að segja sögur af sjóslysum. Eftir það var farið að Kvikunni þar sem nýsmíðaði áttæringurinn er til sýnis fyrir utan. Svo var keyrt í gegnum gamla bæinn. Alli sagði sögur af bæjunum þar eins og Vík og Garðhúsum en Halldór Laxnes skrifaði Sölku Völku þar, svo sagði hann líka sögur af Sigvalda Kaldalóns sem bjó um tíma í Grindavík. Við enduðum svo úti í golfskála í kaffi og jólaköku og Alli sagði sögu Staðarhverfisins og Húsatófta.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þetta var mjög vel lukkað og ég hef hug á því að bjóða þeim sem eru á sjúkradeildinni í Víðihlíð í svona ferð líka. Nokkur af vistfólkinu eru í hjólastól og því þarf sérstakan bíl til þess, sagði Ólafur.