Heitur sjór og hagkvæm hitaveita
Júlíus Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja og síðar HS Veitna, kveður eftir fjörutíu ár. Forstjórinn sem var með puttana í öllu.
„Tilfinningin að hætta er svolítið undarleg en ég er orðinn 72 ára og það er kominn tími til að hvíla sig, leyfa öðrum að taka við og starfsmönnum að kynnast einhverju öðru. Að öðru leyti er það bara tilhlökkun að vera að hætta,“ segir Júlíus Jón Jónsson en hann hætti formlega störfum nú um áramótin eftir að hafa starfað samtals í fjörutíu ár, lengst af hjá Hitaveitu Suðurnesja en einnig hjá HS Orku og HS Veitum. Þar af sem forstjóri í þrjá áratugi.
Júlíus bjó í Hafnarfirði og vann í Reykjavík eftir háskólanám, þá ungur maður, þegar hann sá auglýsingu um starf skrifstofu- og fjármálastjóra Hitaveitu Suðurnesja árið 1982. Hann sótti um og langaði að flytja aftur heim til Suðurnesja, fengi hann starfið en Júlíus er Sandgerðingur að upplagi og Inga Magnúsdóttir, kona hans, er Keflvíkingur. „Ég vissi ekkert um Hitaveitu Suðurnesja og því síður um orkumál en ég sá þetta líka sem gott tækifæri til að flytja aftur til Suðurnesja,“ segir hann í upphafi spjalls okkar.
Starfstitlar fyrir Kanann
Júlíus var í starfi fjármálastjóra fyrstu tíu árin og vann undir stjórn þáverandi forstjóra, Ingólfs Aðalsteinssonar, en með Júlíusi og Alberti Albertssyni, yfirverkfræðingi HS þá, þróaðist góð vinátta og frábært samstarf. Við spyrjum Júlíus að því hvernig það hafi verið að verða svo forstjóri fyrirtækisins?
„Starfstitli mínum og einnig Alberts var breytt eftir þrjú ár. Við urðum „framkvæmdastjórar“ fjármálasviðs og tæknisviðs en það þótti betra þar sem við sáum alfarið um samskipti og samningagerð við Bandaríkjamenn sem taldir voru taka meira mark á okkur með þessa starfstitla en ekki mönnum sem voru einhverjar undirtyllur. Það var ekki mikil bylting að fá titilinn forstjóri því dagleg stjórn fyrirtækisins hafði hægt og bítandi færst mikið til okkar Alberts.“
Viltu rifja aðeins upp fyrir okkur upphafið að Hitaveitu Suðurnesja, hvernig þetta fyrirtæki varð til og hvernig þetta var í byrjun. Starfsemin byrjaði í Svartsengi í Grindavík en af hverju þar?
„Á þessum tíma var seinni olíukreppan eins og talað er um en þá hækkaði verð á olíu upp úr öllu valdi tvisvar með stuttu millibili. Olíuverð var að sliga almenning, húshitunin því dýr. Þá fóru þrjár hitaveitur af stað, á Akranesi, Akureyri og á Suðurnesjum. Tilgangurinn var að reyna að gera þetta þolandi, kostnaðinn við húshitunina. Það var búin að vera jarðhitaleit hérna í nokkurn tíma, m.a. í Keflavík, það var líka búið að bora í Svartsengi í Grindavík og víðar en niðurstaðan var sú að mönnum leist best á að bora í Svartsengi til að búa til hitaveitu. Þar kom upp tvö hundruð fjörutíu og þriggja gráðu heitur vökvi, seltan í honum var reyndar á við tvo þriðju hluta af sjó sem leiddi til til óþolandi vandamála að mönnum fannst á þeim tíma. Það skapaði hins vegar mikla mikla möguleika síðar eins og að taka upp rafmagnsframleiðslu með tilheyrandi hagkvæmni – en fyrst þurfti að leysa vandamál sem menn höfðu ekki átt við áður, varmaskipti á heitum sjó.“
Júlíus segir að í þróun á þessari varmaskiptatækni hafi gengið á ýmsu en í framhaldinu hafi verið hafin bygging á orkuveri 1 og í fljótlega í kjölfarið hafnar framkvæmdir við orkuver 2. Þá hafi menn séð að það fyrra var úrelt þegar framkvæmdir við það voru aðeins hálfnaðar. Svo hélt þróunin áfram en hvernig fengu Suðurnesjamenn heitt og kalt vatn og hvað var gert með rúmlega 240 gráðu heitan jarðsjó?
Ferskvatnið hitað upp
„Það var ekki hægt að nota þetta beint, það lá fyrir. Það þurfti að hita upp ferskvatn og þá var farið í að finna kalt vatn og það fannst þarna úti í Gjá sem kölluð er, þarna mitt á milli Svartsengis og Fitja í Njarðvík. Það þyrfti að bora eftir vatninu þar og flytja það til Svartsengis og svo að þróa þessa varmaskipta þannig að það væri hægt að sjóða vatnið og gera það súrefnisfrítt í orkuverinu. Síðan var það sent út á kerfið og er gert enn. Fyrsti aðilinn sem fékk heitt vatn var félagsheimilið Festi í Grindavík sem var tengt þarna fyrst haustið 1975 og síðan voru öll sveitarfélögin tengd þarna með miklu hraði. Þegar ég byrja svo árið 1982 var svæðið fulltengt og enn í dag er verið að nota sömu aðferð, ferskvatn er hitað upp í Svartsengi sem HS Orka gerir. Það eru síðan HS Veitur sem taka við því og dreifa því til notenda og selja það. Það komu hins vegar upp fullt af rekstrarmálum þarna í upphafi. Það má til dæmis ekki hita kalda vatnið of mikið. Þá fara að koma útfellingar í það.“
Er nóg til af köldu vatni?
„Það er eitt af því sem talið var að gæti verið vandamál en svo er ekki. Það var talið óhætt að dæla upp níu hundruð sekúndulítrum. Við þurfum um helminginn af því. Við fylgjumst náið með stöðunni en það sér ekki högg á vatni.“
Það er sem sagt sama vatnið í krönunum hjá fólki, bara búið að sjóða það sem kemur úr heita krananum og þetta kemur allt úr sömu lindinni.
„Þegar fyrstu viðbrögðin þarna í upphafi voru vonbrigði þegar upp kom 243 gráðu heitt vatn má segja að það hafi verið heppilegt þegar síðar kom í ljós að þetta var það mikill hiti og hægt var að nýta það í hitaveitu, vatnsframleiðslu og rafmagnsframleiðslu, hitastigið skapaði það. Þá kom gufan sem er notuð til að til að knýja raforkuhverfla og svo þegar hitinn og þrýstingurinn fellur þá er það notað til að hita vatnið. Það olli erfiðleikum í upphafi því hitaveitan varð ekki eins einföld en í heildina er þetta náttúrlega miklu hagkvæmara.“
Þetta er græn orka?
Já, það kemur alltaf einhver smá koltvísýringur, það er eitthvað náttúrulegt á jarðhitasvæðum, það er eitthvað sem kemur hvort sem er úr jarðhitasvæðinu ef það gufar upp úr þeim en það er bara brotabrot af því sem væru öðruvísi – en já, þetta er græn orka.“
Fljúgandi start
Í viðtali í Víkurfréttum í janúar 1995, þegar við hjá VF höfðum kosið þig mann ársins, spyrjum við þig í byrjun hverju megi þakka uppgang Hitaveitu Suðurnesja sem þarna var tuttugu ára og var lengi kallað Óskabarn Suðurnesja. Ég ætla að giska á að þú munir hvað þú sagðir – svona um það bil.
„Ég veit það nú ekki en jú, nokkurn veginn. Það hjálpaðist ýmislegt að en við að framleiða hvort tveggja varð þetta hagkvæmur rekstur. Svo fengum við, sem var lykilatriði, mjög stóran viðskiptavin strax í upphafi, Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli, sem tók meira magn en allar byggðirnar á Suðurnesjum samanlagt. Samningarnir sem voru gerðar við það voru hagstæðir þannig að Bandaríkjamenn voru að borga ívið hærra verð. Það voru þarna miklir snillingar sem önnuðust samninga í upphafi, Þóroddur Th. Sigurðsson sem var í stjórn og var vatnsveitustjóri í Reykjavík á sama tíma og svo Benedikt Blöndal, hæstaréttarlögmaður. Bandaríkjamenn vildu ekki borga fyrir mínútulítra eins og gert var niður frá heldur nokkurs konar olíujafngildi, þannig að þeir væru raunverulega að borga jafnmikið fyrir vatnið eins og það væri verið að borga fyrir olíu. Af hverju veit ég ekki en þetta reyndist okkur mjög vel, sérstaklega þegar olíukreppa skall á og það hækkaði allt. Svo spilaði fleira inn í, óvenju há verðbólga í Bandaríkjunum, 10%, var þarna í eitt skiptið á fyrstu árunum þegar samningar voru gerðir og þeir voru með greiðsluröð til tíu ára með verðtryggingu. Svo fór verðbólga fljótt niður í Bandaríkjunum og þetta var líka greitt í dollurum. Þetta kom allt mjög vel út fyrir Hitaveitu Suðurnesja og hjálpaði mikið á uppbyggingartímanum. Við gátum notað dollarana beint til að greiða kostnað og lán en þurftum þó sérstaka undanþágu yfirvalda hér heima til þess. Það var frábært að fá svona stóran og góðan viðskiptavin í upphafi. Þetta var ákveðin heppni en svo stóðu menn sig vel. Svo kom það í hlut okkar Alberts Albertssonar að fylgja þessum samningum eftir.“
Sem sagt, heitt vatn til upphitunar heimila á Suðurnesjum og síðar kom rafmagn. Þú nefnir þarna í viðtalinu við Víkurfréttir 1995 að raforkuframleiðsla með framleiðslu á heitu vatni sé hagkvæm.
„Við náðum fram mikilli hagkvæmni með því að nýta sama vökvann tvisvar. Rafmagn var dýrt á þessum tíma og mjög ótryggt, mikið viðhald og mörg dæmi um að rafmagn hafi farið af á Suðurnesjum, allt upp í tuttugu sinnum í janúar. Þetta tókst og á næstu árum náðum við að lækka raforkukostnað heimila og fyrirtækja mjög mikið.
Rafveitur á Suðurnesjum sem voru litlar og óhagkvæmar, alls sex, runnu inn í Hitaveitu Suðurnesja og bara við það náðist mikil samlegð og hagkvæmni. Þá fórum við á fullt í rafmagn og endurbyggingu og vorum á fullu í því næsta áratuginn með tilheyrandi góðum áhrifum á atvinnulíf á Suðurnesjum.“
Reykjanesvirkjun í gang
Raforkuframleiðsla hitaveitunnar jókst jafnt og þétt í Svartsengi og var komin í 75 megavött fyrir um tuttugu árum síðan en svo urðu tímamót þegar Reykjanesvirkjun var opnuð árið 2006.
„Jarðhitavinnsla á sér þó miklu lengri sögu á Reykjanesi og eitt stærsta skrefið á sínum tíma var stigið þegar saltverksmiðja var stofnsett og byggðist starfsemin á nýtingu jarðhitans og útfellingu á salti úr vökvanum til saltframleiðslu. Sá rekstur gekk hins vegar ekki eftir nokkur ár en fljótlega eftir það var farið að huga að byggingu stórrar virkjunar á Reykjanesi sem yrði 100 megavött. Það var endanlega ákveðið árið 2004 og hún síðan stofnsett tveimur árum síðar. Þá var raforkuframleiðsla HS komin í 170 megavött sem síðan dalaði en er komin aftur upp með betri nýtingu en rekstur orkuveranna en nú undir HS Orku.“
Hver er þín skoðun á frekari virkjun á Íslandi?
„Mér finnst að það eigi kannski ekki að virkja Gullfoss og eitthvað slíkt en við eigum að nýta þessa auðlind á Íslandi. Við getum virkjað græna orku í miklu mæli og þá nýtt það í einhverja starfsemi sem annars væri knúin með verri orkugjöfum. Miðað við markmið í orkuskiptunum er það óhjákvæmilegt.“
Íslendingar eru til dæmis ekki á sama báti í orkumálum eins og nú þekkist víða í úti í heimi?
„Íslendingar njóta nú góðs af því að vera ekki tengdir Evrópu um sæstrengi, ég held að það sé nú frá, alla vega í bili. Þá myndi vera sama orkuverð. Við höfum frekar nýtt orku í að flytja hana út í gegnum einhverja framleiðslu eins og t.d. ál en það er fleira sem hægt er að nota til að flytja orku út óbeint.“
Lagaumhverfið gengur ekki
Suðurnesjalína tvö er búin að vera heitt mál undanfarið, hver er þín skoðun á því máli?
„Það er náttúrlega bara galið að þetta mál sé búið að vera að þvælast í kerfinu í tólf, fjórtán ár. Lagaumhverfið gengur greinilega ekki upp. Þótt allir vilji að sveitarfélögin hafi skipulagsvaldið fylgir öllu valdi ábyrgð. Ef það er ekki gert á ábyrgan hátt eru allar líkur á að eitthvað verði gert og þess vegna hefur verið talað um að koma á einhverri sér aðferðafræði um það þegar framkvæmdir liggja um mörg sveitarfélög. Það þarf auðvitað að ná sáttum í þessu máli.“
Samband þitt við Albert Albertsson, samstarfsmann þinn til áratuga – hann hugsjónarmaðurinn og þú röksemdarmaðurinn, var þetta hið fullkomna samstarf sem lagði grunn að því að Hitaveita Suðurnesja varð jafn framsækið fyrirtæki og raun ber vitni, á sama tíma og reksturinn var í nokkuð stöðugu jafnvægi alla tíð?
„Við unnum mjög náið saman og vorum persónulegir vinir utan vinnutíma. Það var mikið spjallað, ekki bara á vinnutíma. Þetta var mjög farsælt og gott að vinna með Alberti. Það var þó stundum smá djobb að hanga í löppunum á honum þegar hann flaug sem hæst. Þegar hann fékk hugmyndir ræddum við þær og fórum yfir þær áður en við fórum af stað með einhverja tillögugerð til stjórnar eða eitthvað slíkt.“
Það var sem sagt gott að hafa svona frjóan mann með sér?
„Já, já en ég þykist nú ekki hafa verið alveg ófrjór – en þetta gekk vel.“
Talnagaurinn
Þú hefur orð á þér fyrir að þekkja allar stærðir, tölur og allt annað sem viðkemur rekstri hitaveitunnar sem er nokkuð óvanalegt hjá forstjóra fyrirtækis af þessari stærðargráðu. Hvernig hefurðu farið að þessu – er þetta meðfæddur hæfileiki eða meðvituð ákvörðun að vera djúpt í öllum málum?
„Ég hef alltaf haft gaman af tölum og reikningi, hafði það strax sem krakki. Varð svo skrifstofu- og fjármálastjóri og svo framkvæmdastjóri fjármálasviðs þannig að ég þurfti að vera á kafi í þessu öllu. Má segja að ég hafi haldið því áfram þótt ég hætti sem slíkur þó svo það væri ekki til þess ætlast. Sem dæmi þegar ég hætti sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs var ákveðið að auglýsa ekki sérstaklega eftir viðskiptafræðingi í staðinn fyrir mig að því að ég væri þarna. Menn vissu alveg að ég myndi aldrei sleppa höndunum af þessu. Mér finnst ég fá miklu meiri tilfinningu fyrir hlutunum að gera þetta sjálfur, taka saman einhverjar skýrslur og rapporta sem ég er ekki viss um að allir geri. Þetta er ekkert stórmál, kannski tveir, þrír tímar í mánuði í að taka saman tölur. Þegar maður gerir sjálfur er það bara allt öðruvísi en að fá skýrslu og lesa, alla vega fyrir mig. Ég er bara þannig gerður.“
Eigendur Hitaveitu Suðurnesja í gegnum tíðina og stjórnarmenn þeim tengdir er áhugavert umræðuefni. Hvernig var að vera með mest tólf stjórnarmenn frá mismunandi opinberum aðilum í stjórn?
„Þegar ég byrjaði voru fimm í stjórn, tveir frá ríkinu og svo þrír frá sjö sveitarfélögum sem skiptust á að vera með stjórnarmann. Svo fóru þeir upp í tólf þegar þegar þetta var sameinað og nýir eignaraðilar komu inn frá Hafnarfirði og Vestmannaeyjum. Ef þú ert með svona stóra stjórn þá ræður forstjórinn náttúrlega bara öllu. Hins vegar held ég að hafi verið mikil gæfa fyrir fyrirtækið frá upphafi, sérstaklega eftir að hafa fylgst með kollegunum í öðrum fyrirtækjum, að pólitíkin hefur aldrei verið inni á borði hjá okkur, eins og gerst hefur í Reykjavík. Þar sitja borgarfulltrúar að rífast um pólitík á borgarstjórnarfundi eða borgarráðsfundi. Svo fara þeir upp í Orkuveitu og halda áfram að rífast. Svona hefur þetta aldrei verið hjá okkur og samstarfið alltaf verið gott og sátt um að gera sem best fyrir Hitaveitu Suðurnesja.“
Útrás HS heppnaðist vel
Hvernig voru viðbrigðin að fá svo inn einkaaðila í stjórn í gegnum eignarhald sem ekki var opinbert?
„Ég hef ekkert annað en bara mjög gott að segja. Þeir gerðu eigandasamkomulag sín á milli um að þetta yrði bara rekið eins og fyrirtæki og öll svona öll pólitísk leikfimi væri ekki með, það væru ekki hagsmunir fyrirtækisins. Það styrkti bara þetta sem hefur verið allan tímann að menn eru bara að hugsa um fyrirtækið og þá viðskiptavini þess í leiðinni.“
Það er mjög langt síðan að hitaveitan byrjaði í nokkurs konar útrás.
„Já, þetta var alfarið Suðurnesjafyrirtæki þangað til 2001 þegar við sameinuðumst Rafveitu Hafnarfjarðar og þessu var breytt í hlutafélag. Árið eftir komu bæjarveitur Vestmannaeyja, svo tveim árum seinna rafveituhlutinn í Árborg og síðan Vatnsveitan í Reykjanesbæ og í Garði. Hugmynd kom um að gera eitt orkufyrirtæki fyrir Suðurkjördæmi en það gekk ekki eftir. En þetta gerðist þó sem styrkti mjög veitustarfsemina og hjálpaði mikið til þess þegar þessu var skipt upp árið 2008. Þá var þetta orðin ágætis eining, veituhlutinn, og betra en ef þetta hefði bara verið brotabrot af Hitaveitu Suðurnesja í heild sinni.“
Var það rétt ákvörðun að þínu mati að selja HS Orku til einkaaðila eða hefði það verið heillavænlegra ef fyrirtækið hefði verið áfram rekið af opinberum aðilum? Það hafa margir sagt að það hafi verið mistök að selja Hitaveitu Suðurnesja.
„Öll sveitarfélögin hafa fengið mikinn pening út úr þessu öllu saman, milljarða króna. Vestmannaeyjabær seldi fyrir milljarða og hafa búið við þokkalegan fjárhag síðan. Reykjanesbæjar hefur líka fengið marga milljarða í gegnum tíðina. Þeim peningum hefur þá væntanlega verið varið í einhver verkefni til góðs fyrir íbúana. Framlag sveitarfélaganna í upphafi var ekki mikið, kannski nokkur hundruð milljónir á núvirði og hefur því ávaxtað sig vel ef það er skoðað. Ef HS Orka hefði verið áfram í opinberri eigu hefði aldrei verið hægt að framkvæma og byggja virkjanir á sama hátt.“
Hvenær urðu þessi skipti á Hitaveitu Suðurnesja?
„Þar voru sett lög í maí 2008 sem kváðu á um að aðskilja skyldi einkaleyfisstarfsemina, sem er þá HS veitur, og samkeppnisstarfsemi, sem er framleiðsla og sala á raforku. Það var mikill vilji hjá eigendunum að gera þetta strax og 1. desember er þessu skipt upp í HS Veitur og HS orku. Fyrirtækin voru fyrst rekin saman og ég var forstjóri fyrir bæði í fimm ár. Síðan flutti HS Orka höfuðstöðvar sínar í Svartsengi og Ásgeir Margeirsson tók við sem forstjóri sem var ágætt. Þetta var orðið dálítið víðfeðmt og fín tímasetning á þessum skiptum fyrir mig. Mér fannst þó skrýtið að þetta væri knúið fram af Orkustofnun sem sagði að það gengi ekki að það væri sami forstjóri yfir einkaleyfisfyrirtæki og samkeppnisfyrirtæki. Ég skil alveg þá röksemd en það virðist ekki gilda yfir önnur orkufyrirtæki eins og Norðurorku, Rarik og Orkuveitu Reykjavíkur. Þar er þessi aðskilnaður sem var lögskipaður að mínu mati, ekki komin nema hálfa leið eða varla það.“
Viltu útskýra hvernig þessi skipting er á HS orku og HS Veitum. Fólk er jafnvel enn að tala um Hitaveitu Suðurnesja og gera sér ekki grein fyrir aðskilnaðinum?
„HS orka framleiðir rafmagn og heita og kalda vatnið. Viðskiptavinirnir ákveða hvar þeir kaupa rafmagnið en HS Veitur koma því til notenda, mega ekki selja það.“
Og hverjir eiga HS Veitur?
„Það er í lögum að svona veitufyrirtæki eins og okkar (HS Veitur) eigi að vera í meirihlutaeigu opinberra aðila. Í dag á Reykjanebær 50,1%, HSV eignarhaldsfélag 49,8% og Suðurnesjabær 0,1. Í þessum 49,8% eru einkaaðilar með svona 4-5%, lífeyrissjóðir hitt. Þeir eru þó ekki skilgreindir sem opinberir aðilar þannig að 49,8% eru því í eigu einkaaðila.“
Stærsta ferðaþjónustufyrirtæki Íslands í dag, Bláa lónið - verður til getum við sagt vegna starfsemi Hitaveitu Suðurnesja í Svartsengi og Hitaveitan var með í rekstri lónsins í byrjun.
„Valur Margeirsson, íbúi í Keflavík, kom þarna en hann var að berjast við psoriasis. Hafði frétt að svona vökvi hjálpaði til við það, affallið frá orkuverinu sem rann út í hraunið en þá hafði vatnið verið notað til að hita vatn og framleiða rafmagn. Þetta affallsvatn fór þarna út í hraunið 70 til 90 gráðu heitt. Þá var enginn hitastýring á því og þetta gat því verið hættulegt. Þannig gátu einnig verið svona lænur og bollar í hrauninu sem voru sjóðandi en hann fékk að fara þarna ofan í. Þetta hafði góð áhrif á hann og honum líkaði vel. Síðan sáu ferðaþjónustuaðila sér hag í að fara í þetta og við buðum út aðstöðuna. Einkaaðilar voru þarna í tvö, þrjú ár en svo lagði Grindavíkurbær áherslu á að koma að þessu. Á endanum kom svo þessi hópur sem sem tók við rekstrinum og hefur verið með síðan. Eitt af því sem allir voru sammála um var að þessi aðstaða þarna var ekki lengur boðleg. Menn urðu sammála um að það yrði að gera eitthvað í þessu, flytja og breyta og geta haft meiri stjórn á lykilatriðinu, hitastiginu. Þá var ákveðið að byggja þarna á sínum stað og það gekk ekki mjög vel til að byrja með að fjármagna þetta. Á endanum gerðumst við stór hluthafi og áttum mjög stóran þátt í að nýja aðstaðan var byggð og opnuð árið 1999. Það var að mestu leyti verk Hitaveitu Suðurnesja sem átti 33–34% í fyrirtækinu við uppskiptin í Hitaveitu Suðurnesja. Sá eignarhluti varð eftir í HS Orku en þetta hefði tæplega orðið líkt því sem það er ef Hitaveita Suðurnesja hefði ekki tekið af skarið.“
Bláa lónið er síðan í rauninni fyrsta fyrirtækið í Auðlindagarðinum á Reykjanesi þar sem fyrirtækin nýta afgangsorku til starfseminnar?
„Albert átti þetta nafn, Auðlindagarður. Þetta snýst um að nýta hrakstrauma sem annars renna út í eða sýslast niður í hraunið eða gufa upp. Þetta er bæði í Svartsengi og úti á Reykjanesi, fjölbreytt fyrirtæki í alls kyns starfsemi. Prinsippið á bak við þetta er að nota eitthvað sem annars væri hent. Albert segir að það sé ekkert sem heiti ónýtt. Það sem er þér verðlaust eru verðmæti fyrir einhvern annan.“
Hvað er eftirminnilegast á öllum þessum árum?
„Það er ekkert eitthvað eitt sérstakt. Þetta byrjaði þarna í þrjátíu manna fyrirtæki og átta megavöttum í rafmagni en hefur stækkað jafnt og þétt upp í 170–180 megavött og 170–180 starfsmenn. Í minningunni eru mörg ferðalög þegar við vorum að byggja virkjanir, við fórum m.a. til Ísraels til að kaupa túrbínur. Það vakti athygli á sínum tíma og sumum þótti það skrýtið.“
En hvernig tóku íbúar á Suðurnesjum hitaveitunni á sínum tíma?
„Það var kallað eftir þessu af öllum sem voru með olíukyndingu í húsum sínum. Það voru langflestir að bíða eftir þessu, að fá rennandi heitt vatn. En það voru einhverjir nýbúnir að leggja kostnað í að setja upp rafkyndingu og voru því kannski ekki eins tilbúnir þó þeir hafi gert það síðar. Verkefnið gekk vel og það tók ekki nema nokkur ár að hitaveituvæða öll heimili á Suðurnesjum.“
Sem skapaði náttúrlega mörg störf á sínum tíma?
„Já, mjög mörg. Jarðvinnuverktakar, iðnaðarmenn, verkfræðingar og fleiri.“
Hvað tekur svo við núna við starfslok?
„Losna við gular og rauðar viðvaranir,“ segir okkar maður og hlær. „Ég fer næstu daga í húsið mitt á Flórída og ætla spila mikið golf.“
Áfram Tottenham
Þú ert, fyrir þá sem ekki vita, harður stuðningsmaður enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur og ert svo Reynismaður (Sandgerði) að upplagi. Við fengum ábendingu um að þú hafir verið sá eini í stórum hóp sem fór í hópferð frá Keflavík til London á leik Keflavíkur og Tottenham – og hélst með Tottenham?
„Að sjálfsögðu. Ég hélt með -Tottenham og var Sandgerðingur og á þeim tíma var það metnaðarmál að þekkja sem fæsta úr Keflavík sem breyttist auðvitað þegar ég flutti til Keflavíkur. Að halda með Keflavík var því ekki inni í myndinni. Ég fagnaði öllum mörkunum sem urðu níu talsins í þessum leik – en þetta var 160–170 manns hópur frá Keflavík, í vikuferð með leiguvél og við vorum nokkrir sem fórum á fleiri fótboltaleiki. Þetta var mín fyrsta utanlandsferð en ég veit ekki hvort ég hafi verið sá eini í hópnum sem hélt með Tottenham. Ég var kallaður föðurlandssvikari af einhverjum en þetta var frábær ferð.“
Orkuverið í Svartsengi þar sem starfsemi Hitaveitu Suðurnesja hófst. Bláa Lónið í baksýn.
Félagarnir og höfuðpaurarnir í HS, Júlíus Jónsson og Albert Albertsson í handabandi í Svartsengi með fleirum, Albert er vinstra megin við Júlíus. Ellert Eiríksson, bæjarstjóri í Keflavík og Reykjanesbæ til margra ára honum til hægri frá honum séð.
Júlíus hefur skrifað undir marga samninga á fjörutíu árum. Hér er hann við fundarborðið ásamt fleirum.
Hér má sjá nokkra kunna sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum sem sátu í stjórn HS. F.v. Árni Sigfússon, Finnbogi Björnsson, Jón Norðfjörð, Ellert Eiríksson og Ingólfur Bárðarson.
Júlíus Jón Jónsson í kunnuglegri stöðu á skrifstofu HS rétt fyrir starfslok.