Heimurinn er að breytast 
- og við erum að aðlagast

Ég fæddist um miðja síðustu öld og er uppalin í bítlabænum Keflavík. Þá voru dálítið aðrir tímar. Vissulega voru útlendingar í bænum okkar, því ameríski herinn leigði húsnæði hjá íslenskum fjölskyldum niðri í bæ. Fólk útbjó íbúðir í bílskúrum sínum og kjöllurum og jafnvel öllu lausu rými sem fannst til þess að geta leigt út. Það þótti eftirsóknarvert að fá greitt í dollurum.

Íslenska ríkisstjórnin gerði allt hvað hún gat til þess að sporna við útlendum áhrifum og lét loks loka fyrir kanasjónvarpið og reka Kanana inn á afgirt vallarsvæðið. Þá var það mun auðveldara þar sem engar tölvur voru komnar til sögunnar eða gervihnattasjónvörp sem tengja saman allan heiminn í dag. Takmörkun var einnig sett á fjölda svartra hermanna á Íslandi í þá daga. Ráðamenn vildu passa uppá þessa litlu eyþjóð og varðveita meðal annars íslenskt mál.

Þessi útlendi hermanna heimur hafði einnig áhrif á okkur börnin í Keflavík og víðar á Suðurnesjum. Ég man vel eftir því þegar við vinkonurnar bönkuðum upp á hjá Könunum og vildum passa börnin þeirra í von um að fá amerískt gotterí að launum. Þá voru allir að græða eitthvað í samskiptum sínum við Kanann.

Svo fór herinn burt og í nokkur ár voru útlendingar ekkert sérstaklega áberandi á Íslandi. Kannski þar til okkur vantaði vinnuafl í frystihúsin okkar þegar Íslendingum fækkaði í fiskvinnslu. Menntun þjóðarinnar breytti þessu því æ fleiri gengu menntaveginn og því varð erfiðara að manna verkamannastörfin á Íslandi með Íslendingunum sjálfum.

Fyrstir komu líklega Pólverjar hingað til lands til að vinna við fiskvinnslu og svo auðvitað Tælendingar. Flóttamenn voru leyfðir í litlum skömmtum. Í dag starfa margar þjóðir á Íslandi við alls konar störf en þeim hefur auðvitað fjölgað mest í ferðamennskuiðnaði. Við eigum þessu fólki heilmikið að þakka fyrir að hafa létt undir með okkur Íslendingum og hjálpað okkur að skapa verðmæti í fiskvinnslu, ferðaþjónustu, veitingahúsageiranum og fleiri atvinnugreinum. Án allra þeirra útlendinga sem búa og starfa á Íslandi gætum við ekki haldið uppi þeim háa lífsgæðastaðli sem við gerum hér á landi.

Heimurinn er að breytast og þjappast saman. Íslensk tunga á í vök að verjast fyrir erlendum áhrifum. Maður finnur þetta glöggt á veitingahúsi hérna heima þegar þjónustufólkið talar aðeins ensku við mann eða bjagaða íslensku sem manni finnst oft skemmtilegra og hrósar fólkinu fyrir að reyna að tala málið okkar. En þessi staða er alls staðar að koma upp í heiminum.

Við hjónin erum nýflutt aftur heim til Íslands eftir að hafa búið í Noregi í nokkur ár en þar hefur útlendingum einnig fjölgað mikið. Norðmenn þurfa oft að tala ensku á veitingahúsum í eigin landi. Þetta vekur stundum gremju hjá þeim en svo verður fólk að sýna þessu skilning en auðvitað finnst bæði Norðmönnum og Íslendingum voða gaman ef þeir hitta útlending sem búsettur er í landi þeirra og hefur lagt sig fram við að læra tungumál heimamanna. Það skapar einnig fjölbreytileika og getur auðgað mannlífið á jákvæðan hátt þegar fleiri þjóðir búa saman í hverju landi.

Við hjónin vorum auðvitað útlendingar í Noregi þegar við bjuggum þar og ákváðum strax að læra málið, því við vissum að með því að tala norsku þá værum við að opna dyr tækifæranna þar fyrir okkur. Við fengum þannig betri aðgang að Norðmönnum. Þetta hjálpaði mér t.d. að kenna jóga í Noregi, skrifa norskar greinar og vinna þar í skóla með börnum og unglingum. Það getur verið einmanalegt að búa í útlöndum en tungumál heimamanna getur hjálpað til þess að brjóta ísinn því þar er lykillinn að hverri þjóð.

Bara sem dæmi frá Noregi, þar eru útlendingar sem tala góða norsku farnir að starfa sem sjónvarpsfréttamenn, í útvarpi og vinna sem dagskrárgerðarmenn í norskum fjölmiðlum. Norðmenn gera sér grein fyrir því að nýir tímar eru að innleiða fjölbreyttara samfélag með mörgum þjóðum, þar sem allir eiga jafnan rétt til þátttöku bæði í fjölmiðlun og annars staðar.  Norðmenn eru mjög uppteknir af jafnræðisreglunni og telja frið skapast í samfélaginu ef allir sitja við sama borð en þeir krefjast þess um leið að erlendir þegnar virði þær reglur sem gilda í landinu og fyrst er að læra málið.

Já, Ísland er að breytast. Þetta getur verið ögrandi fyrir okkur en ef við prófum að setja okkur í spor þessa fólks sem flytur á milli landa, þá er líklegra að við viljum sýna þessu fólki velvilja og skilning. Þetta er bara fólk eins og við, sem langar að búa sér til gott líf og láta gott af sér leiða. Margir leggja það á sig að læra íslensku sem er víst ekkert einfalt vegna flókinna málfræðireglna.

Ég fór á stúfana hér á Suðurnesjum að leita að fólki frá öðrum löndum sem er búsett hér á landi og hefur lagt sig fram um að læra íslensku. Mig langaði að vita hvort það hefði skilað þeim góðu lífi hérna og góðu starfi. Þessi viðtöl getur þú lesið hér í Víkurfréttum.

Marta Eiríksdóttir