Heimsreisufararnir hressir: eru á Fiji eyjum
Heimsreisufararnir Hemmi og Maggi eru nú staddir á Nýja Sjálandi, en síðustu vikur hafa þeir ferðast um Kambódíu, Taíland og Ástralíu. Þeir eru ánægðir með ferðalagið það sem af er komið og þeim líður vel. Reglulega birtast pistlar frá þeim á heimsreisusíðu Víkurfrétta þar sem þeir fjalla á skemmtilegan hátt um það sem á daga þeirra hefur drifið. Skoða má heimsreisusíðuna á vefslóðinni /heimsreisan
Hvar eruð þið nákvæmlega staddir núna?
Núna erum við nákvæmlega staddir í "borg" sem heitir Whangarei á Nýja Sjálandi. Við leigjum okkur litla Toyotu sem við komum til með að sofa í, borða í og örugglega ekkert fleira. Við erum að reyna að eyða sem minnstum pening hérna svo að við getum slett aftur úr klaufunum í Mið-Ameríku. Okkur finnst svo miklu skemmtilegra í löndum Þar sem menningin er frábrugðin menningunni heima. Svo er líka búið að vera grenjandi rigning hérna!
Hvernig hefur ykkur liðið?
Við skemmtum okkur alltaf vel, sama hvað á dynur. Til dæmis í Ástralíu vorum við yfirleitt farnir að sofa klukkan 9:30-10:30 og akkúrat það augnablik sem við vorum að fara upp í rúm litum við á hvorn annan og grenjuðum úr hlátri yfir því að vera að fara að sofa svona snemma. Þannig að við getum alveg sagt að okkur líði yfirleitt alltaf mjög vel enda kemur okkur svo vel saman.
Hafið þið lent í einhverjum vandræðum?
Nei, ekki nema bara Það sem hefur komið fram í pistlunum (og svo það sem maður getur einfaldlega ekki sagt frá hehe). Ef maður er ekki að leita að vandræðum eru litlar líkur að þær komi til manns. Reyndar, ef kalla má vandræði hefur endajaxlinn i Hemma verið að bögga hann síðustu vikuna og ef maður lítur á hann frá þeirri hlið sem hann er bólginn lítur hann út eins og bangsi. Þannig að þið sjáið kannski hvað allt hefur gengið vandræðalaust fyrir sig.
Rifjið upp eina skemmtilega sögu?
Það er eitt sem okkur dettur í hug sem við gleymdum hreinlega að segja frá. Við vorum í Siem Reap í Kambódíu á einhverjum skemmtistað þar. Við settumst niður við eitt af borðunum og pöntuðum okkur sitt hvorn bjórinn. Ekki leið á löngu áður en heimamennirnir voru farnir að blanda geði við okkur og við reyndum að halda upp einhverskonar samræðum þrátt fyrir tungumálamúrinn. Þó svo að við skildum ekki rassgat hvað þeir voru að segja og þeir ekki okkur heldur kom okkur vel saman með því að skála bara í staðinn á 5 sekúndna fresti og brosa bara til hvors annars. Svo lokaði skemmtistaðnum klukkan 3 og þeir spurðu okkur hvort við værum ekki tilbúnir í smá áframhaldandi teiti. Við vorum nú meira en til í það og svo var lagt í'ann. Við vorum 7 allir til samans en bara tvær vespur til að fara með okkur á staðinn sem var aðeins fyrir utan bæinn. Þeir létu það þó ekki stoppa sig heldur fóru 4 saman á aðra vespuna og létu fyllsta manninn keyra og við fórum aftan á með stráknum sem var ekki búinn að drekka neitt. Við keyrðum örugglega í 20 mínútur út fyrir bæinn. Fyrstu 5 mínúturnar voru allar á malbiki en svo tóku við hrikalegir moldarvegir og um tíma vorum við farnir að hugsa um hvert í andskotanum þeir væru að fara með okkur. Loks komum við upp á pínulitlu spýtuhúsi sem leit svipað út og kofarnir sem maður byggði sér í den. Þar inni voru 3 stelpur sem "ráku" staðinn en þetta var samt bara greinilega heimili hjá fjölskyldu sem nær sér í aukapening með því að selja liði bjór eftir að skemmtistaðirnir loka. Svo var bara skellt karaoke-inu á og þeir byrjuðu allir að syngja. Svo rétti ein stelpan okkur 4 diska með lögum á ensku og eins og í þau skipti sem við höfðum sungið áður karaoke í Kambódiu könnuðumst við eiginlega ekki við nein lögin. Hemmi fann sér þó eitt og ætlaði aldeilis að slá í gegn. Það var lagið "Only you" sem flestir kannast nú við. Svo byrjaði lagið, svo kom textinn og þá kom í ljós að þetta var eitthvað allt annað lag og því gátum við ekki sungið neitt þetta kvöldið. Hemmi rétti því einum stráknum hljóðnemann og hann tók sig bara til og söng allt lagið á ensku. Hann gat ekki talað ensku en hann hafði heyrt þetta lag nógu oft til þess að geta hermt eftir því. Við slátruðum örugglega 25 bjórum allir til samans þarna og skemmtum okkur frábærlega með innfæddum þetta kvöldið. Örugglega einn af hápunktum dvalarinnar í Kambódíu.
Saknið þið austurlanda?
Nei, alls ekki. Þó að við höfum skemmt okkur alveg konunglega þar þá fannst okkur alveg vera kominn tími á að halda áfram. Það sem maður saknar kannski mest er að geta labbað inn á veitingarhús og pantað sér mat og drykk fyrir rúman 100 kall. Í Ástralíu lifðum við á núðlusúpu og brauði með osti hitað í örbylgunni en hérna á Nýja Sjálandi höfum við ekki einu sinni heitt vatn né örbylgjuofn þannig að við höfum þurft að finna okkur ennþá einfaldara fæði. Ef það er þá hægt!
Er eitthvað land sem þið mynduð vilja vera lengur í?
Við vorum bara 9 daga í Ástralíu og okkur fannst það bara nóg. Eftir smá umhugsum komumst við að þeirri niðurstöðu að við nennum ekkert að vinna:). Það er miklu dýrara að lifa í þessum löndum og við hefðum ekki náð að vinna okkur inn neinn almennilegan pening. Svo verðum við ekki nema 8 daga á Nýja Sjálandi af sömu ástæðum. Við viljum frekar vera styttra í þessum löndum og eiga svo bara meiri tíma og pening í Mið-Ameríku, Kúbu og Mexíkó. Annars er dálítið erfitt að svara þessu núna þar sem við erum bara búnir með 1/3 af ferðinni og höfum svo margt að hlakka til.
Hvað er framundan hjá ykkur?
Frá Nýja Sjálandi höldum við til Fiji-eyja og verðum þar í 4 daga. Þaðan fljúgum við til L.A og við verðum í 6 daga þar og í Las Vegas áður en við fljúgum til Panama í Mið-Ameríku og ferðumst upp til Mexíkó og fljúgum þaðan til Kúbu. Höldum svo aftur frá Kúbu til Mexíkó og ferðumst þaðan upp til U.S.A og tökum einhverskonar "roadtrip" þar í gegn.
Kíkið þið á vf.is með reglulegu millibili?
Jamm, og erum aldrei ánægðari heldur en þegar einhver falleg sál er búin að senda okkur litla kveðju frá Íslandinu fagra.
Eruð þið farnir að sakna Íslands?
Kannski ekki Íslands beint. Aðallega þó vegna þess að maður veit að maður á eftir að koma þangað aftur eftir 8 mánuði. Eitt tað besta við það að ferðast er þó að maður lærir að meta það sem maður hefur heima betur og svo sér maður Ísland líka frá allt öðru sjónarhorni.
VF-ljósmynd/Hemmi&Maggi: Sjálfsmynd af þeim félögum tekin í Ástralíu.