Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Heimsreisa“ Kvennakórs Suðurnesja - vortónleikar
Miðvikudagur 26. apríl 2017 kl. 06:00

„Heimsreisa“ Kvennakórs Suðurnesja - vortónleikar

Það er kominn vorhugur í kórkonur í Kvennakór Suðurnesja enda vorið á næsta leiti. Það er ýmislegt framundan hjá kórnum. Kórinn heldur tvenna vortónleika dagana 26. og 27. apríl og í maí tekur kórinn þátt í landsmóti íslenskra kvennakóra sem verður haldið á Ísafirði 11. – 14. maí nk. Á næsta ári fagnar kórinn síðan 50 ára afmæli en kórinn er elsti starfandi kvennakór á Íslandi. Undirbúningur fyrir afmælisfagnaðinn er hafinn en ætlunin er að halda veglega tónleika á afmælisdaginn, 22. febrúar 2018 auk þess sem ýmislegt fleira er í bígerð í tilefni stórafmælisins.
Eins og áður sagði heldur Kvennakór Suðurnesja tvenna vortónleika, þá fyrri 26. apríl og þá seinni 27. apríl í Berginu, Hljómahöll og byrja þeir klukkan 20:00 bæði kvöldin.
Að þessu sinni ætlar kórinn að taka tónleikagesti með sér í heimsreisu. Við byrjum á Íslandi en förum síðan um allan heim, til nágranna okkar í Svíþjóð og Finnlandi, heimsækjum Englendinga og Frakka, upplifum rómantík í Napóli, komum við á Filippseyjum og skoðum kirsuberjatré í blóma í Japan. Við komum líka við hjá Zulu ættbálkinum í Afríku, förum á slóðir Inka í Perú og heimsækjum Lakota indjána í Norður-Ameríku. Þetta verður stórskemmtilegt tónlistarferðalag sem enginn má missa af!
Stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er Dagný Þórunn Jónsdóttir og um hljóðfæraleik sjá Geirþrúður Fanney Bogadóttir sem leikur á píanó, Birna Rúnarsdóttir á þverflautu og Þorvaldur Halldórsson á slagverk.
Miðaverð við inngang er 3.000 kr. en hægt er að kaupa miða í forsölu á 2.500 kr. hjá kórkonum eða á [email protected].

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024