Mannlíf

Heimskonur hittast reglulega í Reykjanesbæ
Laugardagur 20. desember 2014 kl. 13:00

Heimskonur hittast reglulega í Reykjanesbæ

Heimsmálin rædd á bókasafninu

Heimskonur – Women of the world er félagsskapur kvenna í Reykjanesbæ og vettvangur þar sem konur af erlendum uppruna og heimakonur hittast og spjalla um málefni líðandi stundar. Að sögn Kolbrúnar Bjarkar Sveinsdóttur, deildarstjóra á Bókasafni Reykjanesbæjar, gefur hópurinn konum af erlendum uppruna vettvang til þess að ræða sameiginlegar áskoranir og upplifanir af landi og þjóð.

Hópurinn byrjaði að hittast í janúar 2013 en Kolbrún, sem hefur unnið á bókasafninu síðan 2007, kom verkefninu af stað „Okkur Huldu Björk, sem var forstöðumaður safnsins, hafði lengi langað að vera með einhverja starfsemi tengda fjölmenningu á bókasafninu. Ég sæki verslanirnar hér í bæ eins og Rauða Kross búðina og Hjálpræðisherinn og spjallaði alltaf við eina starfskonuna þar, Koleen, sem tjáði mér að hér í Reykjanesbæ væru nokkrar konur af erlendum uppruna sem hefðu áhuga á því að hittast og spjalla við aðrar konur í svipuðum sporum. Koleen varð síðan tengiliður okkar við konur af erlendum uppruna hér í bænum og ég var tengiliður við bókasafnið og Reykjanesbæ. Þetta byrjaði rólega, um 4-5 konur mættu í hvert skipti en síðan hefur boltinn rúllað og í dag eru um 50 konur skráðar á lista hjá okkur og um 7-20 sem mæta á laugardagsfundina,“ segir Kolbrún.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kolbrún er driffjöðurin á bak við verkefnið en fjölmenning er eitt af áhugamálum hennar. „Mér finnst mikilvægt að konur af erlendum uppruna hafi einhvern samastað til að hittast og geti skapað tengslanet. Þær vita oft ekki af hver annarri og það skiptir miklu máli að hafa tengsl við einhvern sem stríðir við sömu áskoranir og maður sjálfur.“ Blaðamaður verður var við að bæði er töluð enska og íslenska á fundinum en aðspurðar segjast konurnar búnar að vera mislengi á Íslandi og þess vegna sé enskan líka töluð. Enn fremur segja konurnar vettvanginn mjög þarfan í samfélaginu til þess að efla félagsleg tengsl meðal kvennanna. Auk þess eru nokkrar íslenskar konur í hópnum sem hafa gaman af því að kynnast öðrum konum frá ólíkum menningarheimum.

Á samkomunum á Ráðhúskaffi, fyrsta laugardag í mánuði hittast konurnar og eru fjölbreytt umræðuefnin eins og hvað er að gerast í bæjarfélaginu, áhyggjur og gleði. Af og til hittast  konurnar þó oftar en einu sinni í mánuði. Þær eru komnar í samstarf við Rauða Krossinn á Smiðjuvöllum, sem útvegar húsnæði þegar þær vantar. Síðasta sunnudag hittust 10 konur og bökuðu saman smákökur en hver og ein mætti með deig og úr varð alvöru kökuveisla. „Baksturinn heppnaðist ótrúlega vel og við bökuðum 8 sortir af smákökum og að auki ameríska graskersböku. Síðan þegar allir voru búnir var skipst á smákökum og allir fóru mjög glaðir og sáttir heim. Planið er á næstunni að hittast og elda saman en í sumar fórum við nokkrar saman í fjallgöngu upp á Þorbjörn og grilluðum íslenskan sumarmat.“
Allar konur eru velkomnar í hópinn, íslenskar og af erlendum uppruna. Hópurinn hittist alltaf kl. 13 fyrsta laugardag hvers mánaðar á Ráðhúskaffi í Reykjanesbæ. Hægt er að finna hópinn á Facebook undir Heimskonur – Women of the World og á heimskonur.com.

Women of the World/Heimskonur is a group that meets once a month at the Reykjanes Public Library in Reykjanesbær. The group is intended as a meeting place for foreign women living in Reykjanesbær, to share stories and experience, to practice language skills and enjoy good company. The group meets on the first Saturday every month at the Reykjanes Public Library (Bókasafn Reykjanesbæjar) at 13pm. The group is intended to answer any question you have about living in Suðurnes, organise events and for discussion about anything, the good and the bad.


Erlendar jólahefðir

Angela Amaro – Portúgal

Hvernig er haldið upp á jólin í Portúgal?
Jólahátíðin í Portúgal er ekki eins löng og á Íslandi. Á aðfangadag er oftast unnið allan daginn og man ég eftir að foreldrar mínir unnu alltaf til 21 um kvöldið þann 24. des. Þá var drifið sig heim, skipt yfir í fínu fötin og haldið í messu. Eftir kirkjuheimsóknina hélt fólk heim á leið og jólamaturinn yfirleitt borðaður um miðnætti. Hefðbundinn jólamatur í Portúgal er soðinn saltfiskur með kartöflum og grænmeti og/eða kalkúnn og síðan er alltaf geitapottréttur á jóladag, 25. des. Fyrir jólin er búið að baka og í eftirrétt á jólunum er yfirleitt kökuhlaðborð sem er síðan látið standa yfir alla jólahátíðina fyrir gesti sem koma í heimsókn. Eftir matinn eru pakkarnir opnaðir en jólasveinninn gefur börnunum gjafir. Þar sem ég á íslenskan mann og tengdafjölskyldu, þá hef ég haldið íslensk jól hér á landi frá byrjun. Ég er nokkuð hrifin af íslenska jólamatnum en ég var lengi að venjast hangikjötinu, fannst það ekki mjög gott fyrst. Núna finnst mér það fínt, rétt eins og hamborgarhryggurinn. Eftir að foreldrar mínir fluttu til Íslands frá Portúgal höfum við haft þá venju að hafa soðinn saltfisk í matinn ásamt hamborgarhryggnum á aðfangadag, þannig náum við að tvinna saman portúgölsku og íslensku hefðirnar. Í staðinn fyrir geitapottrétt höfum við lambapottrétt á jóladag, með íslensku lambakjöti.

Karen Björnsson (Vinstra megin) – bresk en ólst upp í Suður Afríku

Hvernig er haldið upp á jólin í Suður Afríku?
Fjölskyldan flutti til Suður-Afríku þegar ég var lítil en jólahefðirnar þar eru svipaðar og í Bretlandi, enda er Suður-Afríka fyrrum bresk nýlenda. Við höldum upp á jólin þann 25. des, vöknum snemma um morguninn og borðum saman morgunmat. Eftir það eru pakkarnir opnaðir. Um hádegi klæða sig allir upp og byrja að elda jólamatinn. Jólin eru alltaf yfir sumartímann í Suður-Afríku þannig að það er alltaf sólríkt og heitt í veðri. Fjölskyldan borðar saman jólamatinn þann 25. des og er hefðbundinn jólamatur kalkúnn með fyllingu, stöppuðum kartöflum, rósakáli, blómkáli, baunir og brúnni sósu. Með þessu er líka Yorkshire pudding sem eru litlar bökur úr smjördeigi með kjötfyllingu. Í eftirrétt er jólabúðingur með custard sem er gula maukið eins og sett er í íslensk vínarbrauð. Mér líkar mjög vel við íslenskar jólahefðir og held íslensk jól með manninum mínum og tengdafjölskyldu.