Heimsáskorun KFUM og KFUK
Þann 13. október 2012 munu milljónir manna á vegum Heimssambands KFUM og KFUK koma saman til þess að setja nýtt heimsmet.
Heimsáskorun KFUM – 2012 „Hoop Springs Eternal“ er viðburður skipulagður þann 13. október 2012 til þess að fagna starfi KFUM og KFUK um allan heim á sviði valdeflingar ungs fólks. KFUM og KFUK félög munu skipuleggja viðburði þar sem að öllum þátttakendum og fleirum verður boðið að skjóta á körfu. Viðburðirnir verða fjölmargir á þúsundum staða um allan heim.
KFUM ætlar að setja nýtt heimsmet með því að safna saman fleira fólki en nokkurn tímann áður hefur verið gert til þess að skjóta á körfu í tilefni viðburðarins. Um allan heim mun félagsstarf KFUM og KFUK af öllum toga s.s. íþróttir, tómstundir, tónleikar, ljósmyndasýningar og margt annað kalla fjölda fólks til þátttöku í degi fagnaðar og sköpunar. Körfuboltaáskorunin mun sameina hina fjölmörgu viðburði um allan heim.
Það var innan vébanda KFUM og KFUK sem körfuboltinn varð til 1890. Í dag er körfubolti ein vinsælasta íþrótt heims og hefur hún reynst mikilvægt verkefni til heilsueflingar.
Viðburðurinn hefst í Nýja-Sjálandi kl. 8.00 á staðartíma að miðnætti sama dag á Hawai. Þennan dag verða fjölmörg samfélög og fjöldi menningarheima tengd saman í gegnum beina veflýsingu og samfélagsmiðla.
Allir áhugasamir um viðburðina geta nálgast upplýsingar hjá KFUM í viðkomandi landi. Alþjóða körfuknattleikssambandið og UNESCO eru stuðningsaðilar verkefnisins.
Við hér á Íslandi tökum vitanlega virkan þátt í þessum stórmerkilega viðburði og verðum með dagskrá á Akureyri, í Reykjanesbæ, Vestmannaeyjum, Hveragerði, Borgarnesi og í Reykjavík.
Hér í Reykjanesbæ ætla bæði börn og unglingar ásamt leiðtogum sínum að vera áberandi á ýmsum stöðum hér í bæ og bjóða fólki að taka þátt í átakinu. Hver hópur hefur útbúið sitt eigið körfuboltaspjald eftir sínum hugmyndum og með því kynna bæði KFUM og KFUK starfið og mikilvægi íþrótta og hreyfingar.