Heimilissorp og utanvegaakstur vandamál
- Ásta Davíðsdóttir og Hanna Valdís Jóhannsdóttir eru landverðir á Reykjanesi
Undanfarin misseri hafa landverðir verið starfandi í Reykjanes UNESCO Global Geopark og er það í fyrsta sinn sem landvarsla fer fram utan við Reykjanes fólkvang þar sem landvörður hefur starfað um árabil.
Stöðugur straumur ferðamanna allt árið um kring hefur gert það að verkum að aukið álag er á viðkvæmum svæðum en Reykjanesfólkvangur er t.d á rauðum lista Umhverfisstofnunar yfir ástand friðlýstra svæða en þar er utanvegaakstur mikið vandamál allt árið um kring.
Stjórn Reykjanes Geopark hefur sett sér það markmið að efla landvörslu á Reykjanesskaga og hefur óskað eftir heimild í fjárlögum að ráða landvörð á Reykjanesskaga í heils árs stöðu.
Þær Ásta Davíðsdóttir og Hanna Valdís Jóhannsdóttir voru ráðnar til starfa í september á síðasta ári á vegum Umhverfisstofnunar og höfðu þær aðsetur á skrifstofu Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja en þar starfar jafnframt Reykjanes UNESCO Geopark. Ráðning þeirra er þó einungis tímabundin en góð byrjun að mati þeirra sem standa að Reykjanes Geopark.
Hanna Valdís er ferðamálafræðingur og hefur starfað sem landvörður á hálendinu í tvö ár og Ásta er garðyrkju, umhverfis- og náttúrufræðingur og hefur starfað sem landvörður í 15 ár.
Þeirra fyrsta verkefni var að vinna ástandsmat fyrir svæðið auk þess sem þær sinntu gestum og öðrum hefðbundnum störfum landvarða. En hver skyldu þau vera?
Landverðir oft í miklum samskiptum við gesti svæðisins
„Störf landvarða eru svipuð en þó ólík frá einu svæði til annars. Margbreytni starfsins ræðst meðal annars af fjölbreyttri náttúru, ólíkum ferðamönnum sem koma víðs vegar að og mismunandi aðstæðum á svæðunum” segir Ásta en landverðir vinna fyrst og fremst á náttúruverndarsvæðum og svæðum á náttúruverndarskrá.
„Við sinnum landvörslu sem felur í sér eftirlit, fræðslu og viðhald. Eftirlit getur falið í sér að skoða svæði til að sjá hvernig ástandi þau eru í og hvort til einhverra aðgerða þurfi að grípa til að vernda þau gegn frekari skemmdum eða hvort þau eru bara í góðu lagi og ekki þurfi að gera neitt sérstakt annað en að fylgjast með þeim” segir Hanna Valdís og bætir við að landverðir séu oft í miklum samskiptum við gesti svæðanna.
„Gestir geta leitað til landvarða með ýmsar spurningar og hugleiðingar um svæði og reyna landverðir að svara þeim eftir bestu getu. Gestir geta einnig verið að leita eftir svörum við spurningum um færð, ástand vega, veður, ferðahegðun t.d. á slæmum vegum og ástand vaða.”
Þær segjast reyna að koma til skila mikilvægi réttra og öruggrar ferðahegðunar í náttúru Íslands sem bæði tryggir öryggi gesta og kemur í veg fyrir náttúruskemmdir.
Heimilisrusl og utanvegaakstur mikið vandamál
Reykjanesið hefur komið þeim á óvart og segja þær svæðið fjölbreytt en jafnframt víðfemt. Þá hafi komið í ljós að umgengni um svæðið er ekki alltaf góð.
„Reykjanes er víðfemt og fagurt og því sækja það margir gestir allan ársins hring. Þarna eru mikill fjölbreytileiki allt frá stöðum sem tekur lítinn tíma að skoða yfir í gönguleiðir sem taka nokkra daga að ganga. Það sem okkur fannst miður á þessu fallega svæði var að fólk virðist hafa hent af rusli af heimilum sínum út í náttúruna og hvað utanvegaakstur fólks á vélknúnum hjólum er mikill á svæðinu.”
Landverðirnir segja það hafa gagnast vel að hafa aðstöðu hjá Heklunni og Reykjanes UNESCO Global Geopark þar sem þær hafa fengið margar góðar ábendingar og upplýsingar. Þá nýtist vinna þeirra í stefnumótun fyrir svæðið þær sem þær geta gefið upplýsingar um brýn verkefni í tengslum við verndun náttúru Reykjanessins.
„Eftir að hafa unnið á svæðinu finnst okkur ekki vanþörf á að hafa fimm landverði á háannatíma, tvo í Reykjanesfólkvangi og tvo utan hans og einn í afleysingar. Gott væri að hafa tvo til þrjá að vetri til þar sem einnig er mikil umferð um svæðið í skammdeginu.
Það að fá tækifæri til að starfa á Reykjanesinu hefur opnað augu okkar fyrir fegurð og fjölbreytileika svæðisins og höfum við notið þess að kynnast nýju svæði og nýju fólki.
Þar sem fengist hefur framlag til landvörslu á Reykjanesi árið 2018 mun Ásta Davíðsdóttir halda áfram landvörslu á svæðinu en nýr starfsmaður henni til aðstoðar mun bætast við í sumar og gert er ráð fyrir landvörslu á Reykjanesi eitthvað fram á vetur.