Heimildarmynd um Vistsporið í Andrews Theatre
Heimildarmyndin Maðurinn sem minnkaði Vistsporið sitt verður sýnd í Andrew´s Theater á fimmtudaginn í þessari viku, 9. júní, klukkan 17:00. Fyrirtækið Bros bræður framleiddi myndina en það er í eigu bræðranna Sigurðar E. og Magnúsar B. Jóhannessona úr Keflavík.
Sigurður er í aðalhlutverki í myndinni og fjallar hún um baráttu hans við að lifa sjálfbæru lífi í ósjálfbæru samfélagi. Í myndinni er fylgst með honum reyna eftir fremsta megni að ná neyslu sinni inn fyrir mörk sjálfbærni eins og þau eru skilgreind af aðferðafræði Vistsporsmælinga. Baráttan knýr hann til að svara spurningum um alla sína hegðun, eins og til dæmis um það hvað hann borðar, hvernig hann ferðast, hvernig hann býr, hvað hann kaupir inn, hvaða þjónustu hann notar og hvernig hann skilar frá sér sorpinu sem neysla hans veldur. Í ferlinu lærir Sigurður að fátt í íslensku samfélagi styður slíka baráttu og hann finnur fljótt að það er hægara sagt en gert að ná neyslunni inn fyrir sjálfbærnimörkin.
Myndin er létt og skemmtileg og var tekin upp í anda Dogme 95 stílsins, þar sem áhersla er lögð á að koma sögunni til skila án þess að láta tæknina kæfa verkefnið. Myndin verður sýnd í samstarfi við sveitarfélögin á Suðurnesjum. Allir eru velkomnir og frítt er inn. Að sýningu lokinni verða pallborðsumræður um málefni myndarinnar og vistsporið. Í pallborði verða Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS, Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis. Sigurður Jóhannesson, einn framleiðenda myndarinnar og doktorsnemi í umhverfisfræði við HÍ, verður einnig í pallborðinu, ásamt fulltrúa frá Isavia.
Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr myndinni: