Heimildarmynd um það hvernig Siggi minnkaði vistsporið
Magnús og Sigurður Jóhannessynir, bræður úr Keflavík, frumsýna heimildarmyndina Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt síðasta vetrardag. Hugmyndin að myndinni kviknaði þegar Sigurður stundaði meistaranám í umhverfisfræði við Háskóla Íslands. „Siggi lærði um vistsporið í náminu sínu og af forvitni mældi hann sitt. Hann er neyslugrannur maður og hefur alltaf verið. Þrátt fyrir það kom í ljós að vistsporið hans var nokkuð stórt og yfir þeim viðmiðum sem sett eru til að samfélagið haldist sjálfbært. Það kom honum á óvart og hann vildi sjá hvað hann þyrfti að gera til að minnka vistsporið sitt og myndaði það ferli,“ segir Magnús um tilurð myndarinnar.
Umhverfismál eru þeim bræðrum hugleikin. Sigurður stundar nú doktorsnám í umhverfisfræði við Háskóla Íslands og Magnús er rekstarhagfræðingur og hefur unnið að ýmsum verkefnum tengdum umhverfisvænni orku síðastliðin 17 ár, aðallega í Ungverjalandi og Bandaríkjunum. Margir komu að gerð myndarinnar, meðal annarra Suðurnesjamennirnir þeir Arnar Fells Gunnarsson, Karl Geirsson Newman, Þór Sigurðsson, Ingi Þór Ingibergsson, Magnús Sigurðsson, Þröstur Jóhannesson, Júlíus Guðmundsson, Ingibergur Kristinsson, Sverrir Ásmundsson og Jón Marinó Sigurðsson. Myndin er tekin upp í anda hins danska Dogme 95 stíls, þar sem áhersla er lögð á að koma sögunni til skila án þess að tæknin leiki of stórt hlutverk.
Að sögn Magnúsar nota Vesturlandabúar almennt miklu meira af gæðum jarðinnar en þeir ættu að gera og ganga þannig á auðlindir hennar í staðinn fyrir að lifa af höfuðstólnum, það er lifa sjálfbæru lífi. „Vistsporið er mjög einföld og kraftmikil aðferðafræði við að mæla neyslu okkar í daglegu lífi. Flest okkar lifa umfram það sem ættum að vera að gera. Ef neysla allra jarðarbúa myndi vera eins og okkar á Vesturlöndum þá þyrftum við eina og hálfa til þrjár jarðir. Það stefnir því í þrot ef við breytum ekki hegðun okkar gagnvart jörðinni,“ segir hann.
Eins og áður sagði fjallar myndin um það þegar Sigurður mælir sitt vistspor og reynir að minnka það. Magnús segir margt áhugavert hafa komið í ljós við mælingar Sigurðar. Það kemur sennilega fáum á óvart að eitt af því er kolefnisfótsporið. „Ef við eigum bíl sem gengur fyrir kolefniseldsneyti, það er bensíni eða olíu, þá skiptir miklu máli að skipta yfir í annan orkugjafa, eins og rafmagn, vetni eða metan. Ef það er ekki gert er mikilvægt að reyna að takmarka notkun á farartækjum sem ganga fyrir kolefniseldsneyti,“ segir Magnús. Þá hefur mikil kjötneysla einnig gríðarleg áhrif á umhverfið og stækkar vistspor fólks og hún hefur aukist undanfarin ár á Vesturlöndum.
Umhverfismálin eru í dag mun fyrirferðarmeiri í almennri umræðu en fyrir aðeins nokkrum árum síðan. Mikið bjartsýni var ríkjandi eftir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í lok síðasta árs þar sem leiðtogar 195 ríkja náðu samkomulagi um að takast á við þann vanda sem óhóflegur útblástur gróðurhúsalofttegunda veldur. Þær raddir hafa þó heyrst að ef til vill sé það um seinan að snúa þróuninni við. Magnús segir það alls ekki of seint en að tæpara megi það varla vera. Hann segir tíma til kominn að bretta upp ermar og fara að gera eitthvað í málinu. „Vísindamenn hafa talað lengi um þetta en harla lítið gerst. Við erum að horfa til þess að nota vistsporið sem þann mælikvarða sem okkur vantar til að átta okkur á því hvar við erum stödd og hverju þarf að breyta.“
Heimildarmyndin verður sýnd síðasta vetrardag, á miðvikudag í næstu viku, þann 20. apríl. Sýningin verður í samstarfi við Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og hefst klukkan 15:00 í sal 2 í Háskólabíói. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Að sýningu lokinni verða pallborðsumræður um efni myndarinnar, loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í París í desember síðastliðnum og um umhverfismál almennt. Meðal þeirra sem taka þátt í pallborðsumræðunum eru þau Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Aðstandendur myndarinnar eiga von á góðri þátttöku og því er um að gera að skrá sig á viðburðinn á Facebook-síðu myndarinnar “Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt.“ Nánari upplýsingar um heimildarmyndina má einnig nálgast á vefnum www.manwhoshrunk.com.
Hér má sjá stiklu úr myndinni:
man who shrunk trailer Oct 5 2015 from Magnus Johannesson on Vimeo.