Heimatónleikarnir
á Ljósanótt hafa fest sig rækilega í sessi. Í boði á sex heimilum í Reykjanesbæ í ár.
„Við Júlli fórum á svona heimatónleika, „Heima í Hafnarfirði,“ fyrir tíu árum, hugmyndin fæddist og hér erum við í dag með heimatónleika í níunda skipti sem hluta af Ljósanóttinni og hafa þeir fest sig rækilega í sessi,“ segir Guðný Kristjánsdóttir en hún og eiginmaður hennar, Júlíus Guðmundsson, hafa frá upphafi haldið utan um heimatónleikana vinsælu á Ljósanóttinni. Þau hafa alltaf fyrir utan tvö skipti haldið tónleika heima hjá sér, í hin tvö skiptin héldu þau tónleika hjá vinafólki sem búa í gamla bænum, þar sem fyrstu tónleikarnir voru allir haldnir. Þau verða í broddi fylkingar að þessu sinni og ákváðu að leita ekki langt yfir skammt, Bjartmar og Bergrisarnir munu skemmta þeirra gestum á Skólavegi 12 en Júlli er bassaleikari hljómsveitarinnar.
„Það er búið að vera ofboðslega gefandi og skemmtilegt að standa í þessu og mér er þakklæti efst í huga, að fólk skuli vera tilbúið að opna heimili sín svona og bjóða ókunnugum heim til sín. Gestirnir bera mikla virðingu fyrir heimilum okkar, ég hef varla þurft að gera neitt eftir þá tónleika sem ég hef haldið, fólkið gengur svo vel um en mest hafa verið um 100 manns í einu hjá okkur. Þetta hefur gengið mjög vel, fyrsta árið voru fernir heimatónleikar og allir í gamla bænum, í fyrra vorum við með sjö en þeir verða sex að þessu sinni. Fernir tónleikar verða í gamla bænum og okkar og einir aðrir tónleikar í nágrenni við okkur. Gaman frá því að segja að Sibbi Presley mun aftur mæta á rútu og keyra gesti á milli gamla bæjarins og okkar, þannig ættu gestir að geta náð einhverju á báðum stöðum en tónleikarnir hefjast kl. 21 og eru í 40 mínútur, pása í tuttugu mínútur og hefjast svo aftur kl. 22. Við höfum allan tímann haft þetta svona, að viðkomandi hljómsveit sé bara á einum stað og fólkið flakki á milli en í Hafnarfirði þarf hljómsveitin að færa sig á milli staða, það er miklu meira vesen að okkar mati.“
Landslið tónlistarfólks
Fyrstu árin redduðu hjónin öllum tónlistaratriðunum en í dag ákveður hvert og eitt heimili hvaða tónlistaratriði það vill bjóða upp á. Á litla sæta Íslandi þar sem maður þekkir mann, er ekki erfitt að komast í tæri við tónlistarfólkið.
„Við vorum með Mugison í fyrra, Pál Óskar þar áður en það eru alltaf landsþekktir tónlistarmenn sem koma fram. Í ár verða fyrir utan Bjartmar og Bergrisana sem verða hjá okkur, Herbert Guðmundsson, Júníus Meyvant, Jón Jónsson, Andrea Gylfadóttir og Snorri Helgason. Þessir tónleikar hafa alltaf farið fram, sama hvernig veðrið er en við munum hvað það lék ekki við okkur í fyrra. Fólk vill geta haldið þetta úti á pallinum hjá sér en það var ekki mögulegt í fyrra og þá einfaldlega voru tónleikarnir færðir inn og þröngt máttu sáttir sitja. Ég er búin að senda skeyti á veðurguðina, trúi ekki öðru en þeir verði okkur hliðhollir í ár fyrst þeir léku okkur svona grátt í fyrra.
Þetta eru oft sömu heimilin sem halda tónleikana á hverju ári en tvö duttu út í ár og eitt nýtt kom í staðinn. Við höfum verið spurð að því af hverju við séum ekki með fleiri tónleika en það er erfitt að fá svo marga tónlistarmenn á sama tímanum en kannski ættum við að fjölga þeim, alla vega er ekki vandamálið að selja miðana en þeir renna alltaf út eins og heitar lummur. 550 miðar voru uppseldir á nokkrum mínútum þegar salan opnaði á tix.is um daginn. Hver veit nema svokallaðir „off venue“ tónleikar spretti upp líka, mér skilst að einhverjir séu að spá í það sem er hið besta mál, það er allt í lagi að koma með slíkt þegar búið er að seljast upp á auglýstu tónleikana. Það er virkilega gaman hvað þetta hefur fest sig vel í sessi en þess ber að geta að það erum við fólkið sem sjáum um þetta, Reykjanesbær þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu en enginn græðir krónu á þessu, miðaverðið fer einfaldlega í að borga tónlistarfólkinu. Við fáum ánægjuna út úr þessu, mér finnst þetta afskaplega gaman og hlakka til að opna heimili mitt fyrir gestum föstudaginn 6. september,“ sagði Guðný að lokum.