Heimatónleikar á Ljósanótt
Ákveðið hefur verið að halda Heimatónleika á Ljósanótt, föstudagskvöldið 2. september næstkomandi. Tónleikarnir verða með sama fyrirkomulagi og undanfarin ár þar sem listamenn koma fram í nokkrum heimahúsum, spila í 40 mínútur og endurtaka svo prógrammið aftur að loknu stuttu hléi.
Búið er að ráða listamenn í flest húsin sem taka þátt og má þar nefna söngvarana Pál Óskar, Sverri Bergmann ásamt Halldóri Fjallabróður, Mc.Gauta, Möggu Stínu með lög meistara Megasar og Hreim. Þá munu hljómsveitirnar Æla og Vintage Caravan vera bókaðar. Þau sem standa að þessari uppákomu voru ákveðin í að láta þennan vinsæla dagskrárlið Ljósanætur halda sér og hvert hús réði til sín það listafólk sem búið var að ræða við undanfarin tvö ár en eins og allir vita varð ekkert úr þeirri veislu. Nánari upplýsingar um hús, miðasölu og listamenn verða birtar er nær dregur en stefnt er á að miðasala hefjist um miðjan ágúst.
Umsjónaraðilar Heimatónleika á Ljósanótt.