Heim í heiðardalinn
Nú er í gangi eitt allsherjar heimboð sem við Íslendingar hermum upp á hina sjö milljarða íbúa þessa heims. Geimverum er ekki boðið að sinni. Árni bæjó býður gesti velkomna á brúna milli heimsálfa á Reykjanesi og einnig er boðið í Skessuhelli, að hitta skvísuna sem þar hrýtur og prumpar. Þá er hægt að fara í heimsókn til Óla forseta og Dorritar, sem bjóða heim í pönnsur með sykri og rjóma. Kata iðnaðarráðherra býður í fótabað á Seltjarnarnesi.
En hvað með okkur hin, eigum við ekki að taka þátt? Er ekki málið að tæla erlenda ferðamenn til Suðurnesja í allri sinni dýrð? Við eigum mörg okkar allt undir í ferðaiðnaði enda flugvöllurinn aðalæðin til fyrirheitna landsins og okkar stóriðja. Skítt með álverið, það kemur seinna. Stutt að fara úr flugstöðinni í Bláa lónið, skoða náttúrufegurð við Reykjanesvita eða jafnvel taka Bláa demantinn bókstaflega. Mig langar samt mest að bjóða í þorraveislu þegar þar að kemur. Súrir pungar með freðnu brennivíni og sviðahausar er eitthvað sem ég hlakka til að bjóða erlendum gestum mínum upp á. Vorum á Norður-Spáni í sumar og þá í hlutverki gestanna. Óborganlega ljúfar móttökur. Snerum reyndar á gestgjafana og buðum þeim íslenska lambalærið, eldað að hætti Frónverja. „Ummm, mama mía“ heyrðist oftar en ekki þegar íslenski sauðurinn saddi brosmilda Baska við veisluborðið.
Suðurnesjamenn eiga gnægð gjafa þegar kemur að náttúru og kennileitum. Allt meira og minna frítt, meira að segja norðurljósin. Elstu mannvistarleifar svæðisins eru vel geymdar og grafnar í Höfnum, Gunnuhver og Orkuverið Jörð á sama korterinu. Garðskaginn útivistarveisla og rómantík í einum pakka. Duushúsin í Keflavík og Víkingaheimar í Njarðvíkurborg. Fræðasetrið í Sandgerði, Eldvörp og Brimketill í Grindavík að ógleymdum Stapadraugnum í Vogum. Eigum fagmenn í ferðaiðnaði sem auðveldað geta leiðsögnina.
En hvað með önnur sérkenni? Kveikjum á öðrum hverjum staur á Reykjanesbrautinni og eigum pappalöggur á lager hjá löggunni! Eigum heimsmet í hringtorgum og hraðhindrunum per íbúa og tuttugasti hver kofi á fasteignasölu fjármálastofnana. Látum samt ekki deigan síga, bjóðum heim í heiðardalinn!