Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heilsustígar Reykjanesbæjar vekja lukku meðal bæjarbúa
Horft eftir heilsustíg sem tengir Heiðarhverfi við Grófina. Mynd: Eysteinn Eyjólfsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 15. apríl 2021 kl. 11:06

Heilsustígar Reykjanesbæjar vekja lukku meðal bæjarbúa

Umhvefissvið Reykjanesbæjar hefur unnið að betrumbótum við lagningu heilsustíga víða um bæinn sem íbúar hafa verið duglegir að nýta sér. Stígarnir tengja saman bæjarhlutana og enn frekari framkvæmdir eru áætlaðar.

„Við erum búin að klára áætlun um það sem á að klára á þessu ári. Heilsustígarnir eru fjórir hringir; Innri-Njarðvíkurhringur, Ásbrúarhringur, Njarðvíkurhringur og Keflavíkurhringur. Þeir tengjast svo allir saman, við erum ekki byrjuð á Ásbrúarhringnum en þar eru fjölmargir göngustígar fyrir og við erum að vinna í hönnun á honum,“ segir Gunnar Ellert Geirsson, deildarstjóri umhverfismála hjá Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þegar við tölum um þessa hringi þá er ég að tala um heilsustígana, þessa stíga sem eru breiðari en aðrir og upplýstir. Svo erum við líka að nýta fjárfestinguna í þessu kerfi til að bæta hjóla- og gönguleiðir í skóla, sérstaklega fyrir grunnskólabörnin, af því það er mjög mikið skutl þar sem foreldrar eru ekki að treysta þeim hjóla- og gönguleiðum sem eru í boði. Þótt heilsustígarnir séu hugsaðir sem hringir í kringum jaðarinn þá eru leiðir inn á milli þeirra.“

Að sögn Gunnars stendur nú til að gera stíg þar sem undirgöngin liggja undir Þjóðbraut. „ Þar sem maður kemur frá nýja Hlíðahverfinu og fer í átt að Reykjaneshöllinni, síðan verður hægt að halda áfram út í Njarðvíkurskóga. Svo munum við halda áfram meðfram nýja gervigrasinu og niður að Strandleiðinni – þá erum við búin að loka þeim hring.“

Á meðfylgjandi yfirlitsmynd má sjá heilsustígana og stöðu þeirra í dag.

Rauðmerktir heilsustígar eru tilbúnir, grænmerktir eru á framkvæmdaráætlun í ár, gulir eru tillögur og blámerktir eru þar sem breikkun stíga er í vinnslu.


Hjólreiðastígur sem nær til Grindavíkur

Á þeim slóðum sem frisbígolfvöllurinn er í Njarðvíkurskógum er komin þrautabraut og þar eru jafnvel áætlanir uppi um að útbúa fjallahjólabraut í framtíðinni.

„Við erum í sambandi við helstu sérfræðinga landsins í gerð á fjallahjólabraut, skoða möguleikann á að setja þannig braut upp þar, í Vatnsholti eða jafnvel út í Gróf. Þá í nálægð við heilsustígana svo hægt verði að hjóla þangað.

Við höfum rætt við Vegagerðina um að gera upplýstan heilsustíg frá austasta hluta Innri-Njarðvíkur, alveg frá Stapanum, undir mislægu gatnamótin við Grindavíkurafleggjarann og alveg út í Sólbrekkuskóg, tengja hann svo við Grindavíkurstíginn og hringinn í kringum Seltjörn. Vegagerðinni hugnast það mjög og hvatti okkur til að sækja um. Svo höfum við áhuga á að tengja okkur við Leiruna, það er náttúrlega ekki í landi Reykjanesbæjar en fjölmargir iðkendur úr Reykjanesbæ æfa þar svo við viljum reyna að auðvelda aðgengi þeirra þangað. Vegagerðin og Reykjanesbær vilja leggja stíg þangað og einhverjar viðræður við Suðurnesjabæ hafa átt sér stað.

Heilsustígur samhliða Njarðarbrautinni er okkur einnig ofarlega í huga en foreldrar barna sem búa á þeim slóðum og þurfa að sækja Njarðvíkurskóla, tónlistarskólann og/eða Reykjaneshöllina treysta ekki þeim stígum sem nú eru í notkun enda talsverður umferðarþungi á Njarðarbrautinni,“ sagði Gunnar Ellert að lokum.