Mannlíf

Heilsukoddinn Keilir á markað erlendis
Hulda kynnti heilsukoddann Keili á heilsuráðstefnu í Kaupmannahöfn á dögunum. Eftir ráðstefnuna gerði hún samning við danskt fyrirtæki um að koma honum á markað í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. VF-mynd/Aldís Ósk
Sunnudagur 24. júlí 2016 kl. 11:00

Heilsukoddinn Keilir á markað erlendis

Hulda þróaði heilsukodda eftir að hafa fengið hálsáverka

Hulda Sveinsdóttir hlaut áverka á háls árið 2005 og átti eftir það erfitt með svefn. Í framhaldinu þróaði hún heilsukoddann Keili fyrir fólk með hálsáverka. Hann hefur verið seldur í litlu upplagi hér á landi síðan 2009 en á dögunum gerði Hulda samning við heilsufyrirtækið Careware Kompagniet í Danmörku um dreifingu á Norðurlöndunum til að byrja með og víðar í framtíðinni. „Það eru spennandi tímar framundan og gaman að hafa náð samningum um dreifingu á Norðurlöndum,“ segir Hulda en koddinn verður framleiddur hjá fjölskyldufyrirtækinu Ekamed í Þýskalandi. Koddinn samanstendur af fimm stykkjum, botni, tveimur hliðarstykkjum og tveimur sívalningum sem festir eru á botnstykkið með frönskum rennilás.

Hjálpsamur gestur

Hulda á og rekur gistiheimilið Ravens Bed and Breakfast í Njarðvík og síðasta vetur kom þangað gestur frá Danmörku sem heitir Hilmar og var áhugasamur um koddann. Á þeim tíma var Hulda við það selja hugmyndina að koddanum til fyrirtækis í Bandaríkjunum. „Hilmar ráðlagði mér að gera það alls ekki heldur að koma koddanum sjálf á framfæri sem víðast um heiminn,“ segir Hulda. Síðar hafði hann svo samband við Huldu og benti henni á ráðstefnuna Health & Rehab í Kaupmannahöfn þar sem kynntar eru ýmsar heilsu- og hjálparvörur. Ráðstefnan var haldin í Bella Center í Kaupmannahöfn í maí síðastliðnum. „Þetta var mjög stór og flott ráðstefna. Hann var búinn að biðja vini sína, þau Bente og Jakob, um að leyfa mér að vera með þeim á bás. Ég hafði reyndar ekkert spjallað við þau en bara mætti á staðinn. Þetta voru dásamlegir fjórir dagar þarna og allt gekk upp og margir sem komu og kynntu sér koddann.“ Þau Bente og Jakob reka fyrirtækið Careware Kompagniet í Danmörku og bjóða upp á ýmsar vörur til hjálpar sjúklingum, heima og á sjúkrastofnunum. Á lokadegi ráðstefnunnar gerði Hulda svo samning við þau um að dreifa koddanum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi og svo víðar á næstu misserum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Vildi hjálpa sjálfri sér

Hulda hlaut áverka á hálsi þegar hún var að gera upp húsnæði fyrir meir en áratug og átti erfitt með svefn vegna verkja. Hún segir áverkana líkjast þeim sem koma þegar fólk lendir í aftanákeyrslu. „Ég hlustaði ekki á líkamann þegar ég var í framkvæmdunum og festist aftan á hálsi. Ég reyndi ýmislegt, fór til sjúkraþjálfara, hnykkjara og í nálastungur. Það má eiginlega segja að ég hafi reynt allt.“ Sjúkraþjálfarinn benti Huldu á að rúlla upp handklæði og tylla undir hálsinn þegar hún svaf. Það virkaði upp að vissu marki og er hugmyndin að koddanum byggð á þessu ráði sjúkraþjálfarans. „Handklæðið hélst illa upprúllað svo ég þróaði koddann þannig að hann virkar svolítið eins og þetta nema hann aflagast ekki og fólk getur stillt hann eins og hentar hverjum og einum, enda erum við öll misjöfn.“

Veturinn 2008 til 2009 stundaði Hulda nám í frumkvöðlafræði hjá Keili og þróaði viðskiptahugmyndina að baki koddanum þar. Þegar Hulda var að þróa koddann auglýsti hún eftir fólki með hálsáverka til að prufa hann og koma með ábendingar um það hvernig mætti gera koddann sem bestan. Hulda segir það hafa verið mjög hjálplegt að fá umsagnir frá hópnum. „Úr þeirri vinnu kom meðal annars í ljós að besta efnið í koddann er þrýstijöfnunarsvampur.“ Fyrstu 500 koddarnir voru framleiddir í Kína með góðri aðstoð frá eiganda Svefn og heilsu og hefur undanfarin ár hefur koddinn verið seldur þar og hjá RB rúmum. Á tímabili var koddinn seldur um borð í í flugvélum bandarískra flugfélaga.

Mun nýtast fyrir fólk með heilabilun

Á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn voru ýmsar vörur sem ætlaðar eru fólki með heilabilun og segir Hulda að koddinn Keilir geti einmitt hentað fyrir þann hóp. „Koddinn gefur fólki þá tilfinningu að hann haldi utan um höfuð þess og það er talið mjög gott fyrir fólk með heilabilun og veitir þeim öryggi,“ segir Hulda. Nú þegar koddinn fer á markað í útlöndum ætlar Hulda að bjóða upp á nokkrar gerðir koddavera utan um hann. Til dæmis verða rauð fyrir fólk með heilabilun því sá litur er talinn auka matarlist sem getur verið af skornum skammti hjá því fólki. Hulda segir góðar líkur á því að koddinn verði bæði seldur til einstaklinga og stofnana og verður því líka í boði koddaver sem hægt er að sótthreinsa. „Svo verður líka koddi úr blautbúningaefni sem hægt verður að taka með sér á ströndina og það verður eitthvað alveg nýtt á heimsvísu.“ Koddinn vegur ekki nema 400 grömm og segir Hulda því lítið mál að taka hann með í ferðalög. „Ég var sjálf eiginlega hætt að ferðast áður en ég þróaði koddann því þegar maður er með hálsáverka getur maður ekki gist með hvaða kodda sem er á hótelum.“

Koddinn hefur fengið ýmis verðlaun á erlendri grundu, til að mynda Special Recognition Award hjá EUWIIN (European Union Women Inventors & Innovators Network) og Inpex-verðlaunin í flokknum Health and Fitness í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Það verður því spennandi að fylgjast með markaðssókn Huldu erlendis með koddann Keili. Hún segir marga hafa stutt sig við það verkefni að koma koddanum á markað og að án þeirra hafði hann aldrei orðið að veruleika.

Nánar má lesa um heilsukoddann Keili á vefsíðunni buildyourpillow.com og á Facebook-síðunni Keilir Health Pillow.

Koddinn samanstendur af fimm stykkjum, botni, tveimur hliðarstykkjum og tveimur sívalningum sem festir eru á botnstykkið með frönskum rennilás. Búið er að setja koddaver utan um efri koddann á myndinni. VF-mynd/Aldís Ósk.