Heilsubækur vinsælastar í bóksafni Reykjanesbæjar
-sem flutti nýlega í ráðhús bæjarins við Tjarnargötu
„Heilsubækur eru vinsælastar og skáldsögukiljur frá Norðurlöndum,“ sögðu þær Rannveig Garðarsdóttir og Guðný Húnbogadóttir starfsmenn Bókasafns Reykjanesbæjar. Stutt er síðan safnið flutti í húsnæði Reykjanesbæjar við Tjarnargötu í Keflavík eftir að hafa verið í mörg ár við Hafnargötu 57.
Daglega koma um 300 manns í bókasafnið sem er á tveimur hæðum í sama húsnæði og Sparisjóðurinn og síðan Landsbankinn voru í. Rannveig segir að bókin sé enn mjög vinsæl þó svo að rafbækur og fleira tengt tölvum sé einnig í boði. Þúsundir titla eru í boði í bókasafninu og þangað koma reglulegar nýir titlar í hús. Opið er alla daga nema sunnudaga.
Aðstaðan í nýja bókasafninu er skemmtileg þó sumir sakni gamla staðarins en þar var aðstaðan eins og hún gerðist best. Það sem nýi staðurinn hefur umfram er að þar er m.a. hægt að tylla sér með kaffibolla því þar er einnig kaffihús sem Angela Marina Barbedo Amaro rekur. Hún segir að viðtökurnar hafi verið mjög góðar og hún sé mjög ánægð. Í boði eru m.a. kaffidrykkir og fjölbreytt meðlæti.
Angela Marina Barbedo Amaro rekur nýtt kaffihús í sama húsnæði og bókasafnið.
Rannveig og Guðrún í afgreiðslu bókasafnsins.
Ungu krakkarnir velja sumir rafbókina umfram gömlu harðspjaldabókina.
Þjónustuver Reykjanesbæjar er einnig á staðnum. VF-myndir: Páll Ketilsson