Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heilsuátak eldri borgara í Sandgerði
Íþróttamiðstöðin í Sandgerði.
Föstudagur 22. nóvember 2013 kl. 08:00

Heilsuátak eldri borgara í Sandgerði

Í Sandgerði hefur verið efnt til átaksins „Eflum líkama og sál“ – heilsuefling eldri borgara. Á dagskrá eru ýmsir viðburðir s.s. gönguhópur, jóga, boccia, sundleikfimi og margt fleira. Sandgerðisbær stendur að átakinu sem undirbúið var af vinnuhópi skipuðum fulltrúum aldraðra og frístunda-, forvarna- og jafnréttisráði.

Átakið mun hefjast mánudaginn 25. nóvember kl. 17 í Vörðunni með fyrirlestrinum „Að halda heilsunni“ þar sem Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir ætlar að fræða fólk um hvað hægt er að gera til að halda góðri heilsu alla ævi; hvað beri helst að varast og hverju hægt er að  breyta með réttum lífsstíl. 
 
Fyrstu dagskrá hefur verið dreift í öll hús í Sandgerði og má einnig nálgast hana á heimasíðu bæjarins. Átakið mun standa yfir þar til í mars eða yfir dimmustu mánuðina. 
 
Með heilsueflingunni er fólk hvatt til þess að efla líkama og sál, t.d. með hreyfingu. Hreyfing skiptir miklu máli og sérstaklega fyrir eldra fólk, því rannsóknir sýna að með reglubundinni hreyfingu er hægt að hægja á þeim öldrunarbreytingum sem verða í líkamanum með hækkandi aldri. Með markvissri og stigvaxandi þjálfun má bæta heilsu og líðan fólks á hvaða aldri sem er. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024