Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heilsuáskorun til sjómanna
Önnur af áhöfnum Tómasar Þorvaldssonar, ásamt Ásdísi og Ingibjörgu frá Nettó.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 29. apríl 2023 kl. 06:06

Heilsuáskorun til sjómanna

Sjómenn hjá Þorbirni hf. í Grindavík tóku áskorun um heilsusamlegri lífsstíl

„Ég nota hollari olíur til að steikja upp úr og býð upp á heilsudrykki í kaffitímanum, þó verður bakkelsi og annað kruðerý áfram að vera með,“ segir Jóhann Ottesen, kokkur á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni frá Grindavík, en útgerðin Þorbjörn, sem á skipið, ákvað að taka þátt í Heilsuáskorun til sjómanna!

Heilsu- og lífsstílsdagar hófust í verslunum Nettó í lok janúar en auk Þorbjarnar og Nettó koma að verkefninu Ásdís Ragna Einarsdóttir, grasalæknir og meistaranemi í lýðheilsuvísindum, sem er frá Keflavík, einkaþjálfarinn Óli Baldur Bjarnason frá Grindavík og fyrirtækið Icepharma sem flytur inn heilsuvörur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var í raun Einar Hannes Harðarson sem er háseti á hinum frystitogara Þorbjarnar, Tómasi Þorvaldssyni, sem ýtti boltanum loksins af stað en auk þess er hann formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur (SVG). „Þessi hugmynd fæddist fyrir einhverjum árum síðan en þá hitti ég Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóra hjá Þorbirni. Ég sagði honum að við þyrftum að fara gera eitthvað, sjómenn væru að fitna, m.a. ég. Heiðar tók vel í þetta en svo dó þetta hálfpartinn á COVID-tímabilinu. Svo hittumst við Heiðar í desember í hádegismat á Sjómannastofunni Vör og þá sagði hann að nú myndum við láta slag standa. Hann vissi að Nettó væri að fara af stað með heilsudaga í sínum búðum og áður en varði hófust fundir með Þorbirni, Nettó og Ásdísi grasalækni. Allir hafa verið að hjálpast að má segja, Þorbjörn var tilbúið að taka á sig hærri reikning vegna matarkaupa, Nettó lagði til nokkra blandara, Ásdís kom og hélt kynningu fyrir okkur og svo var bara farið af stað. Það er skemmst frá því að segja að áhöfnin hefur tekið mjög vel í þetta, ég hefði t.d. ekki trúað því hversu góðar hnetur geta verið en það var keypt fullt af slíku fæði og það hefur nánast komið í staðinn fyrir nammið í sjoppunni. Það er kannski helst að maður hafi áhyggjur af því hvernig við fjármögnum næstu áhafnarferð til útlanda, sjoppan hefur borgað ferðina. Áhöfnin sem ég er í er hálfgeðveik má segja, þegar við bítum eitthvað í okkur þá er það bara „all in“ en við höfum allir verið mjög duglegir að æfa samhliða þessu breytta mataræði og ég er nokkuð viss um að þetta er komið til að vera hjá okkur. Það er líka vitundarvakning hjá útgerðinni, stjórnendur vita að við þurfum að vera í góðu formi en það minnkar líkur á slysum og veikindum til muna. Ég var sjálfur byrjaður að huga að minni heilsu, eins og ég sagði þá var ég orðinn allt of þungur en hef stundað göngur á Þorbjörn í nokkra mánuði svo þetta átak kemur ekkert alveg flatt upp á mig. Ég er mjög ánægður með þessa lífsstílsbreytingu, ég sef mikið betur og er allur miklu léttari á mér á allan máta.

Sem formaður SVG hef ég líka átt annars konar aðkomu að verkefninu en ég lagði til að fenginn yrði einkaþjálfari að verkefninu og SVG myndi taka þátt í kostnaði varðandi hann. Óli Baldur Bjarnason, sem rekur Gymið Grindavík, hefur verið að senda mönnum æfingaprógrömm en flestir vorum við tíu að æfa í einu einn daginn, það hafði aldrei áður sést í minni áhöfn svo menn hafa tekið þessu alvarlega. Ég vona að þetta sé komið til að vera og síðast en ekki síst vona ég að öll skip Þorbjarnar taki þetta upp og aðrar útgerðir fylgi þessu fordæmi,“ sagði Einar Hannes.

Ásdís Ragna Einarsdóttir, grasalæknir og meistaranemi í lýðheilsuvísindum.

Matseðill sjómannsins hollustuvæddur

Ásdís Ragna Einarsdóttir fékk snemma áhuga á heilbrigðu líferni og heilsueflingu. „Ég hafði lengi haft áhuga á grasalækningum og lærði fræðin á árunum 2000 til 2005 í Bretlandi og er nú að klára í vor meistaranám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Það hefur verið mjög ánægjulegt að taka þátt í þessu verkefni með Þorbirni og áhöfnunum og heilt yfir hafa áhafnarmeðlimir tekið rosalega vel í þetta. Auðvitað veltur þetta nokkuð mikið á kokkunum um borð en þeir hafa allir verið mjög jákvæðir. Ég fór t.d. með Villa [Vilhjálmur Lárusson, matsveinn], kokkinum á Tómasi Þorvalds í verslunarleiðangur í Nettó og sýndi honum ýmsar hollar matvörur sem væri gott að hafa á innkaupalistanum. Okkar markmið var að hollustuvæða matseðilinn og kokkunum hefur gengið vel með það. Þeir hafa bætt meiru af hollu fæði á matseðilinn og hafa verið mjög duglegir í kaffitímunum að bjóða upp á holla heilsudrykki og niðurskorna ávexti. Svo er önnur stór breyting að alls kyns hnetur og annað slíkt millimál hefur komið í staðinn fyrir hið hefðbundna nammi úr sjoppunni.
Markmiðið var að auka framboð og aðgengi að hollari valkostum og það hefur að mér skilst, gengið mjög vel. Við Ingibjörg Halldórsdóttir [fyrrum markaðsstjóri Nettó] höfum farið þrisvar sinnum að hitta viðkomandi áhöfn og ég á eftir að hitta eina áhöfn. Menn hafa tekið mjög vel í þetta og það verður gaman að sjá hvernig þeim tekst til í framhaldinu að hafa hollustuna í forgrunni. Okkar aðkomu lýkur í raun í næstu viku þegar við fundum með seinni áhöfninni á Hrafni Sveinbjarnarsyni. Mér þætti gaman að taka verkefnið lengra og kynna þetta fyrir fleiri skipum og útgerðum á landinu ef áhugi væri fyrir því. Góðir hlutir gerast hægt, aðalatriðið er að verkefnið er hafið og mun pottþétt leiða af sér góða hluti eins og bættar heilsuvenjur um borð sem vonandi skilar sér í bættri líðan og heilsu sjómanna. Þar sem fólk ver miklum tíma sínum á vinnustaðnum er það kjörinn vettvangur til heilsueflingar, líkt og í þessu tilfelli.

Samstarfið við Nettó og Icepharma hefur verið frábært í gegnum verkefnið og eru bæði þessi fyrirtæki fremst í flokki þegar kemur að heilsuvörum. Þau hafa stutt myndarlega við bakið á þessu verkefni og það ber að þakka,“ sagði Ásdís.

Eins og áður kom fram er það útgerðarfyrirtækið Þorbjörn sem á skipin sem um ræðir. Útgerðarstjórinn, Eiríkur Óli Dagbjartsson, fór yfir aðkomu fyrirtækisins. „Við hjá Þorbirni vorum strax jákvæðir fyrir þessu verkefni því heilsa okkar sjómanna er okkur mjög mikilvæg. Mín aðkoma persónulega hefur svo sem ekki verið mikil. Ég hef verið í sambandi við konurnar sem koma að verkefninu, fór með þeim á fundina með áhöfnunum áður en haldið var á hafið. Eins tengdi ég áhafnirnar við Óla Baldur einkaþjálfara, þ.e. að segja einn úr hverri áhöfn er í sambandi við Óla Baldur sem hannar prógramm fyrir alla sem vilja æfa. Ég er auðvitað í stöðugu sambandi við skipstjórana og get ekki betur heyrt en þetta hafi mælst mjög vel fyrir hjá öllum áhöfnunum. Þetta er vonandi það sem koma skal til framtíðar,“ sagði Eiríkur.

Tómas Þorvaldsson á leiðinni á hafið eftir heilsuátaksfund (t.v.) | Valur Pétursson, skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni tilbúinn að blanda sér heilsudrykk (t.h.).

Minna um bakkelsi í kaffitímum

Jóhann Ottesen hefur verið kokkur um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni til fjölda ára en áður en hann setti kokkahúfuna á sig var hann háseti á sama skipi. „Mér leist strax vel á þetta verkefni. Ég hef alltaf reynt að elda matinn á heilsusamlegan máta en vissulega þurfti ég að bæta í og það hefur bara gengið vel. Ég hef verið að nota heilsusamlegri olíur til að steikja upp úr og mér finnst þetta spennandi, ég væri til í að fara á námskeið og læra meira um þetta. Ég hef alltaf keypt talsvert af frosnum ávöxtum og grænmeti en bætti ansi mikið í fyrir þennan túr. Mesti munurinn er kannski í kaffitímunum því í stað þess að bjóða eingöngu upp á nýbakað, kex og kruðerý, er meira um heilsudrykki en Nettó skaffaði nokkra blandara og Icepharma lét okkur fá fæðubótarefni í duftformi. Strákarnir hafa verið duglegir að blanda sér drykki og það hefur verið mjög góð sala í öllum hnetunum en þung áhersla var lögð á að hafa þessa hollustubita vel sýnilega og aðgengilega. Menn eru stanslaust að fá sér hnetur en það gefur augaleið að það er miklu hollara heldur en eitthvað sykrað nammi. Ég hef alltaf reynt að hafa gott úrval af grænmeti en bætti heldur í en málið með grænmetið er að það geymist ekki nema í u.þ.b. tvær vikur, við erum á hafinu kannski helmingi lengur og því verður að spila þetta öðruvísi seinni partinn á túrnum. Þá er gott að geta gripið í það frosna en það er að sjálfsögðu ekki eins gott en verður bara að duga. Það hefur líka verið gaman að fylgjast með strákunum í ræktinni, Valur skipstjóri er sá duglegasti sýnist mér. Hann mætir nánast á hverjum degi og án þess að ég sé að fylgjast með æfingunum hjá honum, þá kemur hann kófsveittur úr ræktinni. Eitthvað hlýtur hann að vera hreyfa sig þarna niðri,“ sagði Jóhann.

Jóhann Ottesen, matsveinn á Hrafni Sveinbjarnarsyni sker melónu í skipverja.

Það er matvörukeðjan Nettó sem þjónustar grindvíska báta og skip. Ingibjörg Halldórsdóttir, sem var markaðsstjóri Nettó þar til fyrir nokkrum vikum, kom að verkefninu en hefur snúið til annarra starfa og Grindvíkingurinn Helga Dís Jakobsdóttir hefur tekið við keflinu. „Við hjá Nettó erum mjög ánægð með þessa áskorun sem sjómenn tóku með okkur. Sjómenn og áhafnir skipanna eru mikilvægir viðskiptavinir fyrir okkur og þetta verkefni sýnir breiddina í heilsuáherslunum okkar, þær eru fyrir alla. Nettó leggur mikið upp úr í sínu vöruvali, að það sé alltaf hægt að velja hollari kostinn. Starf sjómannsins er erfitt og miklu máli skiptir fyrir þá að fá orkuríkan, hollan og góðan mat. Þetta þarf ekki alltaf að vera átak og öfgar, þetta snýst oft um að velja hollari kostinn,“ sagði Helga Dís.