Heilsárshúsin Þóroddsstaðir tveggja ára
Skammt fyrir utan Sandgerði eru heilsárshúsin Þóroddsstaðir, blómlegt fuglalíf og nálægðin við hafið gera staðinn að sannkallaðri Suðurnesjaperlu. Í dag eru tvö ár liðin síðan Ingimar Sumarliðason, ásamt konu sinni, hóf rekstur á þessum skemmtilegu heilsárshúsum.
„Fyrstu gestirnir okkar þegar við byrjuðum voru norsk brúðhjón og voru þau afar ánægð með dvöl sína hér. Því miður fer nú lítið fyrir afmælisveislunni okkar, frúin er í óðaönn við að þrífa bústaðina og ég að vasast í bókhaldinu,“ sagði Ingimar.
Enn er einn bústaður laus til útleigu fyrir þá helgi sem Sandgerðisdagarnir fara fram en þá er mikið líf og fjör í Sandgerði. Bústaðirnir að Þóroddsstöðum eru vel búnir og sé þess óskað lætur Ingimar renna í pottinn fyrir gesti svo þeir geti hvílt lúin bein um leið og þeir mæta á svæðið.
VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson