Heilluðust af gestrisni Íslendinga
-og fannst íslenskt kaffi það besta í heimi
Með hjálp veraldarvefsins fann Árni Júlíusson tvær hálfsystur sínar í Bandaríkjunum. Víkurfréttir sögðu frá sögu Árna og systra hans, Donnu og Sherri, í fyrra en í sumar komu þær í heimsókn til Íslands. Með þeim í för var eiginmaður Donnu, John, og sonur Sherri, Todd.
Ferðin var skipulögð í þaula af gestgjöfunum enda ekki á hverjum degi sem nýja ameríska fjölskyldan kemur í heimsókn alla leið frá Atlanta. Sonur Árna, Jón Júlíus, starfar sem flugmaður og flaug hópnum til Íslands. Fyrst var farið með þau á heimaslóðir Árna í Njarðvík og þeim sýnt hverfið og Gamla Hlíð á Borgarveginum, húsið sem Árni bjó í fyrstu ár lífs síns.
„Stórfjölskyldan kom svo saman, við Veiga og afkomendur okkar, og borðaði kvöldverð og fannst amerísku fjölskyldunni frábært hve mikið unga fólkið í fjölskyldunni gaf af sér og var ófeimið við að spjalla við þau. Þeim fannst ótrúlegt hversu vel Íslendingar kunna ensku,“ segir Árni. „Ég vildi óska þess að meiri áhersla væri lögð á að læra erlend tungumál í bandarískum grunnskólum,“ segir Sherri.
Farið var í Stekkjarkot, Víkingaheima og um Reykjanesskagann og sagði Sherri sólsetrið á Garðskaga vera það stórkostlegasta sem hún hefði séð. Hópurinn skoðaði Bláa lónið og fékk sérstaka kynningu um lónið og sögu þess. Skoðaðir voru fossar á Suðurlandi, Sólheimajökull og Þingvellir og fannst þeim magnað að drekka hreint íslenskt vatn beint úr læk. „Við höfum heyrt að þið séuð öll svona falleg á Íslandi vegna þess að vatnið ykkar er svo hreint,“ sagði Donna. Eins höfðu þau orð á því hve fallega skörp skilin eru á milli græna mosans og svarta hraunsins í náttúrunni á Íslandi.
„Það er rétt sem sagt er, að Ísland og Grænland hafi fengið röng nöfn. Náttúran á Íslandi er mun grænni en nafnið gefur til kynna,“ segir Donna og bætir við að loftið á Íslandi sé svo hreint og veðrið hafi verið svo fallegt. „Reykjavík er svo falleg og litrík með litlar sætar búðir og fallega höfn. Það var æðislegt að labba um hafnarsvæðið og í kringum Hörpu,“ sagði Donna. Hópurinn gekk um miðbæ Reykjavíkur með leiðsögn sagnfræðingsins Marteins hjá Reykjavik City Walk sem fræddi þau um söguna. „Það er aðdáunarvert hve langt þið eruð komin í fæðingarorlofsmálum, menntun og málum eldri borgara,“ segir Donna.
„Við fjölskyldan skiptumst á að fá hópinn í mat og svo var líka gaman að þau gátu verið viðstödd skírn barnabarns okkar, hans Tómasar Óla. Það fannst þeim æðislegt og höfðu orð á því hve gestrisnir Íslendingar eru og alltaf til í að opna heimili sín. Þau sögðu það ekki vera eins algengt í Bandaríkjunum,“ segir Árni.
En hvað fannst þeim eftirminnilegast í heimsókn sinni á Íslandi?
„Að hitta Árna bróður og fjölskylduna hans. Öll voru þau eins og Íslendingar koma okkur fyrir sjónir; hlý, indæl, vinaleg og með frábæran húmor. En auk þess fannst mér Gullfoss magnaður. Að mínu mati er hann stórkostlegri en Niagra Falls okkar Ameríkana,“ segir Donna. „Það var líka mjög skemmtileg upplifun að lenda á Keflavíkurflugvelli á flugbraut sem pabbi okkar átti líklega þátt í að byggja á árunum 1942 til 1943 og skoða gamla hervöllinn,“ bætti hún við.
Hvernig bragðaðist íslenskur matur?
„Mér fannst allt gott sem ég smakkaði!“ segir Todd, sonur Sherri. „Hákarl, hvalur, grafið folald og ekki síst Brennivín, það fannst mér mjög gott.“ Sherri og Donna voru ekki eins hrifnar af hákarlinum en þóttu íslenskir sjávarréttir þeir ferskustu sem þær höfðu smakkað. „Skyr er líka gott,“ sagði Donna og Sherri fannst íslenskt kaffi það besta í heimi og fékk heim með sér nokkra poka af kaffi frá Kaffitári.
„Ég gæti haldið endalaust áfram um hve frábær Íslandsferðin okkar var,“ sagði Sherri að lokum og bætti Donna við að þau séu strax farin að hlakka til næstu heimsóknar.