Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heillandi að komast inn í hug glæpamanna
Júlía Svava við útskriftina. VF-mynd: pket
Laugardagur 30. desember 2017 kl. 06:00

Heillandi að komast inn í hug glæpamanna

-Júlía Svava Tello útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og stefnir á nám í afbrotafræði

„Ég er mjög fegin að klára þetta. Þessi önn var svolítið krefjandi,“ segir hin 19 ára gamla Júlía Svava Tello, en hún útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja á dögunum.

„Ég hef alltaf átt rosalega auðvelt með að læra. Ég þarf ekki að hafa mjög mikið fyrir náminu,“ segir Júlía, en hún útskrifaðist af félagsfræðibraut með meðaleinkunnina 8,7 eftir þrjú og hálft ár í náminu. Við útskriftina fékk hún viðurkenningar fyrir góðan árangur í spænsku, félagsfræði, sálfræði, dönsku og samfélagsgreinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðspurð hvernig Júlía hafi farið að því að ná svona góðum árangri segist hún vera með gott minni. „Ég hef verið með fínar einkunnir allar annirnar mínar,“ segir hún. Þegar Júlía lærir fyrir próf les hún yfir efnið og útbýr flettispjöld á Quizlet. „Þannig reyni ég að læra það helsta.“ Hún segist ekki hafa átt í vandræðum með það að tvinna saman námið og félagslíf. „Ég er ekki í neinum íþróttum en ég hafði alveg tíma til að hitta vinkonur mínar og svoleiðis.“

Nú þegar Júlía er útskrifuð stefnir hún á það að starfa áfram í öryggisleit Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í allavega hálft ár, en eftir það íhugar hún að fara í afbrotafræði. „Draumurinn er að fara út að læra, en ef það gengur ekki upp fer ég örugglega í Háskóla Íslands. Ég hef verið rosalega óákveðin með hvað mig langi að læra. Fyrst langaði mig alltaf að verða sálfræðingur. Það heillar mig að vita hvernig mannshugurinn virkar,“ segir Júlía, en sálfræði var hennar uppáhalds fag í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. „Núna nýlega hefur mig hins vegar langað að vinna eitthvað með glæpamenn, en samt eitthvað tengt sálfræðinni líka. Ég horfði mikið á glæpaþætti eins og CSI og Criminal Minds þegar ég var yngri og mér fannst svo heillandi hvernig þeir náðu glæpamönnunum og rannsökuðu það hvernig þeir hugsa. Það heillaði mig mikið.“

[email protected]