Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Heillaðist af þjónustu við aldraða
  • Heillaðist af þjónustu við aldraða
Sunnudagur 14. maí 2017 kl. 06:00

Heillaðist af þjónustu við aldraða

Sandgerðingurinn Þuríður Elísdóttir er nýr forstöðumaður Hrafnistu í Reykjanesbæ

„Að hefja starfsemi á nýju hjúkrunarheimili eins og á Nesvöllum var mikið verk og að koma því á þann stað sem við vildum tók rúm tvö ár. Við hjá Hrafnistu viljum vera leiðandi í umönnun og þjónustu aldraðra og stuðla að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan íbúa okkar. Við leggjum ríka áherslu á sjálfsákvörðunarrétt íbúa okkar,” segir Þuríður Ingibjörg Elísdóttir, nýr forstöðumaður Hrafnistu í Reykjanesbæ. Hún tók við starfi forstöðumanns um síðustu áramót.

Segir gaman að taka þátt í lífi aldraðra
Þuríður er ættuð úr Sandgerði þaðan sem móðurfjölskylda hennar er og einnig úr Vogum þaðan sem föðurfjölskyldan kemur. Hún ólst upp til þriggja ára aldurs í Vogum en fluttist svo til Sandgerðis og sleit þar barnsskónum. Þuríður býr í Reykjanesbæ og er gift Halldóri Einarssyni, útgerðarmanni og þúsundþjalasmiði, og eiga þau tvö börn, þau Ástríði Auðbjörgu 10 ára og Elís Einar Klemens 7 ára.
Afskipti Þuríðar af öldrunarmálum byrjuðu á Garðvangi í Garðinum árið 1999 þar sem hún starfaði sem hjúkrunarnemi og síðar hjúkrunarfræðingur. „Þar heillaðist ég af þjónustu við aldraða og ekki varð aftur snúið. Í þjónustu við aldraða erum við að sinna fólki með margvíslega sjúkdóma. Það eru margs konar áskoranir og enginn dagur er eins. Öldrunarhjúkrun er mikil fjölskylduhjúkrun og það skiptir miklu máli að vera í góðum samskiptum við aðstandendur. Það er einnig svo gaman að fá að vera þátttakandi í lífi þessa aldurshóps, njóta þeirrar miklu visku og reynslu sem þau eru með í farteskinu,“ segir Þuríður.
Árið 2004 tók hún við sem hjúkrunardeildarstjóri á Garðvangi og gegndi þeirri stöðu þar til starfsemin var flutt á Nesvelli og Hrafnista tók við rekstrinum. Þuríður var  hjúkrunardeildarstjóri Nesvalla frá 2014 og gegndi þeirri stöðu til ársloka 2016, þegar hún tók við starfi forstöðumanns Hrafnistu í Reykjanesbæ, á Nesvöllum og Hlévangi. 

Við Suðurnesjamenn erum svo öflugt lið
„Að hefja starfsemi á nýju hjúkrunarheimili eins og Nesvöllum var mikið verk og að koma því á þann stað sem við vildum tók okkur rúm tvö ár. Mér fannst við loksins lent síðasta haust. Þetta á við að koma öllum verkferlum í rétt horf og fá ákveðinn stöðugleika í starfsmannahópinn. Þeir sem hafa gengið í gegnum svona ferli segja að það taki þrjú til fjögur ár að koma starfseminni í rétt horf, en við Suðurnesjamenn erum svo öflugt lið að það tók okkur um tvö og hálft ár. Að því loknu þarf að vera til staðar stöðugt eftirlit og reglulegt mat því hvað hægt sé að gera betur til að efla þjónustuna við okkar íbúa.”

Á annað hundrað starfsmenn
Á Nesvöllum er fjölbreytt starfsemi eins og hjúkrun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, ræsting, starfsmenn í eldhúsi og húsvörður. Á Nesvöllum er framreiðslueldhús þar sem eldað er fyrir íbúana sem eru um 90 og fyrir dagdvöl Reykjanesbæjar. Matur er einnig seldur í sal þjónustumiðstöðvarinnar og sendur heim fyrir þá sem þurfa í Reykjanesbæ. Starfsmenn Hrafnistu í Reykjanesbæ eru á annað hundrað talsins og eru þeir að vinna á báðum heimilunum, Nesvöllum og Hlévangi. Á Nesvöllum eru 60 íbúar og á Hlévangi eru 30 íbúar.

Gerir lífið á hjúkrunarheimilinu litríkara
„Við hjá Hrafnistu viljum vera leiðandi í umönnun og þjónustu aldraðra og stuðla að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan íbúa okkar. Við leggjum ríka áherslu á sjálfsákvörðunarrétt íbúa okkar. Við tökum það besta frá sjálfstæðri búsetu og sameinum það öryggi hjúkrunarheimilisins. Starfsfólk og íbúar vinna saman að því að skapa heimilislegt, hlýlegt og virkt samfélag. Nú eru þjónustuþegarnir okkar að koma oft mjög veikir inn á heimilin og þurfa mikla hjúkrunaraðstoð og það skiptir miklu máli að þau upplifi heimilislegan blæ, geti haft sína persónulega muni í kringum sig og finnist þau eiga hér heima. Aðstandendum stendur til boða að gista af og til hjá sínum ættingja á hjúkrunarheimilinu Nesvöllum, en á Hlévangi eru íbúðirnar minni og því er það erfiðara um vik þar. Sumir íbúarnir okkar eiga börn sem búa erlendis og þegar þau koma til landsins þá hafa sumir óskað eftir að gista hjá sínum ættingja. Þetta er notalegur valkostur fyrir aðstandendur og gerir lífið á hjúkrunarheimilinu litríkara.”

Léttir föstudagar og kráarkvöld
Boðið er upp á sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun fyrir alla þá íbúa sem vilja þiggja þá þjónustu.  Samstarf er við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um læknisþjónustu og sálgæsla er í boði og er það prestur sem sinnir þeirri þjónustu. Hálfsmánaðarlega er boðið upp á helgistundir á Nesvöllum og Hlévangi.
„Ár hvert höldum við þorrablót og erum þá að sjálfsögðu alltaf með einhver skemmtiatriði. Á sumrin höfum við verið með útigrill fyrir íbúana okkar. Þá sitja allir saman úti í sólinni, njóta dýrindis grillmatar og hlusta á fallega tónlist. Haustgleði er á hverju hausti og þá bjóðum við aðstandendum að gleðjast með okkur og höldum veglega veislu. Kráarkvöld hefur verið haldið á Nesvöllum og var haldið á Hlévangi í lok apríl með mikilli ánægju íbúa og aðstandenda.”
Íbúar heimilanna geta sótt alla þá skemmtun sem er í boði á vegum Reykjanesbæjar í sal þjónustumiðstöðvarinnar. Margir íbúar sækja létta föstudaga og sér Hrafnista um að skipuleggja einn léttan föstudag í mánuði.

Sama þjónusta á Nesvöllum og Hlévangi
Á Nesvöllum eru tveir sjálfboðaliðar og á Hlévangi er einn sem aðstoðar við að fara með íbúa í sjúkraþjálfun. Þeir eru með íbúunum í iðjuþjálfun og rúlla stundum hár kvennanna. „Þessi aðstoð er okkur ómetanleg.” segir Þuríður.
„Eins höfum við fengið dýrmæta aðstoð frá maka íbúa sem bjó á Nesvöllum. Hún aðstoðar við að fara með íbúana okkar á skemmtanir og helgihald í sal þjónustumiðstöðvarinnar. Við höfum hvatt fólk til að halda áfram að koma til okkar þó svo að það sé ekki lengur í hlutverki aðstandandans.”
Helsti munurinn á Nesvöllum og Hlévangi er að á Nesvöllum eru sex tíu manna einingar á þremur hæðum en á Hlévangi er þetta í raun allt ein eining en á tveimur hæðum. Persónulegt rými hvers íbúa er stærra á Nesvöllum en öll þjónusta er sú sama.

Draumur að byggja nýtt húsnæði
Húsnæði Hlévangs er komið til ára sinna og gera þarf verulegar endurbætur á húsnæðinu. Vonast er til að hægt verði að ráðast í þær framkvæmdir á næstunni. Ekki stendur til að loka Hlévangi því þörf er á öllum þeim hjúkrunarrýmum sem við höfum til umráða hér á svæðinu.
„Minn draumur er að við gætum sameinast um að byggja nýtt húsnæði sambærilegt Nesvöllum á Nesvallarsvæðinu fyrir 60 íbúa. Með því móti væri hægt að flytja íbúa Hlévangs í sambærilegar aðstæður og íbúar Nesvalla njóta og mæta svo fjölgun aldraðra næstu árin með auknum rýmum. Með því að hafa þjónustuna á sama svæði getum við betur nýtt þá þjónustu sem við erum að bjóða upp á og þá  fagþekkingu sem er til staðar.”
„Íbúar okkar eru sífellt meira veikburða þegar þeir flytja til okkar á Hrafnistu og þá skiptir máli að geta boðið upp á viðhaldsþjálfun við hæfi hvers og eins fyrir þá sem vilja og geta þegið þá þjónustu en leggja aðal áherslu á að íbúi upplifi umhyggju og gleði. Svo þegar heilsu hrakar enn frekar, farsæl lífslok,” sagði Þuríður að lokum.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024