Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Heiðrún Sjöfn í 1. sæti í upplestrarkeppni
Laugardagur 12. apríl 2008 kl. 15:38

Heiðrún Sjöfn í 1. sæti í upplestrarkeppni

Lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk var haldin þann 10. apríl í Grunnskóla Grindavíkur. Í fyrra hófst samstarf þriggja skóla varðandi lokakeppnina, Gerðaskóla, Stóru Vogaskóla og Grunnskóla Grindavíkur. Það samstarf tókst svo vel að ákveðið var að halda því áfram.

Keppnin á fimmtudag var með miklum hátíðarbrag, nemendur frá öllum skólunum voru með tónlistaratriði og veitingarnar í kaffihléi voru afar flottar en foreldrar nemenda í 7. bekk í Grindavík sáu um þær auk þess sem nemendur frá öllum skólunum höfðu bakað.

Upplestur allra nemendanna var sérstaklega góður og dómnefndin hefur ekki átt auðvelt hlutskipti að velja þá sem bestir voru. Mörgum reynist ekki auðvelt að standa í pontu og lesa upp fyrir fullum sal af áheyrendum en þetta verkefni leystu nemendur allir með sóma.

Spenningurinn var orðinn mikill undir lokin og mikil gleði í Gerðaskólahópnum þegar í ljós kom að dómnefndin hafði valið í 1. sæti Heiðrúnu Sjöfn Þorsteinsdóttur, 7. LE í Gerðaskóla. Upplestur hennar var líka afar glæsilegur, ekki síst lokaljóðið sem hún sjálf hafði valið. Henni og öðrum keppendum óskum við innilega til hamingju. Hitann og þungann af þjálfun nemenda báru Auður Vilhelmsdóttir, íslenskukennari og Laufey Erlendsdóttir, umsjónarkennari. Eiga þær miklar þakkir skyldar og eins foreldrar barnanna sem hafa stutt við bakið á þeim og fylgdu þeim alla leið á lokakeppnina, segir á vefsvæði Gerðaskóla í Garði.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024