Heiðrar minningu Hauks Morthens
„Við byrjuðum að æfa snemma á þessu ári og æfum reglulega. Þetta verður algjörlega neglt á tónleikunum,“ segir tónlistarmaðurinn Arnar Dór en hann mun, ásamt hópi listamanna, flytja lög Hauks Morthens í Hljómahöll fimmtudaginn 11. apríl næstkomandi.
Arnar Dór hefur getið sér gott orð hér á Suðurnesjum og komið víða fram samhliða því að gefa út eigin tónlist en hann lenti meðal annars í öðru sæti í The Voice Ísland fyrir nokkrum árum síðan. Að eigin sögn er Arnar Dór gömul sál sem elskar gamla tónlist og þar af leiðandi varð tónlist Hauks Morthens fyrir valinu á tónleikunum.
„Ég hef verið mjög mikill aðdáandi Hauks síðan ég var lítill og það hefur alltaf verið draumur að setja upp tónleika til heiðurs honum. Lögin sem hann söng eru svo skemmtileg. Það er gaman að hlusta á þau, syngja þau og dansa með,“ segir Arnar en lögin Ó borg mín borg, Lóa litla á Brú og Þrek og tár eru meðal þeirra sem flutt verða.
Miðasalan er í fullum gangi í Hljómahöll sem og á heimasíðu þeirra.