Heiðarskólanemar velja útivist
Sú nýbreytni var tekin upp síðasta haust að bjóða 9. og 10. bekkjum val í útivist. Átján nemendur völdu útivistina og farið var í fjórar langar göngur og fjórar stuttar.
Markaðsstofa Suðurnesja styrkti þetta framtak og S.B.K. sá um rúturnar.
Hópurinn heimsótti Markaðsstofuna í einni göngunni og þar fékk hann kynningu á því sem verið er að gera til að laða ferðamenn að og því sem áhugavert er að skoða á Reykjanesskaganum.
Í upphafi annar var nemendum kennt hvernig á að útbúa sig fyrir göngur á Íslandi þar sem allra veðra er von. Þau lærðu hvaða nesti er heppilegt og hvernig á að ganga frá í bakpokann sinn og hvaða klæðnaður er nauðsynlegur.
Í löngu göngunum var gengið á Keili, milli Selatanga og Ísólfsskála, við Reykjanesvita og að Snorrastaðatjörnum. Styttri göngurnar voru innanbæjar. Nemendur bjuggu sig út með nesti og hlífðarfatnað og komust að því strax í fyrstu göngu hve nauðsynlegt er að vera vel klæddur. Þá var gengið á Keili og fengum við mjög slæmt veður með roki, þoku og rigningu hluta af leiðinni. Þá reyndi mikið á samvinnu og hjálpsemi nemenda við erfiðar aðstæður í fjallinu.
Allar þessar göngur reyndu töluvert á nemendur bæði hvað varðar samheldni, þol og styrk. Eftir síðustu göngu fengu nemendur það verkefni að skrifa stutta lýsingu á þeirri ferð sem hverjum og einum fannst skemmtilegust. Það var auðvitað mismunandi en allir voru afar ánægðir .
Þessi tilraun með nýtt val heppnaðist að áliti nemenda það vel að flestir sem voru í 9. bekk munu að öllum líkindum velja þetta aftur að ári ef það verður í boði.
Hér að neðan fylgir útdráttur úr nokkrum umsögnum nemenda.
Martha Jensdóttir
kennari
Stelpa í 10.bekk:
Ferðin sem mér finnst standa upp úr var þegar við gengum á Keili. Fjallið fékk nafnið Keilir vegna lögunar sinnar sem er eins og keila.
Loksins þegar við komum að Keili fór veðrið að versna. Við létum það ekki stoppa okkur heldur gengum upp á topp. Leiðin upp var mjög erfið og tók hún mikið á. Þegar upp var komið skrifuðu allir í gestabókina sem geymd er í skemmtilegum standi sem Alcan gaf. Útsýnið var ekki mikið út af þoku og brjáluðu veðri og ekki var hægt að nýta útsýnisskífuna sem búið er að koma fyrir uppi á Keili. Það voru þreyttir en mjög ánægðir göngugarpar sem settust inn í rútuna og héldu heim á leið. Þetta var löng og ströng gönguferð. Ætli mér hafi ekki fundist hún skemmtilegust út af ævintýrinu með verðið. Eftir að hafa gengið á Keili er ég viss um að ég eigi eftir að endurtaka þessa gönguferð.
Stelpa í 9.bekk
Mér fannst allar ferðirnar sem við fórum saman alveg rosalega skemmtilegar, en eftirminnilegasta ferðin vera þegar við löbbuðum við Selatanga. Ég hef oft farið þarna framhjá en aldrei skoðað landið vel og séð hversu fallegt það er en í þessari ferð sá ég fegurðina og fræddist um staðinn.
Strákar í 10. bekk.
Að mínu mati var gangan við Snorrastaðatjarnir skemmtilegust. Það er ekkert skemmtilegra en að hlaupa um og velta sér upp úr snjó, klifra upp kletta og hafa það kósý og drekka heitt kakó. Heilt yfir var þetta val fínt og mér finnst þið ættuð að bjóða aftur upp á það á næsta ári.
Mér fannst skemmtilegast gangan þegar við fórum að Selatöngum. Náttúrufegurðin var svakalega flott. Við gengum alla ströndina og þar var rosalega mikið af rekaviði og kúlum Við fundum líka nokkra hella sem var gaman að fara inní og skoða..
Mér fannst útivistin í vetur vera mjög skemmtileg og fræðandi, að labba á staði sem við höfðum aldrei farið á áður.
Strákur í 9.bekk
Ég er mjög ánægður að hafa valið útivist og er ákveðinn í að velja það aftur á næsta ári ef það verður í boði. Ég er vanur gönguferðum með fjölskyldunni. Mér fannst sérstaklega gaman að ganga við Snorrastaðatjarnir í snjónum Það var fínt að læra hvernig maður raðar í bakpokann og hvað maður á að hafa með sér í göngur. Ég lærði mjög mikið um staðina sem við fórum á.