Heiðarleikarnir fóru fram í dag
Mánudaginn 7. júní voru Heiðarleikarnir haldnir í Heiðarskóla.
Allir árgangar kepptu sín á milli í fjölbreyttum greinum eins og bókargöngu, húllakeppni, möndluhráka, frisbeekasti, stígvélakasti, pedalahlaupi og skeifukasti. Þá var afhjúpað merki Heiðarleikanna, sem sver sig í ætt við merki Ólympíuleikanna en er líka mótað eftir merki skólans.
Eftir keppnina var haldið í skrúðgöngu um hverfið þar sem trommuleikarar slógu taktinn fyrir krakkana sem fóru mörg í skemmtilega búninga og máluðu sig í framan. Sérstaklega skemmtilegt var að sjá hversu árgangarnir blönduðust saman í göngunni. Síðustu vikur hefur verið í gangi vinaþema í skólanum þar sem bekkir á mismunandi aldri komu saman og tóku upp á ýmsu skemmtilegu og héldu þau hópinn í skrúðgöngunni.
Að lokinni skrúðgöngunni fengu allir grillaðar pulsur og að lokum var verðlaunaafhending fyrir sigurvegara keppnisgreinanna, en auðvitað skipti sigur ekki öllu máli heldur bara að taka þátt, alveg eins og á Ólympíuleikunum sjálfum.
Þetta er í fyrsta sinn sem Heiðarleikarnir fara fram en skrúðgangan hefur verið fastur liður í sumarfögnuði skólans undanfarin ár.
Í dag var líka síðasti dagurinn sem krakkarnir eru í skólanum því á miðvikudaginn verður skólanum slitið.
VF-myndir/Þorgils Jónsson og starfsfólk Heiðarskóla