Hefur verið í úrslitum Músíktilrauna síðustu þrjú ár
- Grindvíkingurinn Guðjón Sveinsson spilar á fjölda hljóðfæra og tekur upp tónlist
Guðjón Sveinsson er tvítugur Grindvíkingur sem veit fátt skemmtilegra en að grúska í músík. Síðustu þrjú ár hefur Guðjón verið í þremur hljómsveitum sem hafa leikið á úrslitakvöldi Músíktilrauna. Nú í ár hafnaði Guðjón ásamt hljómsveit Helga Jónssonar í öðru sæti keppninnar. Þar lék Guðjón á bassa og söng bakraddir en vanalega leikur hann á gítar. Hann er reyndar ansi fjölhæfur og dundar sér á flest þau hljóðfæri sem hann kemst í tæri við. Guðjón er eini Grindvíkingurinn í hljómsveitinni en vinkona hans úr Grindavík, Urður Bergsdóttir, spilaði á bassa og söng bakraddir í sigursveitinni á Músíktilraunum. Hún fluttist ung frá Grindavík en faðir hennar er leikarinn Bergur Ingólfsson.
„Ég kynnist strákunum í hljómsveitinni bara í gegnum Facebook hóp, sem heitir hljóðfæraleikarar óskast/á lausu,“ segir Guðjón og hlær við en hann hefur leikið með flestum þessum strákum í rúm tvö ár. Þeir eru núna að hugsa hvað taki við en bandið var stofnað skömmu fyrir keppni en það er nokkuð algengt í Músíktilraunum. „Við ákváðum að láta vaða og gerðum nokkur demó. Svo var bara lært heima í nokkra daga og svo mættum við og spiluðum lögin. Ætli æfingarnar hafi ekki verið fjórar. Tvær fyrir undanúrslit og tvær fyrir úrslitin,“ segir Guðjón. Hljómsveitin leikur poppskotið progg sem er Innblásið af 70´s proggrokki í rólegri kantinum, en Guðjón hlustar sjálfur talsvert á þannig tónlist.
Guðjón fékk sinn fyrsta gítar í fermingargjöf en áður hafði hann lært á píanó í Tónlistarskóla Grindavíkur. Þar er hann ennþá við nám og hyggst klára þaðan miðpróf í haust. Eins er hann í hljóðtækninámi í Stúdíó Sýrlandi. Hann hefur verið að fást talsvert við upptökur og hefur m.a. tekið upp eina plötu nú þegar. Honum finnst mikilvægt að byrja snemma að fikta við upptökur og slíkt „Nú vill maður hætta að vera fiktari og fara að læra þetta almennilega. Ég hef mestan áhuga á að taka upp tónlist, bæði mína eigin og fyrir aðra. Allt sem ég get komist með puttana í, það finnst mér skemmtilegt að prufa. Svo er bara spurning um í hverju maður festist.“ Guðjón segir stemninguna á úrslitakvöldi Músíktilrauna alltaf vera frábæra. „Bæði þá í salnum og meðal hópsins en maður kynnist mikið af fólki á þessum kvöldum. Þetta er mikil hvatning fyrir þessu ungu bönd,“ segir Grindvíkingurinn hæfileikaríki að lokum.