Hefur þurft að gista á fjórum stöðum með fimm manna fjölskyldu
– Þurftu að yfirgefa splunkunýtt heimili í Grindavík
„Við Grindvíkingar erum nokkurn veginn að troða marvaðann,“ segir Daníel Guðni Guðmundsson sem þurfti að flýja heimili sitt í Grindavík og hefur þurft að gista á fjórum stöðum með fimm manna fjölskyldu sína eftir að hamfarirnar í Grindavík hófust. Hann er kominn með íbúð í Vogum í einhverjar vikur en þar sem börnin hans fara í skóla í Njarðvík vill fjölskyldan helst komast í íbúð þar sem fyrst.
Danni og Linda voru nýbúinn að kaupa einbýlishús í Grindavík og taka það í gegn, þegar ósköpin dundu yfir föstudaginn 10. nóvember. „Við keyptum hús í júlí og gerðum það nánast fokhelt, tókum allt í gegn nema baðherbergið og þvottaherbergið. Framkvæmdum var u.þ.b. lokið þegar við þurftum að yfirgefa nýja heimilið. Við erum búin að fá að fara og sækja dót og ég gat ekki séð neinar skemmdir en var svo sem ekki að skoða það eitthvað sérstaklega, það öskraði allavega ekkert á mig.“
Danni er frá Njarðvík og gat leitað þangað með fjölskylduna en þau voru á hrakhólum fyrstu dagana. „Við vorum fyrstu nóttina í Hafnarfirði hjá Önnu systur Lindu konunnar minnar, fórum svo til Kidda bróður í Njarðvík, þaðan á Airbnb í sex daga og erum síðan þá búin að vera í íbúð sem bróðir pabba á í Innri-Njarðvík. Við erum á leiðinni í íbúð í Vogum sem yndisleg samstarfskona mín útvegaði okkur og við erum ofboðslega þakklát fyrir það en þar sem börnin okkar eru byrjuð í skóla og leikskóla í Njarðvík væri frábært ef við getum fengið íbúð þar.
Þetta hafa verið ofboðslega skrítnir tímar, ég held að allir Grindvíkingar séu nokkurn veginn að troða marvaðann, óvissan er svo mikil. Hvar og hvenær fer að gjósa, hvað mun það taka langan tíma og stærsta spurningin er kannski, getum við snúið til baka? Ég hef kunnað ofboðslega vel við mig í Grindavík, þaðan er konan mín og börnin okkar þekkja ekkert annað svo hugur okkar leitar þangað. Við erum nýbúin að kaupa okkur hús og það mun væntanlega hrapa niður í verði, svo þótt við þyrftum að flytja er það ekki svo einfalt. Þetta eru einfaldlega mjög skrítnir tímar sem við Grindvíkingar erum að upplifa en vonandi fer þetta allt á besta veg,“ segir Danni.
Danni kom til Grindavíkur á sínum tíma til að leika með körfuknattleiksliði Grindavíkur, þjálfaði svo kvennalið félagsins, þjálfaði karlalið Njarðvíkur og tók svo við karlaliði Grindavíkur. Í dag er hann aðstoðarþjálfari meistarafloks karla Njarðvíkur en sinnir líka þjálfun yngri flokka í Grindavík.
Hvernig gengur að halda barna- og unglingastarfinu gangandi?
„Öll félög hafa boðið út faðm sinn og fyrir það erum við Grindvíkingar ofboðslega þakklátir. Rútínan er svo mikilvæg fyrir börnin og það er frábært fyrir þau að geta æft með öðrum liðum. Við munum reyna hafa æfingar í Smáranum í Kópavogi, sem er nýi heimavöllur Grindvíkinga, en það á eftir að koma betur í ljós. Það er mikilvægt fyrir börnin að geta hist og svo mætum við auðvitað fylktu liði á fjölliðamótin og keppum undir merkjum UMFG,“ sagði Danni.