Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Hefur þú áhuga á að ganga í kvennasveit?
Laugardagur 14. janúar 2012 kl. 15:20

Hefur þú áhuga á að ganga í kvennasveit?

Ert þú kona í Reykjanesbæ og hefur áhuga á að ganga til liðs við Kvennasveitina Dagbjörgu? Á þriðjudaginn, þann 17. janúar, verður kynning á slysavarnadeildum á öllu landinu á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Kvennasveitin Dagbjörg mun bjóða upp á kaffi og kynningu á sveitinni í Nettó og opið hús verður um kvöldið kl. 20 í björgunarsveitarhúsinu við Holtsgötu.


Kvennasveitin Dagbjörg er yngsta slysavarnardeildin innan Landsbjargar en sveitin verður átta ára þann 16. apríl, á átjánda afmælisdegi Börgunarsveitarinnar Suðurnes. Formaður Dagbjargar er Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir en hún er jafnframt ein af stofnendum sveitarinnar.


„Okkar helstu verkefni eru að vinna að slysavörnum  og vera bakhjarl Björgunarsveitarinnar Suðurnes,“ segir hún aðspurð um starfið hjá sveitinni. „Helstu verkefni sem við erum með eru t.a.m. bílbeltakannanir, könnun á hjálmanotkun og öryggi barna í bílum en það eru kannanir sem við höfum tekið fyrir utan leikskóla bæjarins seinustu ár á vegum SL og Umferðarstofu. Við gefum öllum börnum í Reykjanesbæ endurskinsmerki í byrjun skóla-göngu í tengslum við heilsuviku Reykjanesbæjar“.


Eitt af stóru verkefnum sveitar-innar ár hvert er heimsókn til einstaklinga sem verða 78 ára á árinu (heldri borgara). Þar gæta sveitarkonur að öryggi á heimilum þeirra eins og lausum mottum, stigum, handriðum og eldvörnum. „Í þessari heimsókn höfum við fært þeim bæklinga um örugg efri ár, öryggi aldraðra í akstri og skoðað brunavarnir. Einnig höfum við fært þeim næturljós sem Securitas hefur styrkt okkur með,“ segir Kristbjörg.


Öllum foreldrum sem fara með börn sín í 8 mánaða skoðun í ungbarnaeftirliti HSS er færður pakki með ýmsum upplýsingum um öryggi á heimilum, öryggi barna í bílum og „fingravinur“ að gjöf frá sveitinni en þetta verkefni er að fara af stað nú á nýju ári.
Í september á þessu ári mun Dagbjörg halda kvennaþing fyrir slysavarnadeildir á öllu landinu á Ásbrú. Það mæta um 200 konur á þessi þing sem haldin eru annað hvert ár en síðast var það haldið á Húsavík.


„Önnur verkefni hjá okkur eru svo auðvitað fjáraflanir, sjó-mannadagsmerkið, Ljósanótt og aðstoða björgunarsveitina við sölu Neyðarkalls og flugeldasölu og sitthvað fleira,“ segir Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir, formaður Kvennasveitarinnar Dagbjargar í samtali við Víkurfréttir.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristbjörg Gunnbjörnsdóttir formaður Dagbjargar, Guðrún Guðmundsdóttir deildarstjóri í ungbarnaeftirliti og Ingibjörg Steindórsdóttir hjúkrunarfræðingur.