Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hefur þjappað fólki saman - segir keflvískur golfvallarstarsmaður í Osló
Föstudagur 5. ágúst 2011 kl. 12:35

Hefur þjappað fólki saman - segir keflvískur golfvallarstarsmaður í Osló

„Lífið í Noregi er búið að vera skrýtið síðastliðna viku eftir hörmungarnar sem dundu yfir föstudaginn 22 júlí. Fyrstu dagarnir voru fullir af sorg og vonleysi og síðar fann maður að fólk stendur saman gegn þessum ódæðis verkum. Þetta er búið að þjappa fólki saman,“ segir Keflvíkingurinn Albert Hólmgeirsson, golfvallarstarfsmaður í Osló.

Albert var á golfvellinum að spila þegar sprengjan sprakk niður í Osló og segist hafa heyrt hvellinn vel. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta var, ég hélt fyrst að þetta væri þrumuveður en fékk fyrst fréttirnar eftir golfhringinn og svo seinna um kvöldið heyrði ég hvað gerðist í Útey. Ég og konan mín erum búin að fara niður í Osló og leggja rós á blómahafið við Dómkirkjuna og skoða eyðileggingarnar í miðborginni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Albert hóf störf hjá Oslo Golfklubb vorið 1998 en hann vann í Leirunni á sumrin 1987 til 1989 með Hólmgeiri Guðundssyni, afa sínum heitnum sem vann mest allra við uppbyggingu Hólmsvallar í Leiru. „Það var mjög skemmtilegur tími og lærdómsríkur þó mig hefði aldrei grunað að ég myndi fara í nám í golfvallarfræði. Ég starfaði í Osló frá nóvember 1996 til maí 1997 hjá Avis bílaleigunni, kíkti á völlinn sem er kenndur við Bogstad og leist vel á svæðið. Ég hóf störf þar eftir að ég hafði verið í námi í golfvallarfræðum hjá Elmwood College sem er í næsta bæ við St. Andrews í Skotlandi þar sem ég bjó. Það var náttúrulega meiri háttar skemmtilegt að vera þar. Ég vann í Noregi á sumrin og fór í skólann í Skotlandi á veturna,“ segir Albert sem var fyrst tvo vetur í röð í mekka golfsins. Þriðja veturinn fór hann til Frakklands og vann þar á velli sem heitir Royal Mougins, sem liggur rétt fyrir utan Cannes. „Það var sérstök reynsla og erfitt að eiga samskipti við Frakkana þar sem ég kunni aðeins örfá orð í frönsku, áður en ég kom þangað. Svo kláraði ég þriðja veturinn í náminu eftir Frakklandsdvölina“.


Aðspurður segir Albert golfmenningin í Noregi margt svipaða og á Íslandi en þó sumt allt öðruvísi. „Þegar ég byrjað á Bogstad, fannst mér þó vera margir háforgjafa golfarar þar miðað við á Íslandi. Það var eins og Norðmenn hefðu uppgötvað golfið mun seinna en Íslendingar, kannski var þetta einhver þjóðernis remba í mér. Það var mikil uppsveifla í fjölda golfara og byggingu á golfvöllum. Flestir klúbbar eru þannig uppbyggðir að maður kaupir sér hlut og á þannig sinn hlut í klúbbnum. Þetta þróaðist þó þannig að fólk keypti hluti og seldi með hagnaði. Nú er öldin önnur og orðið erfitt að selja og sumir sitja uppi með hlut i klúbbi sem þeir nota ekki. Margir eru tilbúnir að gefa eða borga með sínum hlut til að losna því svo lengi sem maður á hlut í klúbbi þarf maður að greiða ársgjaldið, hvort sem maður vill eða ekki. Nokkrir klúbbar hafa á átt í erfiðleikum á síðustu árum og jafnvel farið í gjaldþrot.“

Albert kom til Íslands í júlí í sumar og var ánægður með sinn gamla völl í Leirunni. „Ég náði tveimur hringjum í Leirunni og mér fannst völlurinn alveg frábær. Það er ekki hægt annað en að dást að því hvað völlurinn er flottur og í góðu ásisgkomulagi. Þetta var vikan fyrir Íslandsmótið, svo ég reikna með því að þeir sem tóku þátt hafi verið ánægðir með aðstæður.“
Albert kann mjög vel við sig í Noregi og segir Norðmenn flestia ágæta og gott sé að búa í Osló. „Sumrin eru almennt nokkuð heit og veturnir kaldir með mikið af snjó. Ég reyni að spila golf á sumrin og fer á skíði á veturna. Flest allir Norðmenn eiga bústað uppi á fjalli eða við ströndina, sumir bæði, fólk fer þangað oft á ári til að komast burtu frá bænum til að slappa af og njóta þess sem náttúran hefur uppá bjóða.
Eiginkona Alberts heitir Lene og þau eiga dóttur sem heitir Lenora en hún er bráðum 7 ára. „Ég er að reyna að kenna henni íslensku og golf og það gengur ágætlega,“ sagði Albert að lokum.