Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hefur tekist að selja norðurljósin
Myndir Brooks Walker.
Fimmtudagur 19. september 2013 kl. 09:10

Hefur tekist að selja norðurljósin

- Fyrstu þrír mánuðir ársins eins og sumarmánuðirnir

Northern Lights Inn er að sögn eigandans Kristjönu Einarsdóttur eins konar flugvallahótel á sumrin en norðurljósahótel á veturna. Reksturinn gengur mjög vel og er hótelið meðal þeirra hótela sem er með bestu nýtingu á hótelherbergjum á öllu landinu á ársgrundvelli. Til dæmis var nýtingin síðasta febrúarmánuði 99%. Víkurfréttir ræddu við Kristjönu, eiganda Northern Lights Inn.

Ætlaði að stoppa stutt í Grindavík
Kristjana hefur séð um rekstur Northern Lights Inn síðan 1994 en hún flutti til Grindavíkur tveimur árum áður. Móðursystir hennar, Eygló Friðriksdóttir og maður hennar Þórður Stefánsson stofnuðu hótelið og ætlaði Kristjana aðeins að aðstoða þau í stuttan tíma. Hún hefur ekki enn farið frá Grindavík en er nú fyrst, eftir um 20 ára dvöl, að huga að flutningum til Hafnarfjarðar. Langflest starfsfólk hótelsins er búsett í Grindavík og segist Kristjana vera með frábæran hóp af fólki í vinnu. Þegar blamaðann bar að garði var Kristjana í matráðsgallanum, en hún segist alltaf hafa verið með puttana í öllu á hótelinu. Það fylgi því að reka fyrirtæki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sumir slaka á, aðrir sækja ráðstefnur
Kristjana segir sumarið hafa verið virkilega gott. „Á sumrin er þetta flugvallahótel og eru gestirnir oft í eina nótt en á veturna er þetta norðurljósahótel og þá er meðalgesturinn að gista í þrjár nætur. Margir gestirnir koma hingað í þeim tilgangi að slappa af. Margir hafa ekki áhuga á að fara í ys og þys borgarinnar og koma hingað í staðinn. Gestir fara gjarnan í Bláa Lónið, sem er staðsett við hliðina á hótelinu, og skoða sig einnig um hér í þessari einstöku náttúru.“ Einnig er mikið um að fólk frá Norðurlöndunum komi á hótelið og sæki fundi eða ráðstefnur.


Einstök norðurljósaupplifun
Ólíkt mörgum ferðaþjónustuaðilum hér á landi sem hafa lítið að gera á veturna, er oftast brjálað að gera hjá Kristjönu. Fyrstu þrír mánuðir ársins eru orðnir eins og sumarmánuðirnir.
„Hótelið er að hluta til markaðsett í tengslum við vetrarupplifun en nafn hótelsins vísar auðvitað í norðurljósin og þau er aðeins hægt að sjá á veturna. Japanir og Bretar eru duglegir að koma sérstaklega í norðurljósaferð og höfum við því byggt útsýnispall á hótelinu til þess að fólk geti notið norðurljósanna til hins ýtrasta. Til þess að ýkja upplifunina enn frekar er lítið um útiljós og það þýðir ekkert að vera með jólaskreytingar,“ segir Kristjana.

Herbergjum fjöldar og gestunum með
Gestafjöldinn eykst með hverju árinu og til að mynda var hótelið fyrst með 20 herbergi en fjölgaði fyrir fimm árum í 32 herbergi. „Það hefur orðin mikil þróun í ferðaþjónustu hér á landi síðan ég byrjaði með reksturinn. Það eru fleiri flug í boði og aukin áhersla á landkynningu og auglýsingar erlendis.“ Suðurnesjamenn eru ágætlega duglegir að heimsækja veitingastað hótelsins og einnig eru haldnar ferminga- og brúðkaupsveislur í fallega, bjarta salnum þar sem útsýnið er einstakt.