Hefur kennt við FS frá upphafi
Ægir Sigurðsson, jarðfræðikennari við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, hefur kennt við skólann frá stofnun árið 1976. Áður hafði hann kennt annars staðar í fjögur til fimm svo ferillinn er orðinn langur. Hann kveðst ekki hafa átt von á því þegar hann byrjaði að kenna við skólann að ná svo háum starfsaldri þar og viðurkennir að verða oft þreyttur á kennslunni. „En svo kemur að því sem margir segjast vera kennarar út á, það er að segja júní, júlí og ágúst. Sumarfríið gerir það að verkum að maður endurnýjar sig og er jafnvel farinn að hlakka til að mæta aftur að hausti.“
Á áratugunum fjórum hjá FS hefur Ægir verið kennari, áfangastjóri, aðstoðarskólameistari og skólameistari. Hann segir nemendahópinn hafa verið öðruvísi á árum áður því þá þurftu nemendur að uppfylla strangari námslegar kröfur en í dag til að fá inngöngu í skólann. „Nú erum með komin með allt litrófið inn í skólann og af því verða áherslubreytingar,“ segir hann. Tæknin hefur líka haft áhrif á kennsluna í tímans rás og segir Ægir að hann hefði mátt nýta sér hana meira við kennsluna. „Ég held að skólakerfið hafi ekki alveg áttað sig á þessari tækni. Mín kynslóð lærði ýmislegt utanbókar en núna flétta nemendur þessu bara upp og þurfa mun minna að muna. Ég er nú nógu gamall til að halda því fram að það sé ekki gott að muna ekkert en þau hafa yfir að ráða óhemju vitneskju í gegnum þessi snjalltæki og það er gott.“
Viðtalið er hluti af umfjöllun um 40 ára afmæli FS í síðustu Víkurfréttum.