Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Hefur gert mig að manneskjunni sem ég er í dag“
Fimmtudagur 14. nóvember 2013 kl. 13:54

„Hefur gert mig að manneskjunni sem ég er í dag“

„Eineltið er ekki hætt. Það var bara í þessum mánuði sem ég fékk athugasemd um að ég væri bara að tala um þetta af því að ég er athyglissjúk. Væri bara að plata fólk til að fá það til að halda að ég væri ekki ljót en ég væri það í alvöru,“ sagði Selma Björk Hermannsdóttir á fyrirlestri sem hún hélt fyrir nemendur á miðstigi í Njarðvíkurskóla í morgun. Fyrirlesturinn er hluti af verkefni á vegum nokkurra kvenna sem starfa að skólamálum og ber yfirskriftina Er þörf á nýrri hugsun í eineltismálum?

„Mér finnst þú falleg!“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Um fimmtíu nemendur, ásamt nokkrum kennurum og starfsfólki skólans, hlustuðu á Selmu af athygli og margir réttu upp hönd til að spyrja hana spurninga að fyrirlestri loknum. Sumir sögðu við Selmu að þeir hefðu ekki tekið eftir örinu þegar þeir sögðust hafa horft á viðtalið við hana í þættinum Ísland í dag. Aðrir sögðust ekki taka eftir neinu öri núna. Einn nemandi sagði hátt og snjallt: „Mér finnst þú falleg!“, annar sagði „Mér finnst þú mjög flott eins og þú ert!“ og enn aðrir spurðu hvort hún vildi aldrei gráta og hvort hún ætti marga vini.

Vorkennið gerendum

Selma lagði sérstaka áherslu á að einelti snúist ekki aðeins um það sem sagt er við aðra, líka það sem hvíslað sé, augngotur og bendingar þegar fólk sjái til. „Ef einhver er leiðinlegur við þig og þú góður á móti, þá sýnir þú að þú ætlar ekki að láta framkomuna hafa áhrif á þig. Þannig slærðu vopnin úr höndunum á þeim,“ sagði Selma og áréttaði að hún hafi í tímans rás aldrei gefist upp, íhugað sjálfsmorð eða sokkið í neins konar rugl til þess að passa inn í einhvern hóp. „Ég stóð með sjálfri mér í gegnum þetta allt saman sama hversu margir voru á móti mér. Verið stolt af því sem þið eruð. Við ráðum ekki í hverju við lendum í lífinu en við ráðum því hvernig við tökum því. Látið alla reynslu byggja ykkur upp. Vorkennið gerendum eineltis og verið stolt af því að þið skulir ekki gera svona við annað fólk.“

„Hefur gert mig að því sem ég er

Selma segist hafa farið í sex aðgerðir vegna skarðs í vör frá því hún fæddist og hún eigi eina aðgerð eftir. Síðan verði hægt að taka örið af með „laser“. Það ætli hún þó ekki að gera. „Þetta er mitt ör sem sýnir hver ég er og minnir mig á það sem ég hef gengið í gegnum. Ég hef aldrei óskað þess að hafa ekki fæðst svona. Þetta hefur gert mig að manneskjunni sem ég er í dag og ég er þakklát fyrir að sjá lífið með þeim augum sem ég sé það,“ sagði Selma.

Eineltið hófst í leikskóla

Að sögn Selmu hófst eineltið þegar hún var í leikskóla, þar sem sumir krakkar héldu að hún væri „eitruð“ og „ógeðsleg“. Þá sagði við hana strákur: „Oj, djöfull vorkenni ég stráknum sem á eftir að kyssa þessar ógeðslegu varir.“ Sjálf á Selma vin sem er með tvö skörð í vör en hefur aldrei verið strítt. Einn kennari í Njarðvíkurskóla hafði sömu sögu að segja af bróður sínum sem hefur aldrei hefur orðið fyrir aðkasti. Selma taldi ástæðuna vera þá að meiri útlitskröfur séu lagðar á stúlkur en drengi. „Ég byrjaði snemma að mála mig því ég fann hvað áreitið minnkaði mikið við það. Pabbi er örugglega búinn að eyða svona 50 þúsund í hyljara og meik til þess að fela örið undir nefinu mínu.“ Hún spurði því salinn hvort eðlilegt væri að hugsa þannig. Fela það sem við erum til að forðast einelti. „Á ekki bara að hætta einelti? Gerandi sem leggur í einelti líður ekkert betur eftir á, honum líður í raun verr,“ segir Selma.

Gott að fá viðbrögð

Þá segir Selma að henni hafi liðið betur eftir að hún sagði opinberlega frá eineltinu. Hún hafi þegar farið í þrjá skóla og í eina kirkju til að segja frá sinni reynslu. Einnig sé gott að fá viðbrögð. „Maður áttar sig ekki á því þegar stanslaust er verið að berja mann niður. Manni líður þá eins og að maður sé einn í heiminum. Það eru hundrað sinnum fleiri með manni en á móti. Ég veit að ég er að hafa góð áhrif á þá sem hlusta,“ segir Selma að lokum.

Þann 20. nóvember verður svo fundur í Njarðvíkurskóla fyrir foreldra þar sem Hermann Jónsson, faðir Selmu, mun segja frá sinni reynslu. Þar mun hann fara yfir þær leiðir sem hann nýtti sér í uppeldinu og hvernig þau feðgin tóku á vandamálinu. Fundurinn hefst kl. 19:30.

VF-myndir Olga Björt