Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Hefur gaman af „sultusession“
Laugardagur 30. nóvember 2013 kl. 09:44

Hefur gaman af „sultusession“

VF spjall: Andre Lind Hannah sigurvegari Hljóðnemans

Andrea Lind Hannah sigraði Hljóðnemann, söngkeppni FS á dögunum. Keppnin fór fram með miklum glæsibrag í Andrews leikhúsinu á Ásbrú. Andrea sem er að verða 18 ára í desember, var að taka þátt í keppninni í þriðja sinn. Í fyrra hafnaði Andrea í þriðja sæti þar sem hún söng lagið Clarity með Zedd. Nú í ár varð lag söngkonunnar vinsælu Miley Cyrus fyrir valinu.

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég ákvað að syngja lagið Wrecking Ball. Það hentar mér að syngja það hvað varðar getu í söng, tónsvið og þess háttar, svo þekkja líka flestir lagið og það er kraftur í því,“ segir Andrea. Við undirbúning keppninnar segist Andrea hafa hlustað ótal sinnis á lagið en auk þess fékk hún aðstoð varðandi útsetningu frá Arnóri Vilbergssyni sem spilaði í húshljómsveit keppninnar. Andrea hóf nám í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í haust en þar er hún að læra söng. Hún segist vel getað hugsað sér að halda áfram á tónlistarbrautinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég hef verið að æfa nokkur lög með snillingunum í hljómsveitinni Sígull og ég væri alveg til í að vera áfram í einhverri hljómsveit. Hef ótrúlega gaman af því að syngja og vera í kringum tónlistarunnendur, hvað þá að fá að vera á staðnum þegar „sultusession“ er í gangi,“ segir Andrea en þar á hún við svokallað Jam session sem þýða mætti á íslensku sem spunastund.

Á það til að fá heiftarlegan sviðsskrekk

Sigurinn í Hljóðnemanum kom Andreu nokkuð á óvart en henni fannst ekki allt ganga upp á úrslitakvöldinu. „Mér gekk mun betur á æfingunum. Þetta kom mér rosalega á óvart og ég bjóst ekki við fyrsta sætinu,“ sigurinn var því enn sætari fyrir vikið og Andrea segist hafa upplifað öll stigin á tilfinningaskalanum eftir að úrslit voru kunngjörð.

„Ánægja, gleði, hamingja, kvíði. Svo uppgvötaði ég að nú þyrfti ég að syngja lagið aftur og ég var með tyggjó uppí mér, en því fylgdi smá ráðaleysi, og síðan meira stress. Sigurtilfinningin varði þó í marga daga eftir þetta og ég finn ennþá til hennar inn á milli.“

Nokkur óvissa ríkir með áframhaldandi þátttöku Andreu þar sem hún er mögulega að færa sig í annan skóla eftir áramót. „Ef ég kemst þar inn á næstu önn þá veit ég ekki hvort ég muni fara fyrir hönd FS í lokakeppnina. Ef ég hins vegar mun fara þá vona ég innilega að ég þurfi ekki að þýða blessað lagið. Ég verð mjög stressuð ef ég þarf að syngja í stóru keppninni því ég á það til að fá heiftarlegan sviðsskrekk, en þó ekki alltaf.“