Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hefur aldrei verið hressari
Helen ásamt dansfélaga sínum, Adrián Coria.
Föstudagur 13. júní 2014 kl. 09:00

Hefur aldrei verið hressari

Fimmtug og bauð upp á tangóævintýri í Svartsengi.

Helen „La Vikinga“ Halldórsdóttir er Íslendingur í húð og hár en hef búið undanfarin 25 ár erlendis; í Svíþjóð, Chíle og núna síðustu 10 árin í Buenos Aires í Argentínu. Hún bauð, ásamt dansfélaga sínum, Adrián Coria, upp á kennslu í tangó á hátíð í Svartsengi 5.-8. júní sl.

Fyrsta sólstöðutangóhátíðin
„Það voru byrjendatangótímar á hverju kvöldi á undan tangóböllunum og nokkrir aðrir tímar sem voru fyrir öll stig, eins og t.d. tími í chacarera, argentínska þjóðdansinum, sem er bara svo mikið fjör að dansa og auðvelt að læra,“ segir Helen. Um er að ræða fyrstu stólstöðutangóhátíðina á Íslandi en stefnt er á að gera það að árlegum viðburði. Helen segir að margir útlendingar hafi komið á hátíðina og parið langi mikið til að fá nýtt fólk á hátíðina í framtíðinni og í tangóinn svona almennt, heimafólk af Suðurnesjum. Um var að ræða margar danssýningar og lifandi tónlist með tónlistarfólki frá Argentínu, Finnlandi og Íslandi.



Fyrst útlendinga til að opna tangóstað
Helen er fimmtug og segist standa á góðum tímamótum í lífi sínu. „Ég hef aldrei verið hressari. Dansfélagi minn er að verða 26 ára.“ Hún er frá Stöð í Stöðvarfirði en flutti fljótlega eftir það til höfuðborgarinnar, þaðan sem hún flutti 16 ára til Grindavíkur. Þaðan flutti hún sem tveggja barna móðir og ekkja til Lundar í Suður-Svíþjóð árið 1989. „Síðan hafa mörg vötn runnið til sjávar og ég rekið þónokkra tangóstaði í Buenos Aires. Ég var fyrsti útlendingurinn, og kona, til að opna tangóstað í Argentínu, Mekku tangósins árið 2004. Þar að auki opnaði ég fyrsta reyklausa og „gayfriendly“ tangóstaðinn sem vakti mikla athygli í byrjun,“ segir Helen en þó hafi með tímanum allir þurft að lúta reykingabanninu og það væri brot á jafnréttislögum ef samkynhneigðum væri óheimilt að dansa saman í Buenos Aires samtímans.

Tangó er tjáskiptiform
Þegar Helen bjó í Lundi í Svíþjóð stóð hún fyrir ljóðahátíð (Poesifestivalen i Lund) í nokkur ár og sá þá m.a. um að bjóða ljóðskáldum víðsvegar að frá Svíþjóð, Kaupmannahöfn og Íslandi. Einnig tónlistarfólki, dönsurum og öðru skapandi listafólki þátttöku í hátíðinni sem alltaf tókst að sögn Helen mjög vel. Hún segist vinna með argentíska tangóinn sem dans, tjáningarform, en umfram allt sem tjáskiptiform og tengingu til hins aðilans, í bæði fylgjanda- og leiðarahlutverkinu. „Ég hef kennt tangó sl. 12 ár í Evrópu, Argentínu og Bandaríkjunum ein eða með öðrum. Kenni allt frá hefðbundnum tango til „queer“-tangó og allt þar á milli. Það mikilvægasta er að geta tjáð sig við hinn aðilann og njóta tangósins!“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Víkingakonan
Eiginmaður Helen hét Kjartan Einarsson og lést úr bráðahvítblæði aðeins 27 ára árið 1988, þá tveggja barna faðir. „Þegar Kjartan lést var ég þegar langt komin með að klára stúdentsprófið sem ég varð að gera aðeins hlé á vegna barnsfæðinga, en það var sem ég fengi aukna orku frá þessu stærsta áfalli lífs míns og þrátt fyrir að 3 hjartagallar fundust í eldri dótturinni aðeins tveimur mánuðum eftir að pabbi hennar dó og hún skorin upp með meðfylgjandi sjúkrahúsvist. Og þrátt fyrir sex vikna kennaraverkfall kláraði ég stúdentsprófið vorið eftir að ég varð ekkja og flutti til Svíþjóðar með dætrum mínum til að byrja í Háskólanum í Lundi um haustið.“ Helen segist snemma hafa byrjað að dansa bæði hlutverkin í tangóinum og hafi því fljótt orðið þekkt sem „La Vikinga“ (Víkingakonan) á hefðbundnu tangóstöðunum (milongas) í Buenos Aires fyrir að dansa hlutverk „karlmannsins“. Fyrir utan það að kenna, sýna, dansa og skipuleggja tangó hannar Helen og framleiðir eigið skómerki; La Vikinga. „Samhliða tangónum hef ég svo einnig skipulagt ferðir fyrir útlendinga, í Buenos Aires og um Argentínu,“ segir Helen hress í bragði og það virðist nóg að gera hjá henni.
 

VF/Olga Björt