Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hefðirnar og menningin ekki eins í samfélögunum sem byggja Suðurnesjabæ
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 8. júlí 2023 kl. 06:03

Hefðirnar og menningin ekki eins í samfélögunum sem byggja Suðurnesjabæ

– segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ

Suðurnesjabær varð til við sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs fyrir fimm árum síðan. Sjálfur afmælisdagurinn miðast við 10. júní en á þeim degi hófst formlega starfsemi Suðurnesjabæjar. Bærinn hefur vaxið og dafnað á þessum fimm árum og íbúum fjölgar ört. Í dag eru þeir rétt tæplega fjögur þúsund talsins og vantar aðeins örfáa tugi upp á þann áfanga. Magnús Stefánsson er bæjarstjóri í Suðurnesjabæ og hefur verið frá stofnun sveitarfélagsins en áður var hann bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs. Suðurnesjabær er með tvö ráðhús, annað í Sandgerði en hitt í Garðinum. Þar er skrifstofa bæjarstjórans, þangað sem Víkurfréttir tóku hús á Magnúsi en samtals hefur hann verið bæjarstjóri í Garði og síðar Suðurnesjabæ í ellefu ár.

Hvernig hafa fimm ár í Suðurnesjabæ gengið fyrir sig?

„Þau hafa fyrir það fyrsta verið fljót að líða og gengið vel. Það hafa engin stór vandamál eða stór ágreiningsmál verið uppi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hver hefur verið stærsta áskorunin?

„Það er í fyrsta lagi að við erum að búa til eitt sveitarfélag úr tveimur. Það er áskorun og heilmikil vinna sem felst í því. Við vorum með tvö sveitarfélög sem hvort um sig býr yfir ákveðinni menningu og hefðum. Mér var það fljótlega ljóst, á fyrsta árinu eftir sameiningu, að þó ekki sé lengra á milli Sandgerðis og Garðs, þá eru ótrúlega misjafnar hefðir og menning í samfélögunum og stjórnkerfum sveitarfélaganna. Það er mikil áskorun að spila úr því, að sameina fólkið og ná saman þessum ólíku hefðum og menningu án þess að eyða eða strika út einhverja menningu í gömlu samfélögunum. Við erum líka á sama tíma að búa til nýtt, þannig að það er heilmikil áskorun og er eitthvað sem verður alltaf í gangi.“

TVENNT AF ÖLLU

Það er mikið „tvennt af öllu“ í sveitarfélaginu.

„Já, þetta voru tvö sveitarfélög sem voru með alla helstu innviði hvort fyrir sig. Við erum með tvær íþróttamiðstöðvar í ekki stærra sveitarfélagi og þykir vel í lagt. Hér eru tveir grunnskólar en það er ekki ástæða til að hrófla við því, nemendafjöldinn er þannig. Þá erum við með tvo leikskóla, í sitthvorum kjarnanum og það þarf að vera þannig. Þá erum við með tvö ráðhús eða bæjarskrifstofur og nýtum það þannig að við skiptum stjórnsýslunni í tvennt til að nýta gömlu bæjarskrifstofurnar. Við erum núna að vinna í því að koma allri stjórnsýslunni undir eitt þak, hvort sem það verður í Garði eða Sandgerði, það liggur ekki alveg fyrir. Sú vinna er í gangi núna. Það er mikilvægt að stjórnsýslan sé saman og margt sem spilar þar inn í.“

Magnús segir að það þurfi að láta hagkvæmnina ráða þegar kemur að húsnæðismálum fyrir ráðhús. Suðurnesjabær á húsnæði gömlu bæjarskrifstofunnar í Vörðunni í Sandgerði en á sama tíma bundið af leigusamningi á húsnæði bæjarskrifstofunnar í Garði til margra ára. Þar eru góðir stækkunarmöguleikar á sömu hæð. Það væri því auðveldara að koma húsnæðinu í Sandgerði í verð eða hafa af því tekjur. Þetta eru mál sem eru til skoðunar um þessar mundir og vonast Magnús til að niðurstaða fáist í haust.

GERVIGRAS Í SUÐURNESJABÆ

Samfélagið er að kalla á gervigrasvöll fyrir knattspyrnuna. Er það heit kartafla í ljósi þess að það getur ekki verið tvennt af öllu?

„Ég skil mjög vel þörfina. Við erum með tvö íþróttasvæði í sveitarfélaginu með grasvelli á báðum stöðum. Við vitum það að eftir sumarið hætta menn að geta notað grasvelli og langt tímabil yfir veturinn tekur við fram á vor. Þá er engin vetraraðstaða í sveitarfélaginu og því skiljanlegt að kallað sé eftir slíkri aðstöðu. Það er í bígerð að byggja gervigrasvöll. Það er bara spurning hvar hann á að vera, það liggur ekki fyrir. Við þurfum líka að gæta að því að sveitarfélagið hafi fjárhagslega burði og þá þarf að horfa yfir lengra tímabil, þannig að við förum ekki að fjárfesta þannig að við séum að steypa okkur í skuldir. Það er ekki skynsamlegt. Á sama tíma erum við núna að byggja upp nýjan leikskóla í Sandgerði og það er fjárfesting upp á rúman milljarð þegar upp verður staðið. Sveitarfélagið getur ekki farið á sama tíma í fjárfestingu í gervigrasi sem kostar hundruði milljóna króna. Það einfaldlega gengur ekki upp á sama tíma.“

Magnús hefur skoðað sveitarfélög í kringum landið að svipaðri stærð og Suðurnesjabær. Hann segir ekkert sveitarfélag að svipaðri stærð vera með tvö íþróttasvæði eða tvö keppnissvæði. Sum sveitarfélaganna eru með einn gervigrasvöll og ekkert annað. Einhver dæmi eru um náttúrulegt gras og gervigras og á flestum þeim stöðum er frjálsíþróttaaðstaða við grasvöllinn. Þetta eru til dæmis staðir eins og Sauðárkrókur eða Húsavík, þar sem haldin hafa verið landsmót eða unglingalandsmót. Þar hafa menn byggt upp þessa frjálsíþróttaaðstöðu og eru með gervigrasvöll líka. „Við verðum að gæta þess að offjárfesta ekki, í ekki stærra sveitarfélagi, en samt að geta byggt um aðstöðu sem þörf er á. Þetta er samspil ýmissa þátta sem þarf að ganga upp,“ segir Magnús.

Íþróttasvæðið í Garði. Þar er til skoðunar að setja niður gervigrasvöll.
Það er einnig til skoðunar á íþróttasvæðinu í Sandgerði.

EKKERT STÓRMÁL AÐ BÚA Í SUÐURNESJABÆ OG VINNA Á HÖFUÐBORGARSVÆÐINU

Hvernig er að vera með 4.000 manna sveitarfélag yst á Reykjanesskaganum í nálægð við Reykjanesbæ og höfuðborgarsvæðið?

„Það er bara ágætt. Þegar við tölum um Suðurnes í heild sinni, þá eru þau eitt atvinnusvæði. Það er stutt á milli staða. Það er heldur ekkert stórmál að búa hér og starfa á höfuðborgarsvæðinu. Það er töluvert af fólki sem býr hér en starfar ekki í sveitarfélaginu. Svo er stór hópur sem býr hér og vinnur á Keflavíkurflugvelli. Fólk kýs hvar það starfar. Það er fjöldi sem starfar hjá Suðurnesjabæ en býr í Reykjanesbæ og öfugt. Þetta er eitt atvinnusvæði og fólk velur sér búsetu eftir sínum forsendum. Það hefur fjölgað töluvert hjá okkur og er uppbygging í íbúðahverfum. Við erum ánægð með það að fólk kýs að búa hjá okkur.“

Þið stefnið óðfluga í fjögur þúsundasta íbúann. Verður hann kominn fyrir áramót?

„Mér sýnist stefna í það. Ég var að skoða bráðabirgðatölur frá Hagstofunni í vikunni og íbúar Suðurnesjabæjar eru 3.960 talsins, þannig að það vantar ekki mikið upp á.“

Er uppbygging svipuð í Garði og Sandgerði?

„Já, ég myndi segja það. Fyrir nokkrum árum fórum við í að útbúa hluta af nýju hverfi í Garðinum og það er orðið uppselt. Við erum að undirbúa að halda áfram með það hverfi en um þriðjungur af því er núna kominn. Í Sandgerði fórum við í að brjóta land undir nýtt hverfi sem við köllum Skerjahverfi og úthlutuðum lóðum í um þriðjung af því hverfi sem er í uppbyggingu núna en haldið verður áfram uppbyggingu í því hverfi. Við reynum að stilla þetta af eftir eftirspurn, því það er heldur ekki gott að rjúka í að útbúa fullbúnar götur með öllum innviðum og svo gerist ekkert meira. Það er ekki skynsamlegt.“

Teiga- og Klappahverfi í Garðinum. Þriðjungur þess hverfis hefur nú verið byggður upp.

Hvernig hefur eftirspurn eftir lóðum verið?

„Hún hefur verið ágæt. Síðasta árið hefur verið þungt út af efnahagsástandi og vaxtastigi fyrir þá sem vilja fjárfesta og byggja upp. Það eru fyrirspurnir um lóðir og nú er búið að breyta reglugerð varðandi hlutdeildarlán fyrir fyrstu kaupendur og þar er Suðurnesjabær flokkaður með öðrum sveitarfélögum á svokölluðum vaxtarsvæðum. Ég held að menn hafi verið að bíða eftir þessu hérna og ég á von á því að þetta auki eftirspurn eftir lóðum fyrir húsnæði sem hentar fyrir þetta. Þá hefur Bjarg leigufélag hafið framkvæmdir við uppbyggingu ellefu íbúða fjölbýli í Skerjahverfi í Sandgerði. Bjarg er óhagnaðardrifið húsnæðisfélag og hefur verið að byggja upp víða um land. Það er ánægjulegt að Bjarg sé komið af stað með þessa framkvæmd, sem mun koma til móts við eftirspurn eftir leiguhúsnæði í Suðurnesjabæ.“

BREYTINGAR MEÐ NÝJUM LEIKSKÓLA

Þið eruð að byggja sex deilda leikskóla í Sandgerði. Verða breytingar þegar hann verður tekinn í gagnið?

„Það liggur fyrir núna að öll starfsemi í Sólborgu, sem er núverandi leikskóli, verður flutt í nýja leikskólann. Það er ekki mikil fjölgun leikskólarýma sem fylgir því. Við munum áfram eiga húsnæðið í Sólborgu sem hefur verið gert upp eftir að mygla greindist í húsnæðinu. Þar er leikskólalóð til staðar og ef upp kemur sú staða eftir tvö eða þrjú ár að það vantar leikskólapláss þá eigum við þann möguleika að opna þar deildir til að mæta því. Það liggur fyrir að starfsemin í núverandi leikskóla fer yfir í nýjan skóla á næsta ári.“

Og það er breyting á rekstrarfyrirkomulagi.

„Það hafði verið tekin um það ákvörðun fyrir nokkru síðan að nýr leikskóli verði rekinn af einkaaðila og gerður þjónustusamningur um það. Það fyrirkomulag hefur verið bæði í Garði og Sandgerði til langs tíma. Fyrsta uppleggið var að byggja nýja leikskólann sem fjögurra deilda og halda áfram með hluta af starfsemi í Sólborgu og Hjallastefnan myndi halda áfram að reka það. Síðan var tekin ákvörðun á nýjum forsendum um að fara með alla starfsemina í nýja leikskólann. Þar með lá fyrir að Hjallastefnan myndi ekki reka nýja leikskólann. Nú er verið að vinna í samkomulagi um að það verði aðilaskipti í rekstrinum á núverandi leikskóla. Hjallastefnan skilar af sér rekstrinum í haust eða byrjun vetrar og Skólar ehf., sem við erum búin að semja við um rekstur á nýja leikskólanum, taka við rekstrinum á núverandi leikskóla og síðar færa þá starfsemi yfir á nýja leikskólann. Það sem skiptir mestu máli er að það verði samfella í starfsemi leikskólans, þannig að börnin og foreldrar haldi sínu. Það gilda lög um réttindi og skyldur starfsfólksins og nýr rekstraraðili yfirtekur það. Við vonumst til að þetta gangi vel fyrir sig og allir aðilar eru að vinna saman í því.“

Nýr leikskóli er nú í byggingu við Byggðaveg í Sandgerði. Hann verður rekinn af fyrirtækinu Skólar ehf.

VANTAR ALMENNINGSSAMGÖNGUR FRÁ FLUGSTÖÐINNI Í GARÐ OG SANDGERÐI

Samgöngur í sveitarfélaginu, hvernig eru þær? Vegurinn milli Garðs og Sandgerðis er t.a.m. afleitur.

„Já, hann er það. Hann er mjór og leiðinlegur. Við fundum árlega með Vegagerðinni og erum alltaf að þrýsta á Vegagerðina um úrbætur. Það mun takast fyrir rest, án þess að ég sjái fram á það núna hvenær það verður. Það stendur ekki á okkur að þrýsta á Vegagerðinni með þetta. Eitt af því sem við höfum verið að hamra á Vegagerðina með er Stafnesvegurinn, ekki síst út af nýja Skerjahverfinu. Stafnesvegurinn er mjór og illa undirbyggður alla leið og það er alltaf að aukast umferð þar. Ferðamaðurinn er að uppgötva þessa leið og það er alltaf að fjölga bílum sem fara um veginn. Hann er mjór og hættulegur. Það er aðkallandi að fara í endurnýjun á þeim vegi. Svo eru það Sandgerðisvegurinn frá Rósaselstorgi og til Sandgerðis og einnig Garðvegurinn til Keflavíkur. Við erum endalaust að berjast fyrir bótum á þessum vegum.“

Hvað með almenningssamgöngur?

„Það vilja allir hafa nógu tíðar ferðir en svo sér maður strætóana tóma. Þar fer ekki saman hljóð og mynd. Það sem er erfiðast með almenningssamgöngurnar er að það vantar tengingar frá Sandgerði og Garði upp í flugstöð. Það er mikið af fólki á báðum stöðum sem vinnur í flugstöðinni og hjá fyrirtækjum á flugstöðvarsvæðinu og eins og almenningssamgöngurnar eru byggðar upp núna, þá getur þetta fólk ekki nýtt sér þær – og þá þurfa menn að fara á bíl þessa stuttu leið og við þekkjum nú bílafjöldann þarna uppfrá. Við erum búin að vera að vinna í að fá þessu breytt en þetta virkar eins og olíuskip að breyta um stefnu. Það gerist mjög hægt.“

Göngu- og hjólastígurinn milli Garðs og Sandgerðis er mikið notaður.

„Hann hefur slegið í gegn, enda er hann mjög flottur og fínn – og upplýstur. Sem betur fer er fólk að nota hann mikið. Fólk er duglegt að ganga og hjóla eftir stígnum. Ákvörðunin um hann var tekin fyrir sameiningu og það var forgangsmál að ráðast í þessa framkvæmd sem var líka táknræn fyrir sameininguna og ég held að stígurinn hafi skipt miklu máli. Þegar talað er um sameiningu sveitarfélaga, þá er eitt að sameina stjórnsýsluna og kerfið en stóra málið til lengri tíma er að sameina íbúanna í einu samfélagi og þetta er ágætis liður í því.

Það eru áform um að halda áfram í stígagerðinni. Það eru áform um stíg úr Garði og til Reykjanesbæjar og frá Sandgerði og að flugstöðvarsvæðinu. Það er þó með stígagerðina eins og gervigrasið og fleiri framkvæmdir, að við höfum ekki burði til að gera allt sem okkur langar til á sama tíma. En þetta mun koma, það er bara spurning um tíma.“

FYLGDARLAUS BÖRN Á FLÓTTA ÚR FLUGSTÖÐ TIL BARNAVERNDAR SUÐURNESJABÆJAR

Reykjanesbær er að takast á við áskoranir í útlendingamálum er tengjast flugstöðinni. Þið hafið fengið skerf af því og m.a. fylgdarlaus börn á flótta.

„Flugstöðin er staðsett í umdæmi barnaverndar Suðurnesjabæjar, sem þýðir að ef það koma börn með flugi og gefa sig fram í flugstöðinni og eru fylgdarlaus þá tekur barnaverndin okkar utan um viðkomandi börn og kemur þeim í skjól. Við erum með aðstöðu í Sandgerði sem var formlega tekin í notkun í síðustu viku. Ég held að ég fari rétt með að það hafi verið rúmlega fimmtíu börn sem komu í gegn á síðasta ári hjá okkur. Þetta er töluverð áskorun fyrir okkur fyrir ekki meiri umsvif barnaverndar. Við höfum unnið þetta með ríkinu og samkvæmt lögum borgar ríkið allan kostnað við þetta og það hefur þróast mjög gott samstarf við barna- og menntamálaráðuneytið. Þetta kom eins og holskefla á síðasta ári og allir óundirbúnir og í raun og veru var töluverð óvissa hvernig ætti að takast á við þetta. Það hefur gengið mjög vel að þróa þetta með ráðuneytinu og Barna- og fjölskyldustofu. Ég held að þetta sé komið í mjög góðan farveg núna.“

Er ástandið að róast?

„Já. Síðumars 2022 eða í haust sem leið þá helltist yfir okkur þetta ástand og á tímabili vorum við með yfir þrjátíu börn á sama tíma. Við fengum aðstöðu hjá Vinnumálastofnun sem leigði gamla Garðvang til að koma þeim fyrir þar. Síðan hefur hópurinn minnkað af ýmsum ástæðum. Megnið af þeim börnum sem hafa komið eru á aldrinum fjórtán til fimmtán ára og upp í átján ára aldur. Það eru örfá dæmi um yngri börn. Það má því segja að þetta séu unglingar og er að koma alls staðar að.“

Og hvernig hefur verkefnið gengið?

„Það hefur gengið alveg ótrúlega vel. Það hafa ekki komið upp nein vandamál. Ég hef hitt eitthvað af þessum börnum og þetta er bara fínt fólk og það virðist ekki vera neitt undirliggjandi vesen. Það segir sig sjálft að mörg þeirra eru að koma úr aðstæðum í sínu heimalandi sem situr í þeim og þau þurfa aðstoð til að vinna úr. Heilt yfir eru þetta heilsteyptir og fínir krakkar.“

Suðurnesjabær fékk heimdil frá ríkinu til að ráða tvo starfsmenn til að sinna málaflokknum. Ríkið borgar launin og þau eru að vinna með þessum krökkum, sjá um þau og fylgjast með þeim. Aðstoða þau við að byggja sig upp og koma þeim í afþreyingu eða íþróttir. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel.“

ÁTAK Í FRÁVEITUMÁLUM

Hvað er í farvatninu þegar kemur að stærri fjárfestingum í sveitarfélaginu?

„Það er margt sem þarf að gera eins og á við um sveitarfélög sem eru að stækka og íbúum að fjölga. Það þarf að fara í gatnagerð og byggja upp ný hverfi og það kostar. Við þurfum að fara í átak í fráveitumálum, sem þykja ekkert mjög sexý verkefni. Ef þau mál eru ekki í lagi, þá finnur þú fyrir því. Það hefur legið fyrir í Sandgerði frá því fyrir sameiningu að fara í útrásarverkefni sem er mikil þörf á og kostar mikið og kostnaðurinn getur hlaupið á hundruðum milljóna króna. Þá erum við með fráveitumál óleyst í Garðinum líka. Þetta eru verkefni sem við eigum að vera búin að klára samkvæmt lögum og eru mjög aðkallandi.“

Magnús segir að ef fjölgun íbúa haldi áfram með sama hraða og verið hefur, þá sé ekki langt í að gera þurfi úrbætur í Sandgerðisskóla en það sé ekki langt í að hann sé fullsetinn. „Það er svo verkefni kjörinna fulltrúa að ákveða forgangsröðun. Við getum ekki farið í allt á sama tíma, það þarf að forgangsraða og stundum er það ekkert vinsælt.“

Nýtt aðalskipulag Suðurnesjabæjar hefur verið undirritað og það er mjög stór áfangi. „Við erum að gera fyrsta aðalskipulag fyrir sameinað sveitarfélag, nú hefur það verið staðfest og er mjög stór áfangi varðandi framtíðarsýn og þróun á þessu nýja sveitarfélagi. Þetta er búin að vera heilmikil vinna. Ferlið er flókið og tekur langan tíma.“

Skerjahverfið í Sandgerði er tekið að rísa og á myndinni má sjá görfu þar sem Bjarg mun reisa ellefu íbúða fjölbýlishús.

LANGT Í AÐ HVERFIN TENGIST

Hvað segir þetta skipulag okkur? Eru byggðakjarnarnir að þróast saman í eina heild eða bara áfram sem norðurbær og suðurbær?

„Við þurfum að horfa 50 ár fram í tímann til að sjá eitthvað þokast saman af alvöru. Við sjáum sem dæmi hverfi hér í Garðinum, Teiga- og Klapparhvefi, það hefur þriðjungur af því byggst upp, tveir þriðju eftir og það er í áttina að Sandgerði. Við sjáum bara hvað það er langt í það. Svo á eftir að fara í gegnum endurskoðun á aðalskipulagi sem verður væntanlega eftir næstu kosningar. Það hafa margir nefnt það að gervigrasvöllurinn ætti að koma hér mitt á milli, í nálægð við golfvöllinn. Það getur vel verið að það verði til framtíðar en í dag er það algjörlega óraunhæft. Þar vantar alla innviði. Þar er ekkert. Það vantar heitt og kalt vatn, fráveitu og aðra nauðsynlega innviði. Það þarf að byrja á að byggja þá upp áður en ráðist er í uppbyggingu á svæðinu. Einnig hafa verið umræður um að byggja upp þjónustukjarna þarna á milli. Það er ekki að gerast á allra næstu árum, þetta er meiri framtíðarmúsík.“

Það er ennþá langt í að fólk kalli sig Suðurnesjabæing. Við erum ennþá með Garðmenn og Sandgerðinga.

„Í Reykjavík ertu með Breiðhyltinga og Vesturbæinga og það er bara allt í lagi. Af hverju á að útrýma því að ég sé Garðbúi eða Sandgerðingur þó svo ég búi í Suðurnesjabæ? Þetta er bara hluti af menningunni. Við erum bara með stjórnsýslueiningu sem heitir Suðurnesjabær. Við verðum að gæta að því að viðhalda menningunni um leið og við reynum að sameina alla í eitt samfélag, þannig að fólk finni sig í því að vera Suðurnesjabæingur. Þetta er eins í Reykjanesbæ. Þar hittir maður fólk sem eru Keflvíkingar og Njarðvíkingar. Þetta er allt í lagi að mínu viti.“

Verður á einhverjum tímapunkti svo bara eitt íþróttafélag í Suðurnesjabæ?

„Það er bara ákvörðun félaganna. Það er margt sem mælir með því. Svo erum við með ákveðinn kúltúr í þessum félögum. Við erum með tvö íþróttafélög og við erum með tvær björgunarsveitir. Sumir segja að það sé alveg galið að vera með tvennt af öllu. Það er bara ákvörðun þeirra sem eru í þessu. Ef þetta er skynsamlegt og hagkvæmt þá hljóta menn að sjá það og eins ef það er ekki. Sveitarfélagið er að leggja mikið til þeirra félaga sem starfa í sveitarfélaginu og það vilja allir að þar sé öflug starfsemi, hvort sem það er í íþróttalífinu eða björgunarsveitunum og allt virki eins og lagt er upp með og sveitarfélagið leggur sitt þunga lóð á vogarskálarnar þar.“

KRAFA UM HEILSUGÆSLU

Að endingu, þið leggið á það áherslu að fá heilsugæslu í sveitarfélagið og hafið bent á að Suðurnesjabær sé stórt sveitarfélag án heilsugæsluþjónustu fyrir íbúana. Þannig sé t.a.m. til staðar húsnæði sem henti vel fyrir heilsugæslustöð.

„Suðurnesjabær er eina sveitarfélagið í landinu þar sem íbúar hafa ekki kost á því að njóta heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Það gengur gegn ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu sem kveða á um að íbúar eigi að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu í sinni heimabyggð. Þetta er óásættanleg staða og undanfarin ár hefur Suðurnesjabær átt samskipti við heibrigðisráðuneytið og HSS með þrýsting um úrbætur á þessu. Við höfum bent á húsnæði sem hentar vel fyrir þessa þjónustu, sem er staðsett í Vörðunni í Sandgerði. Þetta er mikilvægt áherslumál og skiptir miklu varðandi þjónustu við íbúana í sveitarfélaginu. Vonandi næst árangur í þessu mikilvæga máli sem fyrst.“

FLUGSTÖÐIN OG UPPBYGGING Í BÆJARLANDINU

Öll uppbyggingin við flugstöðina hlýtur að skila ykkur einhverju í kassann?

„Já, eins og hjá öðrum sveitarfélögum þá fá þau sínar skatttekjur af því þegar byggt er íbúðar- eða atvinnuhúsnæði í formi fasteignaskatta og það á við þetta eins og annað.“

Það munar um þetta.

„Okkur munar um hverja milljónina eins og á við um öll sveitarfélög. Það má líka halda því til haga að fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði er eini beini skatturinn sem atvinnufyrirtæki greiða til sveitarfélaganna.“

Þið eruð með Bergvík innan bæjarmarkanna. Horfið þið björtum augum til þess sem er að fara að gerast þar?

„Já, að sjálfsögðu. Það er mjög spennandi verkefni sem er að fara af stað í húsnæðinu sem átti að hýsa álverið. Við köllum svæðið Bergvík til að skilja það frá Helguvík. Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig þetta verkefni mun ganga. Þetta er liður í því sem menn hafa verið að tala um að þeir vilji gera á svæðinu, grænt iðnsvæði og hringrásarhagkerfishugsun. Vonandi byggist meira upp á svæðinu en Bergvík og Helguvík eru ein heild. Það eru gríðarlegir möguleikar á svæðinu í uppbyggingu á atvinnustarfsemi. Það hafa ýmsir aðilar sýnt því áhuga en svo veit maður aldrei hvað kemur útúr þessu. Styrkurinn þarna er að vera með annars vegar höfnina og hins vegar flugvöllinn í seilingarfjarlægð. Til framtíðar á þetta að geta spilað vel saman og verið öflugt atvinnusvæði.“

Þið eruð aðilar að K64. Er það að gera eitthvað fyrir ykkur í náinni framtíð?

„Í  rauninni ekki eins og okkar væntingar stóðu til. Ekki nema það að í ferlinu þegar verið var að vinna þessa þróunaráætlun að þá opnuðu ráðgjafarnir augun og uppgötvuðu Bergvíkursvæðið. Við þurftum að berjast fyrir því að fá alla þessa ráðgjafa til að átta sig á því hvaða möguleikar eru þar, þá var það tekið inn í pakkann en að öðru leyti er ekki mikið í þessari þróunaráætlun sem á beint við um Suðurnesjabæ. Talandi um K64 þá hef ég ekki verið feiminn að segja það að Suðurnesjabær er alveg hliðsettur í því plani. Ráðgjafarnir hafa horft á svæðið frá Aðaltorgi og í áttina að Reykjavík. Fyrirfram stóð maður í þeirri trú að það væri mjög verðmætt svæði til uppbyggingar frá Rósaselstorgi og upp að flugstöð, en þeir horfa alveg framhjá því. Þeirra hugmyndir voru meðal annars að gróðursetja tré samkvæmt planinu. Við getum haft þetta svæði í skipulagi en það er landeigandi sem hefur valdið á því hvort á að byggja eitthvað upp þar. Kadeco er ekki þar. Þetta er land í eigu ríkisins og Kadeco fer með eignarhaldið og það hefur alveg komið skýrt fram í öllum umræðum um þetta mál að Kadeco er ekki að horfa til þess að heimila neina uppbyggingu þarna, þó svo við séum með þetta á skipulagi. Ég veit ekki hvað ríkið ætlar sér að gera þarna í framtíðinni. Hvort það á að koma í veg fyrir alla uppbyggingu í Suðurnesjabæ í kringum þetta svæði. Það getur vel verið að það sé stefna ríkisins en ég held að við í Suðurnesjabæ verðum ekki sátt við það til lengdar litið. Auðvitað erum við að horfa til langs tíma, þetta gerist ekki allt á einu eða tveimur árum og einhvern tíma kemur að því að þessi áætlun verður endurskoðuð.“