Hefði viljað losna við að fá Covid
Páskaeggjaleit er hefð hjá Einari Magnússyni og fjölskyldu
„Við hjónin höfðum hugsað okkur að eyða páskunum í sumarbústað með börnunum okkar, tengdabörnum og barnabörnum – en nú erum við aðeins í lausu lofti með þetta, höfum ekki tekið ákvörðun ennþá,“ segir Einar Magnússon, fiskverkandi í Keflavík. Hann hefur, eins og fleiri, farið að gosstöðvunum og segir það stórkostlega upplifun.
– Eru fastar hefðir hjá þér um páskana?
„Páskaeggjaleit en hefð hjá okkur og við felum eggin sem fjölskyldan fær frá okkur. Ég er mjög góður í að fela þannig að það er erfitt að finna eggin sem ég fel. Svo er það bara að hafa það gott í faðmi fjölskyldunnar, borða góðan mat og njóta samveru.“
– Páskaeggið þitt?
„Það hefur alltaf verið Nóa egg en þessa páska ætla ég að prófa Freyju rísegg fyrir mig.“
– Uppáhaldsmálsháttur?
„Illu er best aflokið.“
– Hvað verður í páskamatinn?
„Kalkúnn með heimatilbúinni fyllingu og mikið af góðu meðlæti.“
– Ertu búin að fara á gosstöðvar og ef hvernig var upplifunin?
„Já, ég fór ásamt syni mínum á þriðja degi goss. Þetta var stórkostleg upplifun og vekur mann svo sannarlega til umhugsunar um hvað náttúran er mikilfengleg.“
– Hvað viltu segja um nýjustu takmarkanir vegna Covid-19?
„Hlýða þríeykinu í einu og öllu. Við erum þrjú í fjölskyldunni búin að fá Covid, það var reynsla sem ég hefði alveg viljað losna við og vil því leggja mitt af mörkum til að losna við faraldurinn sem fyrst.“