„Hefði ekki viljað missa af því með Bon Jovi í eyrunum“
Guðjón Kjartansson, 26 ára gamall Keflvíkingur og verkefnastjóri hjá Askar Capital var einn þeirra sem létu stóra drauma rætast á árinu 2009 en hann var í hópi rúmlega 43 þúsund hlaupara sem kláruðu New York maraþonið. Miðann í hlaupið vann hann í útdrætti og þá var ekki aftur snúið. Fimm mánuðir fóru í undirbúning og stífar æfingar þar sem Reykjanesbrautin var meðal annars hlaupin í góðum mótvindi, en hugarfarið skiptir mestu máli segir Guðjón í viðtali við vf.is.
Hvað kom til að þú ákvaðst að taka þátt í New York maraþoninu?
Það hafði blundað í mér í töluverðan tíma að takast á við eitthvert verkefni í líkingu við maraþon hlaup, ekki myndi svo skemma fyrir að komast í betra form í kjölfarið. Það var svo í Apríl 2008 sem vinur minn búsettur í London hljóp London maraþonið. Skömmu eftir það ákváðum við í sameiningu að freista þess að fá miða í New York maraþonið í gegnum útdráttarkerfi eða lottó. Til að gera langa sögu stutta fékk ég inn í maraþonið en ekki vinurinn. Þá var ekki aftur snúið og verkefnið skildi klárað.
Hvenær byrjaðir þú að undirbúa þig?
Undirbúningur hófst formlega að morgni 14.maí en um nóttina hafði ég fengið tölvupóst þess efnis að ég væri kominn inn í hlaupið. Þá fór ég 5 km, stressaður og spenntur. Eftir það sótt ég mér hlaupaprógrömm og stillti upp áætlun með aðstoð góðra manna.
Reykjanesbrautin afgreidd á æfingatímabilinu - frá Hafnarfirði til Fitja, eða um 32 kílómetrar.
Í hverju fólst undirbúningurinn?
Undirbúningurinn fólst eðli málsins samkvæmt að mestu í því að hlaupa. Mikilvægt er samt að fara ekki of hratt af stað og nýta allan tímann, þarna hafði ég rúma 5 mánuði til stefnu. Gat ég því leyft mér að hlaupa aðeins þrisvar í viku en þess á milli synti ég, hjólaði eða fór í ræktina. Ég las líka töluvert um maraþon og horfði á myndbönd, þetta hélt mér við efnið og jók spennuna og þrána við að ljúka við verkefnið. Einnig hafði ég gaman af því að stilla hlaupunum upp þannig að litlir sigrar voru hluti af æfingunum. Þannig tók ég þátt í stuttum skipulögðum hlaupum, hálf-maraþon í Reykjavíkur – og Suðurnesjamarþoni. Ég tók líka góða spretti í því að létta mig því ég var allt of þungur, ég vissi að það væri einn af stóru þáttunum og stærsti kosturinn við þessa vitleysu. Andlega og líkamlega erfiðasta æfingin var eflaust sú þegar ég hljóp frá Hafnarfirði og inná Fitjar (ca. 32 km) nokkrum vikum fyrir Maraþonið í stífum mótvindi, það hjálpaði ekki að leiðin er ekkert sérstaklega spennandi, meðfram hraðbraut. Hvíld er auðvitað mikilvæg í þessu sporti sem öðrum og ferð til nuddara skilaði oft ótrúleg miklu, sérstaklega síðust vikurnar þegar hin og þessi eymsli fóru að koma í ljós og ekki vottur af vilja til að leita sér læknisaðstoðar þar sem líklegasta niðurstaðan hefði verið fyrirskipun um að hvíla í tiltekinn tíma, þegar 6 vikur voru í hlaupið var ekki stemming fyrir örðu en að taka áhættu og halda sér saman með klökum, bólgueyðandi og góðu nuddi. Enginn íþróttaþjálfari myndi þó eflaust mæla með þessu og geri ég það ekki heldur, en ég komst reyndar upp með þetta.
Varstu einn í þessu eða fékkstu einhvern með þér?
Ég æfði framan af með Hlaupahóp Íslandsbanka, sem er opinn öllum og er árlega settur saman í tengslum við Reykjavíkurmaraþon. Það var mjög gott þar sem hægt var að ræða við þjálfara og aðra hlaupara um hin ýmsu mál tengdum æfingum og hlaupi sem upp komu hjá annars fáfróðum aðila um málið. Eftir Reykjavíkurmaraþon æfði ég að mestu einn og fannst það ágætt. Ég keypti mér GPS úr sem setti hlaupaæfingarnar á annan stall, nú var hægt að pæla í hraða, hröðun, lengd og fleiri þáttum á meðan maður hljóp, hjálpaði mjög að hafa eitthvað að hugsa um þá sérstaklega í lengri hlaupum.
Guðjón í miðju maraþoninu.
Stefnir þú á áframhaldandi maraþonhlaup?
Það var nú ekki markmiðið að gera þetta að einhverju alvöru áhugamáli, en eftir að hafa hlaupið í NY er ekki laust við að einhver baktería hafi náð fótfestu. Ég skráði mig vikuna eftir NY hlaupið í London maraþonið sem haldið er í apríl. Maður tekur það og sér svo til með framhaldið. Það er margt annað sem skemmtilegt væri að klára svo maður einskorði sig ekki við maraþonhlaup, en þeim verður haldið áfram á meðan maður nennir.
Á hvaða tíma hljópstu í New York maraþoninu?
Ég hljóp á 3.54.33
„Líkamlega er maraþon mjög erfitt, þetta var ekki óalgeng sjón eftir 35 km.“
Hvað þarf maður að hafa til að geta hlaupið maraþon?
Það er misjafnt, í mínu tilfelli þurfti æfingu og skap til að halda æfingatímabilið út, það var nr. 1,2 og 3. Að halda út 5-6 mánaða æfingatímabil er held ég erfiðara andlega en hlaupið sjálft. Hitt er svo annað mál að hausinn þarf að vera í lagi, eftir 35 km er maraþon ekki lengur líkamlega erfitt, það er líkamlega ómögulegt að mati hans sjálfs, hausinn þarf því að taka yfirhöndina síðustu 7 km.
Ég geri ráð fyrir að þú hafir notast við tónlistarspilara á meðan hlaupunum stóð, á hvað hlustaðir þú aðallega?
Jú vissulega notaðist ég við tónlistaspilara á æfingatímabilinu. Þar var lykilinn að vera með nægilega fjölbreytta tónlist allt eftir því hvað þurfti, stundum var dagsformið þannig að Sigurrós átti við en stundum þurfti að keyra á meiri tempó að borð við teknó tónlist eða hetjurokk. Í maraþoninu sjálfu skildi ég spilarann eftir heima en yfir 100 hljómsveitir sáu um stemminguna á leiðinni ásamt hundruð þúsunda áhorfenda sem gerðu upplifunina ógleymanlega, hefði ekki viljað missa af því með Bon Jovi í eyrunum.
Við 40 km markið í Central Park og aðeins rúmir 2 km eftir, adrenalín og endorfín flæði líkamans í hámarki og gríðarleg stemning hjá áhorfendum. Ekki laust við að þarna hafi verið gefið í.
Hefur þú æft einhverjar aðrar íþróttir?
Ég æfði sund vel og lengi í á barnsaldri, svo tóku við hefðbundnar lyftingar og ræktar ferðir ásamt því að ég æfði hnefaleika í 2-3 ár. Síðustu ár hafa frekar einkennst af átaksbundnum líkamsræktarferðum. Einnig hef ég stundað golf frá barnsaldri.
Ertu með ný markmið í hlaupinu?
Ég stefni á London maraþonið í Apríl en það er eitt af fimm stærstu maraþonum heimsins líkt og NY. Stefnan er reyna að gera betur þar en í NY. Væri gaman að ná því undir 3.45.00. Annars er markmiðið fyrst og fremst að hafa gaman af þessu, því þótt ótrúlegt megi virðast er þetta ansi skemmtilegt þegar maður er kominn af stað.
Ískalt Coca-Cola hefur aldrei bragðast jafn vel eins og á þessari stundu, með á mynd eru vinirnir Magnús Óskarsson, Ólafur Haukur Johnson og kona hans Sigrún Jónsdóttir.
Hluti íslendinganna sem luku hlaupinu en alls voru þeir um 35.
Guðjón ásamt nokkrum félögum sínum söfnuðu áheitum frá fyrirtækjum fyrir hlaupið.
Gáfu þeir svo alla upphæðina til Fjölskylduhjálpar Rauðakross Íslands. Alls söfnuðust 357.000 frá fyrirtækjunum: SS Verktaki, Securitas, Nettó, Miðlun, Nings, Bang og Olufsen, Nordic eMarketing og Nordic Store.
VF/HBP Myndir úr einkasafni.