Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hef mikið stundað baðkarslestur
Sunnudagur 15. júlí 2018 kl. 10:38

Hef mikið stundað baðkarslestur

- Hjálmar Benónýsson íslenskukennari er lesandi vikunnar.

Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Hjálmar Benónýsson íslenskukennari í Heiðarskóla, kórsöngvari og sjómaður í hjáverkum. Hjálmar les á hverjum degi, mismikið þó, bæði fyrir sjálfan sig og kennarastarfið.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég er að lesa bókina Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Ég er auk þess með tvö smásagnasöfn sem ég glugga í til skiptis; Steintré eftir Gyrði Elíasson og Sögur frá Rússlandi sem inniheldur smásögur eftir þekkta rússneska höfunda.

Hver er uppáhaldsbókin?

Auðvitað eru rosalega margar bækur eftir ólíka höfunda sem koma til greina og í raun er nær ómögulegt að nefna eina. Flestar af bókum Jóns Kalmans og Sjón hafa hrifið mig mjög en mér þykir mjög notalegt að lesa smásögur eftir Gyrði Elíasson og sú bók sem ég sæki hvað mest í er Milli trjánna, svona til þess að nefna einhverja.

Hver er uppáhaldshöfundurinn?

Það er mjög erfitt að nefna einn höfund, en þeir sem hafa verið fyrirferðamiklir hjá mér undanfarin ár eru Jón Kalman Stefánsson, Gyrðir Elíasson, Steinunn Sigurðardóttir, Knud Hamsun, Sjón, Gerður Kristný og Haruki Murakami.

Hvaða tegundir bóka lestu helst?

Ég les alls konar bækur. Í mínu námi og starfi eru íslenskar miðaldabókmenntir, greinasöfn, fræðibækur, orðabækur og önnur uppflettirit aldrei langt undan. Þá þykir mér mjög gaman að fletta í bókum sem innihalda sögulegan og þjóðlegan fróðleik. Ég les einnig bækur um tónlist og ljóðabækur en það fer líklega mest fyrir skáldsögum og smásögum í mínum lestri.

Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?

Sem barn las ég mikið bækur eftir höfundana Astrid Lindgren, Enid Blyton, Þorgrím Þráinsson og Kristínu Steinsdóttur. Þær bækur hafa haft mikil áhrif á mig sem lesanda því þetta voru spennandi bækur sem höfðuðu til mín og hvöttu mig til lesturs. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að eiga sem flesta góða höfunda og þýðendur sem einbeita sér að yngri lesendum svo að allir finni eitthvað sem höfðar til þeirra.

Hvaða bók ættu allir að lesa?

Í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá hinu viðburðaríka ári 1918, ættu allir að lesa Mánastein eftir Sjón. Frábær saga sem gerist árið 1918.

Hvar finnst þér best að lesa?

Ég les eflaust mest í stofunni heima hjá mér. Einnig hef ég mikið stundað baðkarslestur auk þess sem mér finnst mjög gott að lesa á völdum kaffihúsum.

Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?

Blóðhófnir e. Gerði Kristnýju, Öræfi e. Ófeig Sigurðsson, Tímaþjófurinn e. Steinunni Sigurðardóttur, Norwegian Wood e. Murakami, Saga Ástu e. Jón Kalman Stefánsson, Sölvasaga unglings e. Arnar Má Arngrímsson og Valeyrarvalsinn e. Guðmund Andra Thorsson eru nokkrar af fjölmörgum sem ég get mælt með.    

Ef þú værir fastur á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?

Í von um að losna af eyjunni einn daginn myndi ég taka með mér Laxdælu til þess að læra hana utanbókar og geta flutt fyrir nemendur mína á svipaðan hátt og Benedikt Erlingsson flutti Eglu. Nemendurnir myndu að sjálfsögðu líka fá hlutverk og taka þátt (e. learning-by-doing). Ég er viss um að það gætu orðið skemmtilegar kennslustundir.

Lesandi vikunnar er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta og verður nýr lesandi valinn í hverri viku í sumar. Þau sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda geta skráð sig á heimasíðunni sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn eða í afgreiðslu Bókasafnsins að Tjarnargötu 12.