Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Hef gaman af því að vinna nákvæmnisvinnu“
Guðrún Aradóttir fótaaðgerðafræðingur. VF-mynd/hildurbjork
Fimmtudagur 3. nóvember 2016 kl. 09:00

„Hef gaman af því að vinna nákvæmnisvinnu“

Guðrún Aradóttir er fótaaðgerðafræðingur og rekur eigin stofu, Fótaaðgerðastofu Guðrúnar Ara, í OM setrinu í Reykjanesbæ. Guðrún er einnig menntaður sjúkraliði og þegar hún starfaði sem slíkur fékk hún áhuga á því að læra meira í heilsugeiranum. Hún tók líka eftir því á sjúklingum sínum að oft var þörf á betri umhirðu fóta. Maður fær jú aðeins eitt par.


Í hverju felst starf fótaaðgerðafræðings?
Við meðhöndlum ýmis fótmein og fótavandamál og sinnum einnig almennri umhirðu. Meðferðin felst í því að eiga við líkþorn, sigg, inngrónar neglur, vörtur og margt annað sem tengist fótaumhirðu. Við gefum auk þess góð ráð við ýmsum fótavandamálum og viðhaldi heilbrigðra fóta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hvað kom til að þú ákvaðst að fara í þetta nám?
Ég er lærður sjúkraliði og langaði að læra eitthvað meira í heilsugeiranum. Ég hafði verið að hugsa um þetta nám í svolítinn tíma. Mér fannst fótaaðgerðafræði mjög heillandi og krefjandi nám. Í starfi mínu sem sjúkraliði sá ég oft að það var mikil þörf fyrir umhirðu fóta og ég hef gaman af að vinna nákvæmnisvinnu.


Er námið vinsælt?
Í dag er ekki hægt að læra þetta á Íslandi. Það var fín aðsókn þegar ég var í skólanum en minn bekkur var sá síðasti hjá Fótaaðgerðaskóla Íslands, sem hefur verið lokað.


Hverjir eru þínir kúnnar?
Kúnnarnir mínir eru fólk á öllum aldri. Mikið af eldri borgurum, fólk með sykursýki, íþróttafólk og margir aðrir sem hafa ekki nein sérstök vandamál en vilja hugsa vel um fæturna sína og fá sér smá dekur.


Af hverju er fótaumhirða mikilvæg?
Fæturnir eru okkur mjög dýrmætir, þeir sjá um að bera allan þunga líkamans, halda jafnvægi og bera okkur frá einum stað á annan. Við fáum aðeins eitt par og verðum að hugsa vel um það.