„Hef elskað barnabækur frá því ég man eftir mér“
- segir Sigríður Etna, höfundur bókarinnar, Etna og Enok fara í sveitina
„Ég var heima með stelpuna mína í tuttugu og einn mánuð og var orðin svolítið þreytt og var ekki alveg viss um hvert mitt hlutverk væri og hvert ég ætlaði í mínum starfsframa, ég var eiginlega í smá krísu. En svo fékk ég hugmyndina að bókinni og þá fannst mér ég hafa smá tilgang. Þegar maðurinn minn kom heim úr vinnunni þá fór ég út að skrifa. Mér fannst ég þá hafa smá verkefni og tilgang en það tók mig tvo mánuði að fínpússa bókina. Ég sendi hana síðan á Margréti Pálsdóttur málfræðing, sem fór yfir bókina áður en ég fór með hana til útgefanda.“
Sigríður Etna Marinósdóttir eða Etna eins og hún er kölluð hefur gefið út sína fyrstu bók, barnabókina „Etna og Enok fara í sveitina“, en bókin er byggð á upplifun Sigríðar Etnu á sveitinni hjá mömmu sinni og pabba í gegnum dóttur sína Ingibjörgu Etnu. Sigríður Etna býr í Grindavík ásamt manninum sínum Ingólfi. „Ég fer oft vestur til mömmu og pabba og vinn í öllu eins og ég er vön að gera en ég fór ekkert að spá í því hvernig lífið í sveitinni væri fyrr en ég fór með dóttur mína til þeirra og fylgdist með henni að gefa kindunum, kemba hestunum, og þegar ég sá hana fylgjast með mömmu gefa býflugunum sykurvatn þá sá ég að þetta væri ævintýri sem ekki öll börn fá að upplifa. Mér fannst það pínu sorglegt að hugsa til þess að það séu ekki öll börn sem geta fengið að upplifa þetta en þá datt mér í hug þessi bók og ég vildi tengja hana umhverfinu sem við mæðgur þekkjum. Bókin er tengd Tálknafirði sem er heimabærinn minn.“
Hélt skrifunum leyndum
Sigríður Etna segir ferlið í kringum bókina vera búið að vera mjög skemmtilegt og að fólk hafi tekið vel í þetta, það sé ánægt með textann og myndirnar í bókinni.
„Það vissi eiginlega enginn af því að ég væri að skrifa þessa bók. Mamma og pabbi vissu af því, Ingólfur maðurinn minn og örfá systkini mín en ég er yngst níu systkina. Ég ætlaði ekki að láta neinn vita af því að ég væri að skrifa hana fyrst nema manninn minn en síðan lét ég mömmu og pabba lesa yfir hana því þetta er svo persónuleg bók úr okkar umhverfi og ég vildi nú ekki fara að segja einhverja vitleysu. Ég hef fengið góðar viðtökur og margar bækur hafa nú þegar selst og lagerinn að tæmast. Bókin var ein af þeim sem var valin til að fara í stórmarkaðina og mér finnst það mjög skemmtilegt.“
Vildi að fleiri myndu upplifa sveitarlífið
Etna ólst upp í sveit og upplifði því sjálf sveitarlífið beint í æð þegar hún var barn og sinnti sveitarstörfunum með mömmu sinni og pabba en henni finnst það vera eitthvað sem flestir ef ekki allir ættu að fá að upplifa að minnsta kosti einu sinni á ævinni.
„Það eru ekki mörg börn í dag sem fá að upplifa sveitina en mamma og pabbi bjóða leikskólabörnum til sín þegar það er sauðburður. Ég fer alltaf vestur og er í viku þegar það er sauðburður. Það er yndislegt að fylgjast með Ingibjörgu Etnu, dóttur minni, í sauðburðinum ásamt hinum börnunum en hún fer „all in“ og vill helst bara knúsa lömbin allan daginn. Það sem mér fannst líka svolítið skemmtilegt að segja frá er að þegar ég fór með manninn minn vestur í fyrsta sinn þá talaði hann alltaf um hvíta sandinn og ég skildi ekkert í því hvað hann væri að tala um. Þá áttaði ég mig á því að sandurinn fyrir vestan er hvítur eins og á sólarströnd en hér fyrir sunnan er hann til dæmis svartur. Mér fannst það því mjög spes að börn voru að moka í sandkassa fullum af svörtum sandi, það er svo skemmtilegt að kynna þetta fyrir börnunum en á einni mynd í bókinni er hvíta ströndin okkar fyrir vestan.“
Fallegar skissur frá Freydísi.
Fékk leyfi frá vinkonu sinni
Nafnið Etna er ekki algengasta nafnið sem maður heyrir á Íslandi en þeim hefur þó fjölgað sem bera þetta fallega nafn og ákvað ein stelpa sem vann með Etnu fyrir nokkrum árum að ef hún myndi eignast dóttur, þá fengi hún nafnið Etna og í dag á fyrrverandi vinnufélagi Etnu stúlku sem heitir ber þetta nafn.
„Nöfnin Etna og Enok koma frá því að það var stelpa með mér í háskóla sem heitir Marsibil, henni fannst Etna svo fallegt nafn og hún sagði alltaf við mig að ef hún eignaðist tvíbura myndi hún skíra þá Etnu og Enok, því henni fannst þau svo falleg saman. Það var líka strákur með okkur í námi í tómstunda- og félagsfræði sem heitir Hjalti Enok, en þegar ég hugsaði um nöfn á börnunum í bókinni þá komu bara þessi tvö nöfn til mín. Ég ákvað nú samt að senda Marsibil línu þegar ég var búin að ákveða að skrifa þessa barnabók því ég vissi að hún var hætt í barneignum og henni fannst þetta bara gaman og samþykkti. Ég held ég sé sú þriðja sem er skírð Etna en svo ákvað ég að kanna málin þegar ég byrjaði að skrifa og ég held við séum um átta núna á Íslandi sem berum þetta nafn og þrjár af okkur búa í Grindavík. Ég er nokkuð viss um að það verða nokkar Etnur sem fá bókina í jólagjöf þessi jól.“
Freydís og Sigríður Etna.
Myndirnar þjóðlegar og fanga umhverfið vel
Þegar Etna var lítil í sveitinni þá voru myndirnar eftir Freydísi frænku hennar listaverkin á heimilinu en Etna segir að myndirnar sem Freydís teikni séu listaverk í hennar augun og jólakortin sem Freydís sendi fjölskyldunni voru meðal annars römmuð inn, þau voru svo falleg.
„Myndirnar í bókinni eru eftir Freydísi Kristjánsdóttur en við erum systkinabörn. Hún vann myndirnar í bókinni út frá myndum sem ég lét hana hafa en ásamt því fór hún vestur í vettvangsferð. Ég er mjög glöð að hún gerði það, veðrið var reyndar aðeins að aftra ferðinni hennar en svo komst hún til mömmu og pabba og gisti hjá þeim. Hún fékk umhverfið allt beint í æð og það sést vel á myndunum í bókinni. Hún teiknar síðan myndirnar eftir að ég klára að skrifa handritið og hún er búin að upplifa umhverfið í bókinni sjálf. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á barnabókum en áhuginn kom löngu áður en ég varð móðir sjálf og ég laðaðist alltaf af bókum sem Freydís myndskreytti. Myndirnar hennar eru svo þjóðlegar og fallegar og hún nær umhverfinu fyrir vestan svo vel.“
Þarf ekki að vera nákvæmlega eins og raunveruleikinn
Í barnabókum er oft leikið sér með raunveruleikann og Etna hafði smá áhyggjur því vegna þess að allir Tálknfirðingar eigi eftir að tengja við umhverfið í bókinni en að bókin eigi ekki endilega að vera nákvæmlega eins og í raunveruleikinn, þó hún sé mjög lík honum.
„Bókin er byggð á bænum sem mamma og pabbi búa í núna og þegar ég fékk bókina í hendurnar fannst mér ég pínu berskjölduð því þarna var komið verk sem hægt var að gagnrýna mann út frá. Það verða ekki allir sammála um útlitið eða gæðin og ég fékk pínu sjokk og hugsaði hvað ég væri búin að koma mer út. Það eiga allir Tálknfirðingar eftir að kannast við umhverfið í bókinni. Bókin á samt ekki að vera nákvæmlega eins og raunveruleikinn þó hún sé mjög lík honum en það er líka allt í lagi. Mamma og pabbi eru til dæmis ekki með beljur en mig langaði samt sem áður að hafa beljur í bókinni, það er nefnilega svo skemmtilegt þegar maður gerir hlutina sjálfur því þá má alveg hafa hlutina smá öðruvísi, það er bara gaman. Ég vissi hins vegar ekkert um beljur og hafði því samband við vinkonu mína, Sigríði Árna, en foreldrar hennar eru kúabændur og ég hef sjálf farið með henni í fjósið þeirra nokkrum sinnum, fengið að þrífa spenana og fleira. Ég bað hana að lýsa því fyrir mér hvernig hún myndi útskýra mjólkurferlið í barnabók. Þá kom í ljós að það þyrfti alltaf að mjólka beljurnar tvisvar sinnum á dag, alveg sama hvaða dagur er, afmæli, jól, áramót, skiptir engu máli. Þá fattaði ég að það eru ekki allir sem skilja hvað það fer mikil vinna í það að vera með kúabú. Ég er heppin að hafa fengið að upplifa þetta og það eru eflaust ekki mörg börn sem hafa fengið að upplifa það að fara í fjós.“
Skrifar um sveitina sína
Bókin gerist eins og áður sagði í sveit foreldra Etnu og eru meðal annars kanilsnúðarnir sem mamma hennar bakaði alltaf fyrir afmæli þegar þau systkinin voru lítil á forsíðumyndinni, henni langaði að reyna að koma inn öllum smáatriðum sem eru í dag og úr æsku sinni.
„Kisan í bókinni er byggð á kisunni á bænum hjá mömmu og pabba en hún sinnir allt öðru hlutverki í dag heldur en henni var ætlað og það kemur fram í bókinni. Ég skrifa einnig um býflugnabúið sem mamma er með en það er gríðarleg vinna sem fer í slíkt bú og eru flugurnar hennar mömmu orðnar þekktar í þorpinu þar sem að þær líta ekki út eins og hinu hefðbundnu hunangsflugur. Það er margt annað sem tengist búinu og umhverfinu hjá mömmu og pabba eins og laxeldi og pollurinn á Tálknafirði.“
Kötturinn á bænum.
Íslenskt, já takk!
Etnu finnst mikilvægt að íslensk börn lesi íslenskt efni sem þau tengja við og henni finnst það einnig mikilvægt að það sé íslenskur myndskreytir í barnabókum en bókin hennar Etnu er rammíslensk og fjallar á skemmtilegan hátt um lífið í sveitinni, hún er líka með jólasögu um Etnu og Enok í vinnslu.
„Mikið af ömmum og öfum hafa keypt bókina hjá mér til að gefa barnabörnunum sínum. Það tengja flestir, ef ekki allir, við það að fara í heimsókn til ömmu og afa en margir kaupa bókina líka til að senda erlendis. Bókin er íslensk út í gegn og ég vona að þetta sé upphafið að einhverju í framtíðinni. Það er alltaf verið að tala um það að börn lesi minna og það sé á sama tíma lítið um að velja. Það er mikið af barnabókum til sem eru þýddar og koma erlendis frá en börn tengja kannski ekki eins mikið við umhverfið í þeim og þeim íslensku. Næsta bók er í vinnslu um Etnu og Enok sem lenda þá í öðrum ævintýrum eða í jólaævintýri. Ég vona að hún komi út en það er heilmikið ferli sem fer í gang þegar maður skrifar bók, allt frá hugmynd að prentun.“