„Hef ekki farið í Euróvision-partý í tíu ár“ segir Þórður Helgi Þórðarsson
Landsmenn munu sjálsagt safnast saman fyrir framan viðtækin um helgina enda stíga Vinir Sjonna á svið í Þýskalandi og flytja framlag Íslendinga í Euróvision annað kvöld. Margir gera sér glaðan dag og víða eru haldin svokölluð Euróvisison-partý. Við heyrðum í útvarpsmanninum og Njarðvíkingnum Þórði Helga Þórðarssyni, betur þekktum sem Dodda litla, og spurðum hann hvort eitthvað slíkt væri á döfinni hjá honum. Við fengum hann jafnframt til að spá fyrir um sigurvegara keppninnar í ár.
„Ég er lítið í Júróvision-partýum en ég fylgist með þessu öllu,“ segir Doddi. Hann segist ekki þola lætin og og vesenið sem fylgir þessum teitum, hann kjósi frekar að heyra og sjá það sem er í gangi. „Svo fær maður sér kannski smá rautt með og verður kannski mjúkur yfir stigagjöfinni,“ bætir Doddi við
„Síðastliðin tíu ár hef ég sagt nei við öllum þessum partýum. Við fjölskyldan komum hins vegar saman og horfum á þetta, þar er ró og næði á meðan krakkarnir eru þægir,“ segir útvarpsmaðurinn léttur í bragði.
Doddi segir það sennilega vera einhvern öfuguggahátt sem knýji hann í að horfa á þetta. Honum finnist þetta í raun drepleiðinlegt en samt verði hann að horfa. Hann telur að Frakkar eða Danir séu líklegir sigurvegarar í ár og hann telur Vini Sjonna hreppa 13. sætið að þessu sinni.
[email protected]