Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Hef eitthvað til að þurrka af
    Þórdís Ásmundsdóttir, sem oftast er kölluð Dísa.
  • Hef eitthvað til að þurrka af
    Steiasafnið er ansi fallegt.
Laugardagur 15. nóvember 2014 kl. 09:00

Hef eitthvað til að þurrka af

Heimili Þórdísar Ásmundsdóttur er orðið að hálfgerðu byggðasafni í Grindavík.

Þórdís Ásmundsdóttir, sem oftast er kölluð Dísa, fluttist frá Stöðvafirði til Grindavíkur árið 1993. Húsið sem hún býr í heitir Akur, sem staðið hefur við fjöruborðið frá árinu 1920. Húsið vekur gjarnan mikla athygli þeirra sem eiga leið fram hjá því það er bæði fallegt og umhverfis það eru margir áhugaverðir og skrautlegir munir. Heimili Dísu hefur smám saman breyst í hálfgert byggðasafn því þegar gengið er inn í það er nánast hver fersentrimetri nýttur með munum sem hún hefur safnað í tímans rás.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hér kennir ýmissa grasa eins og sjá má.

Tíu þúsund pennar
„Ég kom með sitt lítið af hverju með mér frá Reyðarfirði, aðallega steina. Ég hafði lengi safnað steinum, enda mikið um fallega steina þar. Eitt sinn kom kona til mín á Sjóaranum síkáta. Ég hafði aldrei séð þessa konu fyrr né síðar. Hún sagðist eiga land að fjöru hérna austan megin við bæinn og þar hefði rekið að hval. Ég mætti fara þangað og ná mér í bein ef ég vildi. Sonarsonur minn fór með mér og hjálpaði mér að sækja beinin. Það eru rifbeinin sem eru fyrir utan. Svo vatt þetta bara upp á sig og fleira bættist við héðan úr Grindavík,“ segir Dísa. Hún er ósköp hógvær og finnst ekki mikið koma til þeirra tíu þúsund penna, mörg hundruð lyklakippna og ýmislegs annars sem hengt er um allt hús. Í lofti eldhússins hangir fjöldinn allur af kaffikrúsum. „Fólk ýmist kemur með hluti til mín eða sendir þá til mín víða að úr heiminum. Ég á penna frá Kína, Bandaríkjunum, Englandi, Svíþjóð og Noregi. Bara nefndu það. Margt af því fólki sem kemur hingað að skoða sendir mér svo eitthvað síðar.“

Spil,  jólakort, afmæliskort, póstkort...bara nefndu það.

Fædd safnari
Dísa segist halda mest upp á mjólkurbrúsa og einnig skilvindu og stokk. Spurð hvort hún hafi hafi alltaf viljað geyma hluti segist hún hlæjandi telja að hún hafi fæðst svoleiðis. „Ég hef aldrei hent neinu. Ég á öll mín jólakort, afmæliskort og megnið af því sem ég hef eignast.“ En hvað gefur henni mest við að safna hlutum og halda upp á þá? „Ætli það sé ekki bara ruslasöfnun,“ segir Dísa hlæjandi og bætir við „Nei mér finnst bara gaman að þessu og guðs fegin núna, þegar ég er orðin svona fullorðin og hætt að vinna, að hafa eitthvað að gera við að þurrka af öllu þessu dóti og drasli. Það er ekkert sérstakt skipulag á þessu. Ég hef nánast hent þessu upp hér og þar. Þetta kemur ekkert svo illa út. Dúkkurnar eru t.d. allar í röð þarna óvart.“

Fullur gangur af fólki
Erlendir gestir og aðrir gestir sem koma til Dísu segir hún koma vegna þess að þeir áttu leið framhjá húsinu en svo komi einnig gestir sem sem hafa heyrt frá öðru fólki sem hefur kíkt við. „Sumir ganga bara beint inn og stundum er bara fullur gangur af fólki þegar ég kem innan út eldhúsinu, sem var náttúrlega ekki alveg meiningin.“ Stundum staldri fólk við í nokkra tíma og stundum bara stutt. Það sem vekur gjarnan mesta athygli og lukku hjá gestum telur Dísa vera steinina fyrir utan. „Svo verður það náttúrulega rosalega forvitið þegar það kemur inn. Þetta er fólk á ýmsum aldri og hingað koma einnig leikskóla- og grunnskólakrakkar sem gaman er að fá. Það er sagt að það sé gott að búa í Kópavogi en ég held að það sé ekkert verra að búa í Grindavík,“ segir Dísa kát að lokum.

Akur í Grindavík.

Gömul ílát.

VF/Olga Björt